Menntun, hagtölur og heimska

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs heggur í sama knérunn og Samtök atvinnulífsins: Íslendingar útskrifast of seint úr framhaldsskóla og háskóla. Ráð framkvæmdastjórans er að stytta námið í grunn- og framhaldsskóla.

Menntakerfið dettur ekki af himnum ofan, það verður til hægt og bítandi og mótast af samfélaginu sem það þjónar. Áhugi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins á skólakerfinu er ekki sprottin af umhyggju fyrir nemendum eða menntun þjóðarinnar. Atvinnulífið vill aukið framboð af vinnuafli, það er allt og sumt. En tilfellið er að það litla sem atvinnulífið nú þegar kemur að skólakerfinu gerir atvinnulífið illa eins og fréttir af vandræðum liðnnema með að fá samning staðfesta.

Menntakerfið á Íslandi, allt fram að meistara- og doktorsnámi, sem er nýlegt nám hér á landi, hefur þjónað samfélaginu prýðilega. Sérstaklega eru framhaldsskólar sveigjanlegir, bæði gagnvart ytri aðstæðum, eins og sást i hruninu þegar skólarnir tóku við atvinnulausum ungmennum, og ekki síður gagnvart nemendum sem geta valið um að ljúka námi á þrem til fimm árum, - og þess vegna lengur.

Hagtölunálgun Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs á skólakerfið er beinlínis hættuleg. Styttingin á námi sem þessi samtök krefjast mun leiða til minni sveigjanleika fyrir nemendur og hópar ungmenna sem í dag eiga hvergi höfði sínu að halla nema í framhaldsskólanum munu verða útundan.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð eru ekki trúverðugir aðilar í umræðunni um menntun og skólakerfi. Heimska þessara samtaka er að setja þrönga eiginhagsmuni ofar almannahag.


mbl.is Stytting náms hagkvæmur kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristján Þorvarðarson

Einkennilegt að klína styttingu námstímans á atvinnulífið! Þessi umræða er fjarri því ný af nálinni og einstaka skólar eru þegar orðnir að þriggja ára skólum, í það minnsta að hluta til. Nægir þar að nefna Kvennaskólann í Reykjavík sem er öflugur framhaldsskóli. Og rétt er að hafa í huga að þótt “ideal” námstími til stúdentsprófs verði í framtíðinni miðaður við 3 ár þá verður sveigjanleikinn afram til staðar og nemendur geta stundað sitt nám á þeim hraða sem þeim hentar. Á þetta sérstaklega við áfangaskólana sem bjóða upp á mikinn sveigjanleika hvað námsframvindu varðar.

 

En það sem ætti að vekja flesta til umhugsunar er að næstum fjórðungur þeirra sem hefja nám í framhaldsskóla ljúka því ekki og hutfall þeirra sem útskrifast nokkurn veginn á réttum tíma er mun lægra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Um þetta má lesa nánar í skýrslu Samráðsvettvangs. Við þessu er eðlilegt að bregðast og reyna að leita leiða til að stytta námstímann almennt séð. Vegurinn að stúdentsprófi hér á landi er að öllu jöfnu 14 ár meðan hin Norðurlöndin miða við 12,5 – 13 ár. Þar af leiðandi ofur eðlilegt að skoða þessi mál heildstætt og engin ástæða til að ætla að menn gangi erinda einhverra klíkuafla þegar hugmyndir eru reifaðar.

 

Allir hafa áhuga á menntamálum þjóðarinnar og ekki hvað síst atvinnulífið. Skárra væri það nú! Hugmyndir manna varðandi menntakerfið í dag er að settur verði á fót víðtækur samráðsvettvangur um framtíðarstefnu menntakerfisins og að atvinnulífið hafi þar sterka aðkomu. Um þetta má lesa í tillögum sem starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins skilaði nýverið frá sér. Áhugi atvinnulífsins á menntamálum er því fullkomlega eðlilegur og í takti við þær tillögur sem nú liggja fyrir.

Jón Kristján Þorvarðarson, 11.7.2013 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband