Tacitus og vopnabrjóst Freydísar

Rómverski stjórnmálamaðurinn og rithöfundurinn Tacitus skrifaði hundrað árum eftir fæðingu Krist um germanskar þjóðir. Í kafla átta í Germaníu segir frá þeim sið germanskra kvenna að þegar karlpeningur þeirra fer halloka í orustu stígi þær fram og eggi til dáða með brjóstin ber.

Í Eiríks sögu rauða segir af laundóttur hans, Freydísi, er fór til Vínlands með Þorfinni karlsefni. Í átökum við innfædda létu þeir norrænu undan síga. Steig þá Freydís fram og sagði

Hví rennið þér undan slíkum auvirðismönnum, svo gildir menn er mér þætti líklegt að þér mættuð drepa þá svo sem búfé? Og ef eg hefði vopn þætti mér sem eg mundi betur berjast en einnhver yðvar.

Eggjunarorð Freydísar duga skammt enda Skrælingjarnir margir og þeir norrænu hopa. Freydís lætur verkin tala. 

Hún fann fyrir sér mann dauðan, Þorbrand Snorrason, og stóð hellusteinn í höfði honum. Sverðið lá hjá honum og hún tók það upp og býst að verja sig með. Þá koma Skrælingjar að henni. Hún tekur brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið. Þeir fælast við og hlaupa undan og á skip sín og héldu á brottu. Þeir Karlsefni finna hana og lofa happ hennar. 

Hér er sama minnið um afl brjósta germanskra kvenna á vígvelli.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband