Þriðjudagur, 25. júní 2013
Tvennt getur lamað ríkisstjórn Sigmundar Davíðs
Ef Samfylking og VG sigruðu vorið 2009 í þingkosningum vegna byltingarástands þá var sigur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í vor gagnbylting. Forsætisráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag og líkir vinnubrögðum stjórnarandstöðunnar og aðalmálgagni þeirra, RÚV, við loftárásir á ríkisstjórnina.
Margt bendir til að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafi ofmetið styrk sinn eftir sigurinn í vor og vanmetið þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi eftir hrun. Afleiðingin af hvorutveggja er linkuleg stefnumótun og skortur á forgangsröðun.
Þjóðin man of vel eftir auðssöfnun fyrir hrun, sem byrjaði í útgerðinni og smitaði þaðan út frá sér, til að kaupa það hrátt að brýnast sé að lækka veiðigjöld á útgerðina. Ríkisstjórnin átti að útskýra það mun betur hvað stóð til að gera en ekki gefa sér að fólk myndi kyngja umyrðalaust. Enginn ætti að vita betur en Sigmundur Davíð að Icesave-málið er orðið sniðmát fyrir ,,uppreisn að neðan" sem ýmist getur verið sjálfssprottin eða hönnuð, jafnvel blanda af hvorttveggja.
Ofmat á eigin styrk kom m.a. fram í orðræðu um samráðsstjórnmál annars vegar og hins vegar veikluleg og mótsagnakennd afgreiðsla á stórmálum, ESB-umsókninni sérstaklega. Samráð var strax skilið af stjórnarandstöðu sem veikleikamerki, - sem og kom á daginn. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir eru með skýra og ótvíræða stefnu í flokkssamþykktum um að ESB-ferlið skuli stöðvað. Niðurstaða þingkosninganna er að eini ESB-flokkur landsins fékk 12,9 prósent fylgi. Ríkisstjórninni var í lófa lagið að taka af öll tvímæli og lýsa mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu sem framtíðarsymfóníu sem verði ekki haldin að óbreyttum meirihluta á alþingi.
Úr því sem komið er verður ríkistjórnin að freista þess að halda sjó á sumarþing en nota annars sumarið til að undirbúa haustið. Tvennt er það sem ríkisstjórnin þarf að átta sig á, ef ekki á illa að fara.
Í fyrsta lagi verður ríkisstjórnin að átta sig á hvaða meginrök eru fyrir því að stjórnarflokkarnir fengu meirihluta í vor. Þjóðin var búin að fá nóg af samfélagstilraunum vinstriflokkanna og vill stöðugleika og ábyrgð þar sem áður var upplausn og ábyrgðarleysi.
Í öðru lagi verður að forgangsraða verkefnum ríkisstjórnarinnar og vísa í skýra framtíðarsýn. Þessi forgangsröðun má ekki vara í bága við meginrökin um stöðugleika og ábyrgð, sem nefnd eru hér að ofan, heldur styðja þau. Af þessu leiðir að hugmyndir um allsherjarlækkun á höfuðstól skulda eru út í bláinn.
Ef ríkisstjórn Sigmundar Davíðs er ekki með á hreinu umboð sitt og getur ekki forgangsraðað í samræmi við skýra framtíðarsýn er hætt við að loftárásir stjórnarandstöðu og RÚV þvingi ráðherrana niður í neðanjaðarbyrgið. Og þaðan er erfitt að hafa yfirsýn og stjórna liði sínu á hinum pólitíska vígvelli.
Athugasemdir
Hrikalega góð stjórnmálaskýring, þeir eiga ekki við nein lömb þar sem stjórnarandstaðan er,þar eru rebbar.
Helga Kristjánsdóttir, 25.6.2013 kl. 16:01
Rebbar segir Helga, sennilega hefur hún gleymt eins og Sigmundur hvernig núverandi stjórnarflokkar höguðu sér í stjórnarandstöðu. Heyrst hefur að sumir þingmenn séu fullir eftirsjár þó ekki væri nema vegna þess að þeir geta ekki ætlast til þess að núverandi stjórnarandstaða sýni þeim neina miskunn miðað við hvað gekk á hér áður.
Óskar, 25.6.2013 kl. 17:03
God samantekt.
Ólafur Als, 25.6.2013 kl. 17:34
Mér finnst þessu vera vel lýst af bloggritara.
Og enda þótt stjórnarandstaðan fari nú fram af grunnfærnislegra offorsi en búast mátti við - jafnvel af henni - þá er margt enn óljóst um framvinduna.
Árni Gunnarsson, 25.6.2013 kl. 18:28
Vandi nýrrar stjórnar liggur ekki hjá stjórnarandstöðu, vandinn er heima hjá þeim sjálfum í veiklulegum vinnubrögðum og klaufalegum uppákomum.
Jón Ingi Cæsarsson, 25.6.2013 kl. 19:21
Fæstir úr kattasmölunargenginu geta talist færir um að dæma hvað er klaufalegt og veiklulegt og hvað ekki. Hroki og yfirgangur þeirra hreinlega leyfir það ekki.
Elle_, 25.6.2013 kl. 21:01
Við skulum ekki gleyma málflutningi stjórnarflokkanna og loforðum þeirra fyrir kosningar.
Þegar það er borið saman við þau verk sem þegar hafa verið boðuð, er ekki annað að sjá en ríkisstjórnin sé að uppfylla kosningaloforðin.
Hin mikla hækkun veiðigjalds hefur verið gagnrýnd af báðum stjórnarflokkum, allt frá því það var við umræðu og afgreiðslu Alþingis. Þingmenn beggja þessara flokka sögðu þá strax að það yrði endurskoðað og þeim málflutningi var haldið á lofti í kosningabaráttunni.
Sigur Framsóknar byggðist fyrst og fremst á loforði um leiðréttingu lána, svo það væri pólitískt harakiri fyrir flokkinn að falla frá þeirri stefnu.
Um ESB málið er það eitt að segja að báðir flokkar lofuðu að stöðva viræðurnar og láta þjóðina ákveða framhaldið. Þetta hefur þegar verið gert, þó ekki sé búið að ákveða hvenær kosið verður. Eðlilegast að það verði ekki gert fyrr en séð er hvert ESB stefnir, hvort sem sú niðurstaða fæst á þessu kjörtímabili eða síðar. Mestar líkur eru þó á að eftir kosningarnar í Þýskalandi muni verða einhverskonar bylting innan ESB, ef ekki þá, þá eftir kosningar til Evrópuþingsins. Því ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir um framhald ESB fyrir lok þessa kjörtímabils hér á landi. Þetta mál er komið í ágætis farveg hjá okkur og engin ástæða til að flýta því neitt frekar.
Það liggur fyrir að ríkisstjórnin er að framkvæma þá hluti sem hún lofaði. Þessir tveir flokkar fengu afgerandi stuðning þjóðarinnar til þeirra verka. Stjórnarandstaðan er auðvitað á öndverðu máli og ekkert um það að segja. Varðandi þátt fjölmiðla í árásum á núverandi stjórnarflokka, með útúrsnúningum, afbökunum og beinlýnis rangfærslum, er það aftur alvarlegra mál. Þar virðist allt mega í nafni "fréttaflutnings" og engu skeitt hvort sannleikur fylgir.
Hitt er svo aftur spurning hvort forsætisráðherra eigi að vera að kvarta um það opinberlega. Slíkt er gjarnan túlkað sem veikleikamerki.
Gunnar Heiðarsson, 26.6.2013 kl. 04:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.