Laugardagur, 10. september 2011
Bjarna Ben. umbunuð ESB-andstaðan
Eftir að forysta Sjálfstæðisflokksins ákvað að flokkurinn skyldi standa undir nafni og taka upp einarða andstöðu við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambambandinu sópast fylgið að. Um helmingur þeirra sem taka afstöðu í könnun Stöðvar 2/Fréttablaðsins ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Bjarni Benediktsson formaður virðist átta sig á straumhvörfum sem orðið hafa í íslensku samfélagi eftir hrun. Þar sem áður var blaðskellandi ævintýramennska í pólitík, fjármálum og lífsviðhorfum er komin varkárni, íhaldssemi og ráðdeild. Eftir uppherðinguna á andstöðunni við ESB-umsóknina tók Bjarni vara á landakaupum kínverska auðkýfingsins með flokksskírteinið úr Kommúnistaflokknum.
Haldi forysta Sjálfstæðisflokksins rétt á spilunum þarf flokkurinn ekki að örvænta. Það er að vísu eitt smámál sem forystan á eftir að afgreiða gagnvart þingflokknum: hrunverjar úr hópi þingmanna verða að víkja fyrir næstu kosningar.
Ríkisstjórnin með 26% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já og RUV mynnist ekki á könnunina,heldur hamrar á að meirihlutinn vilji ekki Ólaf í framboð aftur,þar er breyting milli kannana frá feb. til sept. er eitthavð 3 til 4%
Guðmundur Kristinn Þórðarson, 10.9.2011 kl. 10:30
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins lýstu andstöðu við aðild að ESB 27. marz 2009 og 25. júní 2010. Ekki verður framhjá því gengið, að Bjarni Benediktsson hefur feril sem beggja handa járn í þessu máli (sbr. grein hans og Illuga Gunnarssonar í Fréttablaðinu 13. desember 2008). Svik Bjarna við stefnu síðari landsfundarins í Icesave gera mér ómögulegt að treysta honum. Nú lofar hann öllu fögru í aðdraganda þriðja landsfundar, til að halda formennskunni. En flokkur hans fær ekki atkvæði mitt að óbreyttri forystu. Því miður. Páll hefur rétt fyrir sér, að gera þarf hreint í þingflokki Sjálfstæðismanna. Burt með hrunverja, alla styrkþega þeirra og stuðningsmenn ESB og Icesave. Þá yrðu ekki margir eftir, en flokkurinn á nóg af fólki til að fylla skörðin, og þingmenn eru ekki jafn ómissandi og þeir sjálfir kunna að halda. Spurningin er bara, hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefur kjark og dug til að gera upp mál sín.
Sigurður (IP-tala skráð) 10.9.2011 kl. 11:35
Eins og Sigurður segir að ofan er ómögulegt að treysta forystu Sjálfstæðisflokksins vegna svika hans í ICESAVE. Já, nú lofar hann og lofar svona skömmu fyrir landsfund. Þannig er það líka með alla í öllum flokkum sem samþykktu kúgunina yfir eigin þjóð og stjórnarflokkarnir voru svívirðilegir: Engum ICESAVE-JÁ-SINNUM getur í alvöru verið treystandi nema fólk ætli að ljúga sig fullt.
Elle_, 10.9.2011 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.