Björn Bjarna, Guðlaugur Þór og týnda uppgjörið

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður var gerður út af Baugsmönnum fyrir kosningarnar 2007 til að sækja að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Baugsmenn, Jón Ásgeir Jóhannesson, Hreinn Loftsson og fleiri, töldu Björn höfuðandstæðing sinn og vildu binda endi á pólitískan feril hans.

Björn hafði staðið í ístaðinu gegn yfirgangi auðmanna sem vildu ráðskast með yfirvöld og töldu sig hafna yfir lög og rétt.

Guðlaugur Þór þáði ótaldar milljónir í stuðning frá Baugsmönnum í prófkjörinu og felldi Björn úr því sæti sem hann hafði skipað. Staða Björns sem dómsmálaráðherra veiktist og auðmenn fögnuðu sigri.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, gekk gáleysislega um götur og torg á tímum útrásar og dró af því rökrétta niðurstöðu og gefur ekki kost á sér til þingmennsku við næstu kosningar.

Guðlaugur Þór lætur á hinn bóginn engan bilbug á sér finna vill halda áfram þátttöku í stjórnmálum eins og ekkert hafi í skorist.

Stuðningsmaður Guðlaugs Þórs, Sveinn Skúlason, skrifar varnargrein í Morgunblaðið í vikunni og heldur fram dugnaði Guðlaugs Þórs sem mannkostum. Dugnað má til margs nota, líka óþurftarverka.

Tilefni greinar Sveins eru skrif Björns Bjarnasonar í Þjóðmál um erindrekstur Guðlaugs Þórs í þágu Baugsmanna. Björn svarar Sveini í færslu á heimasíðu sinni og segir

Ég veg að þeim sem gengu leynt og ljóst erinda Baugsmanna innan Sjálfstæðisflokksins á árinu 2006. Það átti ekkert skylt við framboð mitt til borgarstjórnar árið 2002 heldur var gert vegna starfa minna sem dómsmálaráðherra og málaferlanna gegn Baugi á þessum árum. Ætlunin var að ryðja dómsmálaráðherra úr vegi af því að Baugsmenn töldu sig ekki hafa tök á honum.

Á meðan áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins viðurkenna ekki staðreyndir sem þessar og láta sem þeir átti sig ekki á hvernig leitast var við að grafa undan einstaklingum innan flokksins með hagsmuni fésýslumanna að leiðarljósi og kjósa þess í stað að tala um grasrót flokksins sýnist þörf á að ræða þessi mál frekar og ítarlegar í tengslum við ákveðna frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins en ég hef kosið að gera til þessa.

Ástæða er til að hvetja Björn til að halda áfram að vekja máls á uppgjörinu sem aldrei fór fram í Sjálfstæðisflokknum eftir hrunið 2008.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þvílíkur glæpur að bjóða sig fram gegn Birni Bjarnasyni. Var það þess vegna sem Eyþór og Inga Jóna drógu framboð sitt til baka. Glæpur gegn mannkyni kannski?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 10:07

2 identicon

Gott hjá Birni.

Hann er toppmaður.

Rósa (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 11:08

3 identicon

Einhver hlýtur ástæðan að vera fyrir því að Jóhannes í Bónus keypti heilsíðuauglýsingar fyrir síðustu kosningar, þar sem hann hvatti fólk til að strika Björn Bjarnason út af lista Sjálfstæðismanna? Ætli það hafi verið vegna skoðanaágreinings þeirra í utanríkismálum? Andstaða Jóhannesar gegn verunni í NATO? Amk hefur Jóhannes ekki veirð mikið að flagga þeim skoðunum sínum ef þetta eru þá ástæðurnar? Frelsi í viðskiptum hafa verið eitt þeim málum sem Björn hefur unnið að á sínum pólitíska ferli, varla er Jóhannesi illa við slíkt?

Hvers vegna lagði þá Jóhannes út í þennan leiðangur, að taka svona á Birni, með því að moka fé þann frambjóðanda sem bauð sig fram gegn Birni í prófkjörinu 2007? Hvers vegna hvatti hann fólk eindregið til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í sömu kosningum, en strika Björn út af listanum? Getur ástæðan verið sú að Björn var dómsmálaráðherra á þeim tíma sem Jóhannes og co. voru að mynda sér stöðu í viðskiptalífinu, sem síðar átti hvað stærstan þátt í að bankakerfið hrundi á Íslandi hrundi, og tók niður með sér í leiðinni fjárhag heimilanna, fyrirtækja og ríkissjóðs?

Gott ef Elín gæti uppfrætt alþýðu landsins, sem ekkert skilur í þessum hlutum um þessi mál, hún virðist vera nokkuð með þetta á hreinu, spyr ágengra spurninga, sem eiga  reyndar ekkert skylt við það sem pistill Páls gekk út á.

joi (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 12:09

4 identicon

Þú ert skondin Elín.

En til fróðleiks.  Málið snýst auðvitað ekki um það sem þú segir í óvild þinni á manninum, heldur hvernig heldur hvaða meðöl voru notuð til að fara í mannin Björn Bjarnason.

Og þessi mál eru ástæða þess að sjálfstæðisflokkurinn er ekki með hreinan meirihluta í skoðanakönnunum.

jonasgeir (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 12:12

5 identicon

http://www.visir.is/utstrikanir-bjorns-enn-i-talningu/article/200770514097

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 13:00

6 identicon

Alveg sammála Páli. Þótt Guðlaugur sé að mörgu leyti góður þingmaður, hafa honum orðið á svo mikil afglöp, að hann þarf að draga sig eða verða dreginn í hlé. Þetta er í mínum huga mjög einfalt: 1) Burt með þá þingmenn, sem voru kosnir með fjármunum frá skrautlegum fjármálafurstum. 2) Burt með þá, sem sviku í Icesave. 3) Burt með þá, sem hafa talað fyrir aðildarumsókn að ESB. 4) Burt með þá, sem sækjast eftir samstarfi við Samfylkinguna. Sjálfstæðisflokkurinn á nóg af hæfu og vel menntuðu fólki, sem gæti komið í þeirra stað, þótt satt að segja séu nú um stundir litlar líkur á slíkri endurnýjun. Flokkurinn á ekki að geta skellt skollaeyrum við réttmætum kröfum um endurnýjun og stólað á, að fólk kjósi "illskásta" kostinn, þótt hann hafi valdið því margföldum vonbrigðum. Betra er að velja næstskásta kostinn eða sitja heima, í þeirri veiku von, að Sjálfstæðisflokkurinn læri eitthvað af því.

Sigurður (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 17:21

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Hvernig er staðan hjá kirkjunni og Marteini Lúther eftir uppákomuna í Worms? Er einhver leið til að sætta þetta?

Halldór Jónsson, 13.10.2012 kl. 23:34

8 identicon

Þetta var náttúrulega ansi mögnuð sending. Hún bitnaði ekki bara á Birni heldur líka Árna Johnsen. Báðir færðust niður um sæti vegna útstrikana. Einhvern tímann hefði maðurinn verið dæmdur fyrir galdra. Það er alveg ljóst.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.10.2012 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband