Sunnudagur, 9. júní 2013
RÚV í ESB leiðangri
Fyrir rúmu ári var Ólafur Ragnar Grímsson endurkjörinn forseti Íslands. Framboð Ólafs Ragnars var með skýra tilvísun í fullveldið og andstöðu við ESB-umsókn vinstristjórnarinnar. Að svo miklu leyti sem stuðningur við framboð Ólafs Ragnars var flokkspólitískur kom hann úr röðum framsóknarmanna, sjálfstæðismanna og fullveldissinna úr röðum vinstrimanna.
Fyrir rúmum mánuði sigruðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur þingkosningarnar, fengu þar meirihluta. Báðir flokkar eru með þá stefnu að ESB-ferlinu skuli hætt. Til viðbótar setja flokkarnir báðir upp öryggisgirðingu um að ESB-ferlið færi ekki af stað á ný án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fyrsta verk nýs utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, var að stöðva alla vinnu við ESB-umsóknina. Varaformaður Framsóknarflokksins staðfesti þann rökrétta skilning að ekki yrði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.
Forseti Íslands tíundaði stöðu ESB-málsins í þingsetningu í vikunni og bætti við þeim upplýsingum sem hann hafði um að Evrópusambandið hefði lítinn áhuga á að ljúka samningum við þjóð sem ekki sýndi neina löngun til að ganga inn í Evrópusambandið.
Össur Skarphéðinsson fráfarandi utanríkisráðherra afflutti ávarp forsætisráðherra og útlagði það á sama hátt og kölski biblíuna.
Össuri er vorkunn, hann situr jú í 12,9 prósent flokknum sem vill Ísland inn í Evrópusambandið hvað sem það kostar.
RÚV er á hinn bóginn ekki vorkunn. RÚV á að flytja fréttir en ekki búa til atburðarás. RÚV leggur sig fram um að halda uppi málstað ESB-sinna með því að taka undir útúrsnúninga manna eins og Össurar.
RÚV lítur á sig sem málpípu Evrópusambandsins hér á landi. Frétt RÚV um að ESB vilji Ísland inn í sambandið er með yfirskriftina ,,ESB svarar ummælum Ólafs Ragnars". Fyrirsögnin gefur til kynna að ESB hafi brugðist sjálfstætt við orðum forsetans. En svo er ekki. Í fréttinni kemur fram að RÚV leitaði eftir viðbrögðum frá stækkunarskrifstofu ESB.
RÚV leggur sig fram um að grafa undan niðurstöðu forsetakosninganna fyrir ári og þingkosninganna í síðasta mánuði í stærsta pólitíska deilumáli seinni ára. Er það hlutverk opinberrar stofnunar að ómerkja niðurstöðu lýðræðislegra kosninga?
Athugasemdir
Þrír aðilar eru að þessu máli eins og því er lýst hér fyrir ofan. Forseti Íslands. ESB. Fyrrverandi utanríkisráðherra.
Fjölmiðill hlýtur að leita eftir því og birta hvað þessir aðilar segja.
Hann birtir fyrst ummæli forsetans.
Hann birtir síðan ummæli fyrrverandi utanríkisráðherra.
Hann birtir að lokum ummæli talsmanna ESB.
Ég fæ ekki skilið af hverju aðeins hefði mátt birta ummæli tveggja af þeim þremur sem þarna áttu hlut að máli.
Ómar Ragnarsson, 9.6.2013 kl. 11:13
Þessi aðildarumsókn er ekki pólitískt mál. Það eru andstæðingar ESB sem eru að reyna að gera þetta að pólitísku deilumáli. Það er á endanum rískisborgari þessa lands sem ákveður fyrir sína hönd hvort hann styðji ESB umsókn eða ekki.
Það er ótrúlegt að andstæðingar ESB séu að gera út áróður sem er til þess eins að eyðileggja aðildarviðræðurnar við ESB. Þetta er valdníðsla.
Þegar Íslendingar voru að taka í notkun talsímann þá fjölmenntu bændur til Reykjavíkur til að mótmæla komu símans. Þetta er ekki frábrugðið þeim mótmælum.
