Föstudagur, 7. desember 2012
ESB-tvílembingur boðar uppgjöf
Ásamt Össuri utanríkis er Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG og formaður utanríkisnefndar alþingis helst ábyrgur fyrir heimskustu utanríkisstefnu Íslands síðan á miðri 13. öld þegar Gamla sáttmála var þröngvað upp á okkur.
Meirihlutinn á alþingi fékk ekki umboð í kosningunum 2009 til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Frambjóðendur VG voru kosnir á þeim forsendum að Íslandi væri best borgið utan ESB. Svik Árna Þórs og meirihluta þingflokks VG þann 16. júlí 2009 urðu til þess að misheppnaða ESB-leiðangrinum var hrundið úr vör.
Blekkingariðja ESB-sinna um að ,,við verðum að klára ferlið" og fá ,,samning" er búin að halda lífi í umsókninni allt kjörtímabilið. Ísland mun aldrei fá neinn samning við Evrópusambandið nema að fyrir liggi staðfastur vilji þings og þjóðar að ganga inn í sambandið. Evrópusambandið býður aðeins upp á eina leið inn og það er leið aðlögunar sem felur í sér að umsóknarríki tekur jafnt og þétt upp lög og reglur sambandsins.
Umboðsleysi ríkisstjórnarinnar hefur hindrað aðlögunina og komið í veg fyrir að Ísland mæti kröfum ESB um upptöku á laga- og regluverki sambandsins.
Meirihluti alþingis ber ábyrgð á þessari óhappaför og það er meirihlutans að afturkalla ESB-umsóknina. Ekki seinna en strax.
Ferlið jafnvel lagt til hliðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ekki víst að það komi í hlut Árna Þórs að höndla með þessi mál mikið lengur. Mér finnst trúlegt að VG fái einn þingmann í hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir sig í kosningunum í vor og mættu þá vel við una sé tekið mið af því að Sóley Tómasdóttir komst inn sem 15. fulltrúi í borgarstjórn.
Ég geri ráð fyrir að úrslit borgarstjórnarkosningana endurspegli á einhver hátt stemminguna (eða skort á henni) í kringum VG í Reykjavík. M.ö.o. Það væri stórsigur fyrir VG ef að Árni þór kæmist inn sem annar maður á lista í Reykjavík norður eða suður en líklegra verður að teljast að hann nái ekki að endurnýja umboð sitt.
Seiken (IP-tala skráð) 7.12.2012 kl. 08:04
Veruleikinn er byrjaður á að gefa fallandi þingmönnum kjafstshögg í hrönnum.
Það segir sitt um andlegt gjörvi þingmanna, að núna, þremur árum eftir svik, séu þeir að átta sig á því sem venjulegir kjósendur hafa bent þeim á í heil þrjú ár.
Kannski hafa menn eins og Árni búist við því, að eftirsóknin eftir vinstripólitík sé svo sterk að hún lifi af svik og pretti. Kannski að hann hafi álitið, að hræðslupólitíkin, áróðurinn gegn Framsókn og Sjálfstæðisflokki hafi hrætt þjóðina eins og Grýla börnin í gamla daga, að enginn mannlegur máttur gæti gert ofangreinda flokka áhugaverða kosti aftur.
En Árni hefur áttað sig. Hann er á harðahlaupum eftir þjóðarvilja, en fyrir hann, því miður, of seint. Stuðningur flokkseigendafélags VG tryggir honum ekki atvinnu eftir kosningar. Ekki ætlar þjóðin að styðja hann, svo mikið er víst.
Það verða margir þingmenn VG í leit að bitlingum á næstunni. Ekkert er verra á vinnumarkaði, en fallinn þingmaður, sem nýtur einskis trausts og takmarkaðrar virðingar.
Það kæmi ekki á óvart, að örvæntingin yrði til þess, að VG ákveði að taka það skref að krefjast slita á aðlögun að ESB.
Það væri ágætt skref, en helvíti botnfrysi áður en kjósendur gæfu VG annað tækifæri til svika og pretta.
Hilmar (IP-tala skráð) 7.12.2012 kl. 08:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.