Sunnudagur, 28. ágúst 2011
Prófkjör, stjórnmálaflokkar og almannafé
Kjartan Valgarðsson skrifar skynsama hugvekju um áhrif prófkjara á stjórnmálamenningu okkar. Kjartan tekur mið af Samfylkingunni, þar sem hann þekkir til, en athugasemdir hans eiga ekki síður við aðra flokka sem styðjast við opin prófkjör, t.d. Sjálfstæðisflokkinn.
Opin prófkjör eru aðalorsök þess að lýðræði innan flokka hefur hnignað. Þeir sem leggja allt sitt traust á opin prófkjör fyrir eigin frama, hafa ekkert erindi við flokksmenn, hafa ekkert við þá að tala.
Almannafé rennur til stjórnmálaflokka vegna þess að þeir hafa hlutverki að gegna í lýðræðisþjóðfélagi. Ef stjórnmálaflokkar framselja val á frambjóðendum til opinna prófkjara, þar sem einfalt er að ,,kaupa" frambjóðendur, er farin helsta réttlætingin fyrir fjárstuðning af fjárlögum ríkisins til stjórnmálaflokka. Þátttaka almennings í stjórnmálastarfi er upp á punt ef þingsæti eru seld á opnum markaði prófkjara.
Framsóknarflokkurinn hefur þróað val á frambjóðendum þar sem flokksfélagar velja framboðslista á kjörfundum. Vinstri grænir hafa reynt að halda aftur af fjáraustri þátttakenda í prófkjörum. Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin eru aftur með Svarta-Pétur á hendi í prófkjörsmálum.
Athugasemdir
Eru allir búnir að gleyma því hvers vegna prófkjör voru tekin upp? Og kannskin eru allir líka búnir að gleyma því hverjir voru áköfustu talsmenn þess að setja stjórnmálaflokka á fjárlög - það voru að minnsta kosti alls ekki sjálfstæðismenn!!
Gústaf Níelsson, 28.8.2011 kl. 22:26
Lýðræði viðgengst aldrei meðan það er ríkisstyrkt. Ákveðnir flokkar hafa ákveðið að þeir haldi völdum, fái að ráða lon og don alla leið til London, fyrir tilstilli fjármuna sem þeir sjálfir stýra úr kassa sem þeir sjálfir innheimta. (Heitir það ekki samráð?) Lýðræði? Það kemur í veg fyrir að aðrir flokkar komist að. Að ógleymdri 5% reglunni sem þessir sömu flokkar komu á - væntanlega til að tryggja aðgengi annarra. Spyrjið Ómar Ragnarsson. Ergo: það er ekki lýðræði á Íslandi.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 28.8.2011 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.