Föstudagur, 28. september 2012
Icesave, ESB og björgun Íslands
Frambjóðendur til formennsku í Samfylkingunni keppast um að sovéskum sið að hlaða lofi á fráfarandi formann, Jóhönnu Sigurðardóttur. Helgisagnaritun samfylkingarfólks er tilraun til að falsa veruleikann.
Jóhanna og vinstristjórnin höfðu rangt fyrir sér í öllum meginatriðum í eftirhrunsmálum. Innviðir íslenska lýðveldisins héldu í hruninu og öll kerfi virkuðu. Ríkisstjórnir vinstrimanna eiga í sögulegu samhengi fremur hógværa aðild að smíði innviða samfélagsins.
Neyðarlögin, sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde setti, lagði grunninn að viðspyrnunni eftir hrun. Nær glæpsamleg tilraun Steingríms J., Jóhönnu og Svavars Gestsson til að setja Ísland á hausinn til langframa var stöðvuð, fyrst á alþingi síðan í tveim þjóðaratkvæðagreiðslum - þökk sé samstöðu þjóðarinnar og frumkvæði Ólafs Ragnars Grímssonar.
Stærsta pólitíska mál Samfylkingarinnar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, ESB-umsóknin, er verst ígrunda utanríkispólitík Íslendinga frá Gissurarsáttmála 1262/1264. Þrátt fyrir að veruleikinn öskri í eyra Jóhönnu þá lætur hún ekki segjast og þumbast áfram með gerónýtt mál.
Atlagan að stjórnarskrá lýðveldisins, sem Jóhanna talaði fyrir, afhjúpaði forsætisráðherra sem sundrungarafl í samfélaginu. Þeirri atlögu var fylgt eftir með vanhugsuðum aðgerðum í málefnum fiskveiðistjórnunar.
Jóhanna hafði traust þegar hún fékk formennsku Samfylkingar og forsætisráðherradóm. Hún sólundaði því trausti með lélegri pólitískri dómgreind, eðlislægri þverðmóðsku sem iðulega ber ofurliði þá litlu skynsemi sem guð gaf henni.
Stórmerk tíðindi í Íslandssögunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góðan daginn Páll, ég er sammála öllum lýsingarorðum þínum á Jóhönnu og Steingrími og vil bæta við að mér finnst að það mætti fara að skoða hvort ekki ætti að draga þessa ríkisstjórn fyrir landsdóm rétt eins og Geir. En ég er ekki sammála þér hvað varðar fiskveiðistjórnunarkerfið, ég vil nefnilega taka af þá sjálftöku að heimilt sé að veðsetja eða framselja kvótann.
Sandy, 28.9.2012 kl. 13:02
Þetta er fólkið sem mest talaði um foringjadýrkun innan Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum.
Gerði hana hlægilega sem hún vissulega er.
Nú kemur sama stalíníska persónudýrkunin fram í ummælum þessa liðs um Jóhönnu Sigurðardóttur.
Á bókstaflega hverjum degi birtast okkur óheilindin í íslenskum stjórnmálum.
Rósa (IP-tala skráð) 28.9.2012 kl. 14:47
Ekki nær glæsamleg, Páll. Glæpsamleg segi ég og vona að öll hans fjármálaverk, ef verk skyldi kalla, verði rannsökuð og dæmd.
Elle_, 28.9.2012 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.