Fimmtudagur, 28. febrúar 2013
Evran, trúðarnir og Össur
Hreinskilinn Þjóðverji, Peer Steinbrück, kanslaraefni jafnaðarmanna, segir niðurstöðu ítölsku kosninganna skola tveim trúðum til valda í gamla rómverska heimsveldinu. Ummæli Steinbrück valda míníkrísu í samskiptum Ítala og Þjóðverja.
Skilvirku og öguðu Þjóðverjarnir eru í myntbandalagi með Ítölum sem umgangast fjármál af öllu meiri léttúð en þeir þýsku. Með trúða í bílstjórasæti ítalska ríkissjóðsins líður Þjóðverjum illa, þar sem gjaldþrot Ítala kostar þá þýsku heila gommu.
Mörgum finnst skorta á háttvísi leiðtoga þýsku stjórnarandstöðunnar, þótt hægrimiðlar í Þýskalandi óttist að hreinskilnin muni afla Steinbrück atkvæða. Þeir sem vilja bera blak af foringja jafnaðarmanna vísa á fyrirsagnir breskra blaða um að víst voru tveir trúðar sigurvegarar ítölsku kosninganna.
Vopnabróðir Steinbrück á Íslandi, Össur Skarphéðinsson, sem víst er enginn trúður, hlýtur að senda skilaboð til Berlín um að allt sé í stakasta lagi með evruna. Evrópa öll geti sofið rótt því íslenskir samfylkingarmenn hafi tröllatrú á gjaldmiðlinum. Það munar um slíka traustsyfirlýsingu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.