Miðvikudagur, 21. nóvember 2012
ESB er gísl þráhyggjunnar um Stór-Evrópu
Evrópusambandið er tilraun um ríkjasamstarf sem steytti á skeri þegar sameiginlegur gjaldmiðill sýndi sig ekki þénugt verkfæri til velsældar - heldur þvert á móti. Ef allt væri með felldu myndu ábyrgir stjórnmálamenn í ESB-ríkjunum draga lærdóm af skipbroti evrunnar og annað tveggja gefa gjaldmiðilinn alfarið upp á bátinn eða fækka þeim ríkjum sem eiga í gjaldmiðlasamstarfinu.
Evrópusambandið getur ekki dregið í land og viðurkennt að evran hafi verið mistök. Ástæðuna má rekja til þess að Evrópusambandið hefur samsamað sig svo álfunni sem það er kennt við að mistakist sambandinu þá mistekst Evrópu.
Franski heimspekingurinn Bernard-Henri Lévy segir í viðtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung að án Grikklands og Ítalíu sé Evrópa óhugsandi. Með ,,Evrópu" á heimspekingurinn við Evrópusambandið. Vandamálið er pólitískt, segir Lévy, en ekki efnahagslegt. Evrópusambandið þarf að verða ríki, nokkurs konar Stór-Evrópa, með valdheimildum til að að skattleggja og setja fjárlög þjóðanna sem myndu verða héruð í nýrri Evrópu.
Bernard-Henri Lévy segir pólitískan vilja skorta til að skjóta stoðum undir nýja Evrópu (hann notar ekki orðið Stór-Evrópa enda minnir það of á Stór-Þýskaland Hitlers). Pólitískur vilji stjórnmálamanna verður á hinn bóginn að styðjast við pólitíska sannfæringu almennings. Sannleikurinn er sá að hvorki vilja Grikkir verða að hjálendu Berlínar og Brussel og taka við fyrirskipunum þaðan um hvernig eigi að reka grískt samfélag né heldur er minnsti áhugi hjá hinum almenna Þjóðverja að niðurgreiða lífskjör í Suður-Evrópu. Í þessu ljósi verður ákall heimspekingsins óskhyggja án nokkurs stuðnings við harðan heim raunsæis.
Vinur Lévy, franski rithöfundurinn Michel Houellebecq, sagði að Evrópa stefndi í það að verða skemmtigarður og vændishús fyrir ríka asíubú. Lévy segist ekki vera jafn svartsýnn en engu að síður sé Evrópusambandið og þar með Evrópa á krossgötum.
Við sem stöndum utan meginlandsins vitum ósköp vel að Evrópa blívur þótt evran og Evrópusambandið endi á ruslahaug sögunnar. Evrópa var til löngu fyrir ESB og verður það áfram. En það er einmitt óskhyggja í ætt við þá sem franski heimspekingurinn viðrar í viðtali við þýska fjölmiðilinn sem komið hefur Evrópusambandinu í núverandi ógöngur.
Athugasemdir
Óskhyggja stóhuga Evrópuráðs sem Bernhard Lévy viðrar er ekki að ganga upp,frekar að leiða til enn meiri vandræða. Taka bara Zorba á þetta!
Helga Kristjánsdóttir, 21.11.2012 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.