Mánudagur, 6. febrúar 2012
Ókeypis peningar eru ávísun á verðbólgu
Verðtryggingin er til að lántakendur borgi raunvirði lána plús vexti. Fyrir daga verðtryggingar fékk fólk lánað á Íslandi 100 þús. kr. til eins árs á tíu prósent vöxtum í 50 prósent verðbólgu. Eftir árið borgaði lántakinn 110 þús. kr. en raungildi peninganna hafði fallið um helming. Lántakinn græddi 40 þús. kr. á viðskiptunum en lánveitandinn tapaði sem því nemur.
Verðtrygging er ekki æskileg heldur er hún nauðvörn. Ef Kristján Þór Júlíusson og Sjálfstæðisflokkurinn telja þjóðina ekki þurfa lengur á nauðvörninni að halda er það líklega vegna sannfæringar að við höfum náð það góðum tökum á ríkisfjármálum okkar að verðbólga verður innan hóflegra marka, segjum innan við 3-4 prósent. Lág verðbólga fæli í sér stöðugt gengi.
Úti í heimi stendur yfir stórkostleg hagfræðileg tilraun til að snúa í gang hagvexti. Tilraunin gengur út á það að Seðlabankar gefa viðskiptabönkum peninga, já gefa peninga á svo gott sem núll prósent vöxtu og fyrir léleg eða engin veð. Seðlabankar austan hafs og vestan vonast til að viðskiptabankarnir veiti ókeypis fjármagninu inn í hagkerfið sem taki þá til við að vaxa.
David MacWilliams skrifar um hagfræðitilraunina. Peningar eru ekki ókeypis, segir MacWilliams, og hagfræðitilraunin mun enda með verðbólgu sem rýrir peningana: almenningur mun sitja uppi með reikninginn.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gerði vel í að pæla í freistingum sem fylgja ókeypis peningum.
Kristján Þór: Verðtryggðu lánin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú segir sumsé að raungildi lánsins sem ég tók í byrjun árs 2005 og hef greitt af skilmerkilega rúmlega 80 sinnum sé 50% meira en það sem ég tók að láni. Getur það staðist???
Haraldur (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 11:51
Páll: Við fólkið sem tók gengistryggðu/erlendu lánin var sagt að fólk ætti ekki að taka lán í öðrum gjaldmiðli en laun þess væru í. Á Íslandi eru í reynd í notkun tveir gjaldmiðlar, sem heita sama nafninu: Hin veika óverðtryggða króna launþegans á móti hinni sterku verðtryggðu krónu lánveitandans.
Þessi eignatilfærsla sem þú lýstir að ofan vegna 50% verðbólgu
átti sér staði í lokuðu handstýrðu hagkerfi hafta, þegar menn fóru uppábúnir til bankastjóra að sækja um lán og flokksgæðingar voru í betri aðstöðu til lánafyrirgreiðslu en óflokksbundnir. Við þykjumst búa í betra og "frjálsara" hagkerfi í dag en þá, en eignatilfærslan er enn til staðar. Hún virkar bara núorðið í hina áttina vegna verðtryggingar. Verðtrygging er hækja lélegrar og óábyrgrar hagstjórnar.
Vaxtaákvarðanir SÍ, sem slá eiga á þenslu í hagkerfinu, eru bitlausar vegna verðtryggingarinnar.
Ef neytendalán eiga áfram að vera verðtyggð verða laun að vera verðtryggð líka. Þetta ójafnvægi getur ekki gengið upp lengur.
Það er einfaldlega ekki eðlilegt að höfuðstóll lána lækki ekki við afborganir.
Erlingur Alfreð Jónsson, 6.2.2012 kl. 12:40
Eru gengistryggðu lánin sem Erlingur og fl. tóku ekki meðvirkandi þáttur í verðbólgunni sem fór á fullt skrið í framhaldinu? Fylltu alla vasa með "ódýrum" peningum sem flæddu viðstöðulaust inn í landið. Menn voru varaðir við, en ákváðu að gefa SÍ langt nef, sem hækkað þá bara vextina.
Svo hrundi krónan.
Ragnhildur Kolka, 6.2.2012 kl. 13:56
Í janúar 2005 þá var vísitala kaupmáttar 111,9.
Í desember 2011 þá var vísitala kaupmáttar 111,1.
Þetta þíðir að laun þess sem tók lán 2005 hefur hækkað jafn mikið og verðbólgan á þessum tíma og er því afborgunargetan sú sama 2011 og hún var 2005, munurinn liggur fyrst og fremst í lánsforminu og því hvort viðkomandi hafi sömu eða svipaða vinnu/tekjur.
Lán sem eru annuited lækka upphaflegu greiðslubyrðina en byggir upp höfuðstólin, það er ekki fyrr en 20 ár af 40 eru liðin að höfuðstólinn fer að lækka að einhverju viti.
Falsað greiðslumat kemur mörgum í koll núna.
Greiðslumat byggt á margfaldri yfirvinnu kemur mörgum í koll núna.
Greiðslumat sem er byggt á tilhæfulausum launum kemur mörgum í koll núna.
Greiðslumat byggt á fölsuðu eiginfé kemur mörgum í koll núna.
Þegar fólk stendur ekki undir lánunum sínum í dag þá er það í langflestum tilfellum vegna falskrar greiðslugetu sem er afleiðing af ofmati og röngum upplýsingum um getu til að standa undir afborgunum húsnæðislána, allt tal um að þetta sé bara verðtryggingunni að kenna á ekki við rök að styðjast hvað þá að það séu til fjöll af ókeypis peningum sem þetta fólk á tilkall til.
Lýðskrumarar í flokki stjórnmálamanna ala á þessari mýtu um að allt lagist um leið og verðtryggingin verði aflögð en þessir skrumarar gera enga tilraun til að afnema verðtrygginguna þegar þeir hafa öll völd til þess. Lýðskrumarar virðast gleyma því að 250.000 manns eiga mest allan sparnað sinn í lífeyrissjóðum, þetta er vondu fjárfestarnir sem græða á tá og fingri á verðtryggingunni að sögn lýðskrumara. Húsnæðiseigendur eru nánast allir eigendur í lífeyrissjóði.
Eggert Sigurbergsson, 6.2.2012 kl. 14:31
Svona fullyrðingar um nauðsyn verðtryggingar á aðra hliðina lýsa annaðhvort fákunnáttu eða siðblindu!
Til uppfræðslu:
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/verdtrygging-eilifdarvelin-sem-brast?page=2&offset=-5
Íslendingur (IP-tala skráð) 6.2.2012 kl. 18:56
Páll, þú ert að storka okkur gamlingjunum. Í þá gömlu góðu daga fengust sama sem engin lán. Íbúðalánin voru eins og bílaviðskiptin í dag; útborgun eftir samkomulagi; oft deilt á 12 mánuði, restina lánaði seljandi til 5+ ára.
Í besta falli fengust þá víxillán í bönkum til mánaðar eða tveggja (en oft framlengjanleg) með 10-12% vöxtum, svokölluðum forvöxtum sem voru greiddir fyrirfram og dregnir frá útborgun.
Í neyð var hægt að gefa út handhafaskuldabréf á íbúð til 3-5 ára, þinglýsa með tilheyrandi kostnaði og selja einhverjum bankanum með 30-40% afföllum.
Eru allir búnir að gleyma fyrirbærinu "að flytja inn á steininn"?
Kolbrún Hilmars, 6.2.2012 kl. 19:22
Menn eru fljótir að gleyma!
Sigurður Haraldsson, 6.2.2012 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.