Þriðjudagur, 18. júní 2013
Samfélag er samvinnuverkefni
Sigmundur Davíð sló nýjan tón í stjórnmálaumræðu síðustu ára í 17. júní-ræðu ársins 2013. Forsætisráðherra greindi og hafnaði tveim meginstefjum pólitískrar umræðu seinni ára.
Í fyrsta lagi tók Sigmundur Davíð fyrir málflutning Samfylkingar um að við gætum ekki á eigin spýtur rekið fullveðja samfélag á Íslandi og yrðum að segja okkur til sveitar hjá Brussel. Forsætisráðherra hafnaði skipulegri vanmetaorðræðu samfylkingarfólks um ónýta Ísland. Hann sagði
Hugmyndin um fullveldi byggist á því að menn trúi því raunverulega að íslensku þjóðinni farnist best þegar hún ræður sér sjálf og hefur full yfirráð yfir auðlindum sínum og örlög sín í eigin höndum.
Það er ekki hægt að segja, auðvitað styð ég fullveldi Íslands en...heimurinn er orðinn svo flókinn fyrir litla þjóð, en milliríkjaviðskipti eru orðin svo mikil, en ríkjabandalög eru orðin svo öflug...Hvað þá að bæta því við að hugsanlega getum við ekki stjórnað okkur sjálf. Ef til vill sé best að flytja inn aga erlends valds.
Stór hluti áróðurs ESB-sinna gengur einmitt út á þetta: að Íslendingar geti ekki og kunni ekki og séu svo lítilsigldir að borin von sé að þeir standi á eigin fótum. Sigmundur Davíð kann söguna og vakti athygli þeim meginrökum sjálfstæðisbaráttu síðustu 170 ára að forsenda velferðar á Íslandi er að landsmenn sjálfir fari með forræði íslenskra mála.
Samfylkingarorðræðan reis hæst með ESB-umsókninni frá 16. júlí 2009. Í ræðu sinni í gær urðaði Sigmundur Davíð leifarnar af framlagi Samfylkingar til íslenskra stjórnmála.
Áður en Samfylkingin tók sviðið, eftir hrunið 2008, var hér ráðandi auðmannapólitík sem átti uppsprettu í Sjálfstæðisflokknum. Auðmannapólitíkin er með það meginstef að uppspretta auðs sé einstaklingurinn og athafnafrelsi einstaklingsins sé ofar öðrum samfélagslegum verðmætum. Rökrétt niðurstaða auðmannastjórnmálanna birtist okkur í þjóðargjaldþrotinu haustið 2008.
Sigmundur Davíð tók afstöðu gegn auðmannapólitíkinni með áherslu á jöfnuð Íslendinga og jafnræði, og nefndi sérstaklega landsbyggð og þéttbýli. Menntunin er í huga forsætisráðherra verkfærið til að viðhalda meginkosti íslensk samfélags
Við þurfum að gæta að samheldninni í samfélaginu og þar er almenn menntun mikilvæg. Ísland hefur ekki verið stéttskipt á sama hátt og mörg önnur lönd og það er einn af mörgum góðum kostum þess að byggja þetta land. En það er ekki sjálfgefið að svo verði um aldur og ævi. Þess vegna þurfum við að gæta þess vel að hér verði ekki til tvær eða fleiri þjóðir í sama landi.
Áherslan á jöfnuð og samheldni gengur þvert á boðskap auðmannastjórnmálanna um að athafnafrelsi einstaklingsins sé upphaf og endir velferðar. Trúr rótum Framsóknarflokksins í samvinnuhreyfingunni segir fyrsti réttnefndi forsætisráðherra 21. aldarinnar í niðurlagi fyrstu 17. júní ræðu sinnar
Samfélag er samvinnuverkefni, þar sem öll störf eiga að vera mikils metin og allir þegnar þess eiga að búa við jafnan rétt og aðstöðu. Ísland er svo ríkt af tækifærum, auðlindum og mannauði að hér eiga allir að geta búið við velferð.
Sigmundur Davíð nálgast verkefnið af einurð. Hann er búinn að leggja niður fyrir sig hvert skal halda, hvað skal varast og þau gildi sem skal heiðra. Forsætisráðherra eru allir vegir færir.
Evrópusambandið þarf að sanna sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samfylkingin hefur aldrei haldið því fram að við getum ekki upp á eigin spýtur rekið hér fullveðja samfélag frekar en aðrir okkar sem erum hlynnt því að við tökum þátt í þeim samstarfsvettvangi sjálfstæðra og fullvalda lýðræðisríkja Evrópu sem ESB er. Við höfum einfaldlega haldið því fram að kostir þess að vera aðilar að ESB séu meiri en gallarnir og því muni það að öllum líkindum bæta lífskjör hér á landi að við tökum þátt í þessu samstarfi sem fullgildir meðlimir.
Enda er það svo að það er fátt sem bendir til annars en að aðild að ESB muni bæta hér lífskjör. Þetta er ekki töframeðal en þetta færir okkur í hendur tækifæri og í raun betri stöðu til að bæta okkar hag.
Sigurður M Grétarsson, 18.6.2013 kl. 22:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.