Laugardagur, 5. nóvember 2011
Nató, ESB og fullveldið
Eftir seinna stríð stofnuðu bandamenn undir forystu Bandaríkjanna hernaðarbandalag kennt við Norður-Atlantshafið, North-Atlantic-Treaty-Organization, Nató á íslensku. Ísland var landfræðilegur miðpunktur þessa samstarfs sem nágrannar okkar í austri og vestri tóku þátt í, þar á meðal Norðmenn. Andspænis Nató stóð Varsjárbandalagið sem Sovétríkin veittu forstöðu.
Ísland hafði lýst yfir hlutleysi þegar landið varð fullvalda í lok fyrri heimsstyrjaldar. Í upphafi þeirrar seinni hernámu Bretar Ísland og urðu á undan Þjóðverjum sem hernámu Danmörku og Noreg. Þegar Bandaríkin urðu stríðsaðili tóku þeir yfir starfsemi Breta hér á landi með samningi við íslensk stjórnvöld.
Eftir seinna stríð snerist meginumræða íslenskra utanríkismála um afstöðuna til Nató. Mörgum þótti sem þáttaka okkar í hernaðarbandalagi samrýmdist ekki fullveldinu. Aðrir sögðu skert fullveldi í skjóli Nató væri skömminni skárri en alls ekkert fullveldi undir áhrifasvæði Sovétríkjanna sem mjög seildust til áhrifa á norðurslóðum og stóðu gráir fyrir járnum austan megin járntjaldsins.
Í kalda stríðinu, sem geisaði frá lokum seinni heimsstyrjaldar 1945 til falls Berlinarmúrsins 1989, var heimspólitíkin tveggja póla. Í boði var vestrænt lýðræði annars vegar og hins vegar austrænn kommúnismi. Með aðild að Nató valdi Ísland vestrænt lýðræði.
Þorsteinn Pálsson, talsmaður þess minnihluta sjálfstæðismanna sem vill að Ísland gangi í Evrópusambandið, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann leggur að jöfnu aðild Íslands að Nató við aðild að Evrópusambandinu. Samanburðurinn er langsóttur, svo ekki sé meira sagt.
Nató tengdi tvær heimsálfur, Ameríku og Evrópu, þar sem Ísland er mitt á milli. Evrópusambandið er meginlandsbandalag Evrópuríkja. Markmið Nató var öryggishagsmunir fullvalda ríkja; markmið Evrópusambandsins er að draga úr fullveldi þjóðríkja og stuðla að samruna þeirra.
Jaðarríki Evrópusambandsins, ríki eins og Bretland og Svíþjóð, afþakka fulla aðild að sambandinu með því að taka ekki þátt myntsamstarfinu. Jaðarríkin finna einfaldlega hagsmunum sínum ekki að fullu borgið með þátttöku í samrunaþróuninni.Ísland stendur fyrir utan jaðar Evrópusambandsins.
Nágrannaríki okkar, Grænland, Færeyjar og Noregur hafna öll aðild að Evrópusambandinu enda gengur aðild bæði gegn fullveldi þessara ríkja og hagnýtum hagsmunum, s.s. yfirráðum yfir náttúruauðlindum.
Þorsteinn Pálsson er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Utanríkisstefna Íslands í kalda stríðinu var að stórum hluta mótuð og borin fram af Sjálfstæðisflokknum. Með samjöfnuði sínum á Nató og Evrópusambandinu lítilsvirðir Þorsteinn sögu Sjálfstæðisflokksins.
Björn Bjarnason fyrrum dómsmálaráðherra er helsti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum. Hér eru fyrstu viðbrögð hans við grein Þorsteins
Það er dæmigert um ESB-blindu í umræðum á Íslandi þegar allt er á hverfanda hveli í Evrulandi skuli málglaðasti talsmaður ESB-minnihlutans í Sjálfstæðisflokknum og fulltrúi utanríkisráðherra í viðræðunefnd Íslands hafa mestar áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn muni snúast gegn aðild Íslands að NATO. Betri staðfesting um firringu finnst líklega ekki í víðri veröld á þessum örlagatímum. Hún er jafnvel meiri en hjá George Papandreou sem barðist fyrir traustsyfirlýsingu til þess eins að geta sagt af sér.
Hér er hvergi ofmælt.
Athugasemdir
Fólk sem vill framselja sjálfstæði Íslenska lýðveldisins til annara t.d. ESB er ekki "sjálfstæðisfólk" þvi er Þorsteinn Pálsson ekki "Sjálfstæðismaður" heldur eitthvað allt annað.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 5.11.2011 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.