Þriðjudagur, 11. september 2012
Teboð, sósíalismi og goðaveldi
Ungir sjálfstæðismenn kenna vinstriflokkana við sósíalisma; Þór Saari og Þorgerður Katrín stimpla Sjálfstæðisflokkinn sem teboðshreyfinu. Bæði tilvikin auglýsa hversu framandi útlensk hugmyndaumræða er íslenskum stjórnmálum.
Nærtækara er að skilja íslensk stjórnmál í samhengi við goðaveldið á þjóðveldisöld. Héraðshöfðingjar, goðarnir, fóru með völdin á alþingi sem var vettvangur málamiðlunar helstu hagsmuna í þjóðfélaginu.
Goðaveldið hefur fengið heldur slæma umsögn sökum þess að innbyrðis deilur goðanna leiddu til falls þjóðveldsins þegar Íslendingar sögðu sig til sveitar hjá Noregskonungi með Gissurarsáttmála.
Það vill gleymast að goðaveldið virkaði prýðilega í rúm 300 ár og eflaust staðið lengur ef ekki hefði verið fyrir sameiginlegt áhlaup Hákonar gamla og kaþólsku kirkjunnar á þjóðveldið.
Skínandi dæmi um getu goðaveldisins til að leysa úr pólitískum deilum er kristnitakan. Ófriður blasti við þegar kristnir vildu kúga heiðna til siðaskipta. Ari fróði lætur Þorgeir goða Þorkelsson hafa orð fyrir skynsamlegum lyktum.
Þorgeir byrjar á því að lýsa hversu ónýtt sé að láta konunga ráða för og nefnir til barsmíðar á milli konunga í Danmörku og Noregs sem linnti ekki fyrr en almenningur tók málin í sínar hendur kom á friði. Varnaðarorð gagnvart erlendu yfirvaldi átti Einar þveræingur Eyjólfsson eftir að endurtaka kynslóð síðar þegar Ólafur digri Noregskonungur sóttist eftir herstöð á Miðnesheiði, nei, afsakið, Grímsey.
Þorgeir varar við þeim öflum sem harðast vilja ganga fram í trúmálum og boðar málamiðlun með þessum orðum
En nú þykkir mér þat ráð, kvað hann, at vér látim ok eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, ok miðlum svá mál á milli þeira, at hvárirtveggju hafi nakkvat síns máls, ok höfum allir ein lög ok einn sið. Þat mun verða satt, er vér slítum í sundr lögin, at vér munum slíta ok friðinn.
Að ráði goðans tóku Íslendingar kristni en héldu heiðni og sér þess en glögg merki, samanber landlæga álfatrú.
Mælt upp á nútímann: við þurfum hvorttveggja sósíalisma til að binda samfélagið saman en jafnframt hreintrúarhyggju í ætt við teboðshreyfinguna til að halda í skefjum helstu öfgum markaðshyggjunnar, - sem við getum ekki verið án.
Segir Sjálfstæðisflokkinn hægriöfgaflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.