Þriðjudagur, 11. júní 2013
Ferguson: Sambandsríki Evrópu er lokamarkmiðið
Stjórnmálamenn í ESB-ríkjum, en þó ekki í Bretlandi, vinna að því hörðum höndum að búa til Sambandsríki Evrópu. Strax eftir þýsku kosningarnar í haust tekur þróunin stökk fram á við, segir Njáll Ferguson ein helsta súperstjarna sagnfræðinnar í viðtali við Die Welt.
Ferguson skrifar ,,stórar" sögubækur um hæðir og lægðir fjármálastórvelda og orsakir heimsstyrjalda. Hann er breskur en kennir í Harvard.
Sagnfræðingurinn segir Þjóðverja standa á milli tveggja kosta. Í fyrsta lagi að hætta evru-samstarfinu, og það myndi þýða endalok ESB. Í öðru lagi að samþykkja sameiginlega ábyrgð á skuldum evru-landanna, líkt og Vestur-Þjóðverjar tóku á sig skuldir Austur-Þjóðverja við sameiningu þýsku ríkjanna eftir lok kalda stríðsins.
Ferguson er þó ekki bjartsýnn á framtíð Stór-Evrópu. Hann telur stöðnun verða hlutskipti meginlandsins og bendir á óhagstæða mannfjöldaþróun og skort á orkuauðlindum í því samhengi.
Engu að síður munu evru-ríkin sameinast, telur Ferguson, og gerir lítið úr andstöðuhreyfingum við ESB. Undantekningin sé þó UKIP í Bretlandi. Hann býst við kosningum um veru Bretlands í Evrópusambandinu ekki síðar en árið 2015 og að tvísýnt verði um úrslit. Í öllu falli mun Bretland ekki verða hluti af evru-samstarfinu.
Bankasamband evru-ríkjanna verður stórt skref í átt að sambandsríki, segir Ferguson. Þýskir fjölmiðlar, t.d. Spiegel, segja stjórnvöld í Berlín bremsa ferlið í átt að bankasambandi. Hvorki samþykkja þýsk stjórnvöld samevrópska yfirstjórn bankamála né fjármuni til að endurskipuleggja gjaldþrota fjármálastofnanir sem liggja þvers og kruss um alla álfuna og halda efnahagslífinu í kverkataki.
Kosningarnar í Þýskalandi í haust eru hindrun sem evrópskir sambandssinnar ætla að bíða af sér. Eftir kosningarnar verður samrunaferlið keyrt áfram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.