Sunnudagur, 28. apríl 2013
Fjórar ástæður fyrir forræði VG á vinstri kantinum
VG er líklegri en Samfylkingin til að verða leiðandi flokkur á vinstri kanti stjórnmálanna. Kemur þar fernt til.
Í fyrsta lagi er hugmyndalegur grunnur VG traustari þar sem grænum stjórnmálum er fléttað við jafnréttispólitík og velferðarhugsun. Í öðru lagi er Framsóknarflokkurinn búinn að valda miðju stjórnmálanna en þar ætlaði Samfylkingin sér að standa til að eiga valkosti bæði til hægri og vinstri. Í þriðja lagi situr Samfylkingin uppi sem einsmálsflokkur og er algerlega háður hvernig Evrópusambandinu vegnar. Kreppan í ESB leysist ekki í bráð og heldur Samfylkingunni í bóndabeygju.
Í fjórða og síðasta lagi er VG með leiðtoga sem virkar. Katrín Jakobsdóttir sýndi það í kosningabaráttunni að hún nær til fólks. Katrín er skýr og ákveðin en þó mannasættir. Árni Páll gerði hverja vitleysuna á fætur annarri í kosningabaráttunni. Hann skaut sig í fótinn stjórnarskrármálinu á síðustu dögum þingsins. Árni Páll skildi ekki að ESB-málið var dragbítur á flokknum. Hann reyndi að færa flokkinn til hægri en fékk engar viðtökur hjá kjósendum á þeim væng stjórnmálanna.
Aðeins munar tveim prósentustigum á VG (10,9) og Samfylkingu (12,9). VG er á hinn bóginn í betri færum að þróa vinstripólitík sem ætti að geta náð til allt að þriðjungs þjóðarinnar.
Gamalkunnugt mynstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
sjaldan er ég sammála þér, en nú er ég það. Þá er vert að benda á þá staðreynd að VG er nú sterkari flokkur en áður eftir að Jón Bjarnason fóru út úr flokknun ásamt Valda kalda.
Eftir stendur vinstri sinnaðri verkalýðs- og jafnréttisflokkur er hefur sérstaka áherslu á umhverfismál. Flokkurinn er nú án skósveinanna frá forystu bændasamtakanna.
Regnboga- kallarnir fengu aldeilis útreiðina sem sýnir best að þetta brölt í Jóni og félögum á fylgi meðal landsmanna.
Kristbjörn Árnason, 28.4.2013 kl. 17:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.