Laugardagur, 30. mars 2013
Þorsteinn Pálsson skilur ekki ESB
Helsti talsmaður Evrópusambandsaðildar Íslands er Þorsteinn Pálsson. Hann skrifar í Fréttablaðið og skilgreinir ESB þennan veg
Evrópusamstarfið byggir fyrst og fremst á þeirri hugsun að athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja yfir landamæri og út fyrir landsteina auki hagvöxt og velferð. Í annan stað er hugsunin sú að tryggja verði jafnræði með samræmdum leikreglum. Í þriðja lagi er hugsunin sú að slíkt samstarf skyldra þjóða efli þær í samskiptum við fjarlægari heimshluta. Loks hafa menn talið að með þessu móti megi tryggja frið og öryggi betur en með annars konar samskiptaháttum.
Ef skilgreining Þorsteins væri rétt þá mætti ætla að sú þjóð sem hvað dyggilegast hefur barist fyrir frjálsri verslun í 200 ár væri í forystu fyrir þessu hugsjónabandalagi athafnafrelsis. Bretland, sem eftir Napoleónsstyrjaldirnar í byrjun 19. aldar, er brjóstvörn frjálsra viðskipta í Evrópu er á hinn bóginn á jaðri ESB og sterk hreyfing er þar í landi fyrir útgöngu úr sambandinu. Bretland kom seint inn í ESB-samstarfið og ætlar alls ekki að taka upp evruna, - sem er yfirlýsing um að frjáls viðskipti og ESB eru ekki einn og sami hluturinn.
Evrópusambandið er ekki bandalag í þágu verslunar og viðskipta. Evrópusambandið er tilraun stóru meginlandsríkjanna, Frakklands og Þýskalands, til að setja saman yfirþjóðlegt samstarf og regluverk sem stöðvaði ítrekuð vopnaviðskipti þessara þjóða.
Þýskaland var til sem þjóðríki eftir stríð við Frakka 1870. Tvisvar á nýliðinni öld efndu þessi ríki til styrjaldar sín á milli og fórnuðu í leiðinni lífi milljóna manna í Evrópu og heiminum öllum.
Samkeppni þýskra og franskra er rakin til afkomenda Karlamagnúsar sem var krýndur keisari Hins heilaga rómverska keisaradæmis árið 800 og átti sér höfuðborg í Aachen í Þýskalandi. Sonarsynir Karlamagnúsar skiptu með sér ríkinu um miðja 9. öld.
Evrópusambandið er afleiðing af þúsund ára togstreitu helstu ríkja á meginlandi Evrópu um forræði yfir álfunni. Forræði, sem á útlensku heitir hegemóní, er keppikefli vegna þess að forræði tryggir vöxt og viðgang stórra ríkja.
Í baráttunni um forræðið á nýöld, í 30 ára stríðinu 17. öld, kemur til sögunnar hugtakið raison d'etat, eða ríkisrök, sem segir um það bil að öllum meðölum megi beita til að tryggja hagsmuni ríkisins.
Deilur um forræði í álfunni gekk nærri Frökkum og Þjóðverjum á 20. öld Eftir tvær heimsstyrjaldir, sem sumir sagnfræðingar eru farnir að kalla seinni 30 ára stríðið, var þess freistað að setja helstu hagsmuni ríkjanna undir eina yfirstjórn, fyrst Kol- og stálbandalagið og síðar landbúnaðinn.
Samstarfsverkefnin eftir seinna stríð leiddu til Evrópusambandsins. Frakka og Þjóðverjar voru þá eins og tveir dvergar milli tveggja stórvelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.
Ríkin sex sem stofnuð til Evrópusambandsins, ásamt Þýskalandi og Frakklandi, eru Belgía, Lúxemborg, Holland og Ítalía, eru kjarnaríki á meginlandi Evrópu. Seinna komu önnur ríki til liðs við sambandið, ýmist vegna öryggissjónarmiða s.s. Finnland og Eystrasaltsríkin eða að komast undan fátækt og forneskju s.s. Írland, Spánn og Portúgal.
Ríki á jaðri Evrópu, einkum í vestri og norðri, eru með fyrirvara á samstarfinu. Hvorki Danmörk né Svíþjóð eru með evru, Bretland ekki heldur. Noregur hafnaði í tvígang að ganga í ESB og Grænlendingar eru eina þjóðin sem gekk út úr samstarfinu.
Enn er ekki ljóst hvernig tilrauninni með Evrópusambandið reiðir af. Í fimm ár hefur evru-kreppan staðið yfir og er gjaldmiðillinn þó ekki orðinn fimmtán ára.
Frakkland og Þýskaland eru með sameiginlegt forræði yfir Evrópusambandinu. Til að skjóta frekari stoðum undir evruna þurfa aðildarríki gjaldmiðlasamstarfsins, og þau eru 17 af 27 ríkjum ESB, að gefa í auknum mæli upp á bátinn fullveldi sitt. Þau tíu ESB-ríki sem ekki nota evru mun bíða átekta og meta hvort evran steyti á skeri eða hvort tekst að halda henni á floti og þá með hvaða tilkostnaði.
Ef Evrópusambandið væri viðskiptabandalag, eins og Þorsteinn Pálsson lætur liggja að, væru efnahagskerfi aðildarríkja þess ekki jafn óstöðug og raun ber vitni. Óstöðugleikinn stafar af því að Evrópusambandið ætlar sér að deila og drottna yfir þjóðríkjum.
Athugasemdir
Eins og tala við Þor stein...
Guðmundur Böðvarsson, 30.3.2013 kl. 10:44
Þetta er rangt hjá þér Páll Vilhjálmsson.
Það ert þú sem skilur ekki ESB.
Og þú sannar það eindæmum vel í þessum pistli þínum.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 30.3.2013 kl. 10:54
Góð greining hjá þér Páll.
Friðrik Hansen er líklega að tala fyrir hönd lýðræðishreyfingarinnar og sýnir að þeir eru ekki atkvæðisins verðir. Túlkanir manna eru misjafnar að vísu og fara mikið eftir því hvort þeir eru fullveldissinnar eða hallir undir afsal fullveldis til ríkjasambands. Það er hægt að sjá á orðum Friðriks Hansen og Þorsteins Pálssonar...
Páskakveðjur
Ólafur Björn Ólafsson, 30.3.2013 kl. 12:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.