Ómar! þetta er hugmynd andstæðinga ESB á hlutleysi ef andstæðingum þeirra er ekki veittur aðgangur að sama miðli og þeir eru að tjá skoðanir sínar. Aðilum sem eru fylgjandi ESB umsókn er til að mynda ekki veittur aðgangur að Morgunblaðinu.
Guðlaugur Hermannsson, 9.6.2013 kl. 12:14
Ég sem ríkisborgari þessa lands var ekki spurður í upphafi hvort ég vildi fara í aðlögun að ESB og regluverki þess eða ekki svo ég er bara ekki alveg að skilja þessi læti í ESB-sinnum sem virðast fara hamförum allstaðar og segja þetta brot á lýðræði,en hvað kalla þessir sömu menn það þegar hér var rekin í gegn umsókn á Alþingi með pólitískum þvingunum til að fara í aðlögun að ESB og hinn almenni ríkisborgari hér á landi ekki spurður.Stundum gæti maður haldið að þessi aðlögun snúist um eiginhagsmuni og hagsmuni verslunar en ekki hagsmuni hins almenna borgara hér á landi.Og svo þessi endalausa þvæla um að kíkja hvað er í boði er bara ekki til,það sem er í boði er aðlögun að regluverki ESB og þegar við höfum klárað hana og dagsett á hvaða tíma við ætlum að klára að taka upp regluverkið þá teljumst við reiðubúin til að ganga inn............
Marteinn Unnar Heiðarsson, 9.6.2013 kl. 13:57
Mér finnst gaman að rökræða við fólk en sumt fólk er ekki hægt að rökræða við.
Guðlaugur Hermannsson, 9.6.2013 kl. 14:46
Guðlaugur, þú ert ekki að rökræða um eitt eða neitt. Þú brenglar. Þú sagðir andstæðinga vera að eyðileggja viðræður og kallaðir það valdníðslu. Nei, það var valdníðsla að hefja viðræður fyrir minnihlutann og án samþykkis þjóðarinnar. Og þá valdníðslu á að stoppa. Það er ótrúlegt að þú skulir ekki skilja þetta.
Þið, miklu-minnihlutinn, getið svo safnað liði, fáið kannski nokkra, og gáð hvort þið getið ekki knúið fram þjóðaratkæðið sem stærrihlutanum var meinað um af ykkur.
Elle_, 10.6.2013 kl. 00:11
Guðlaugur , Ég velti vöngum yfir þínum skrifum hér fyrir ofan
"Það er ótrúlegt að andstæðingar ESB séu að gera út áróður sem er til þess eins að eyðileggja aðildarviðræðurnar við ESB. Þetta er valdníðsla."
27% íslendinga vilja ganga í ESB. Þeirra einu raunverulegu rök eru evru gulrótin. Sem stenst ekki.
Mikill meirihluti þjóðarinnar hefur ekki áhuga á að framselja stóran hluta valds til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem er þó stjórnað að mestu leiti af þjóðverjum . Meirihlutinn hefur kjark og þor til að vilja stjórna sér sjálfur. Pínulítil þjóð með eigið tungumál ,eigið land og yfirdrifið af náttúruauðlindum. Sem vill eiga sig sjálf og eiga viðskipti og samninga við þá sem hún vill og verja sína hagsmuni sjálf.
"Þegar Íslendingar voru að taka í notkun talsímann þá fjölmenntu bændur til Reykjavíkur til að mótmæla komu símans. Þetta er ekki frábrugðið þeim mótmælum."
Munurinn er sá að annað málið er um tækni. Hitt málir snýr að þjóðfrelsi.
Það er eðlismunur á því. Er það ekki?
Ef það er virkilega svo að þú sérð lítinn mun á þessum tveimur málum,þá skírir það um leið af hverju þú er aðildarsinni.
Nú er tækifæri fyrir þig að tilkynna að ég gangi á sauðskinnskóm ,varla kominn úr moldarkofanum og að þjóðrembufýlan angi af mér. :) Það er fátt sem gleður mig meira.
Snorri Hansson, 10.6.2013 kl. 19:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.