Mánudagur, 15. ágúst 2011
Helgin sem ESB-umsóknin dó
Þrennt gerðist um helgina sem kippti fótunum undan umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins boðaði vonum seinna harða andstöðu flokksins gegn aðild og setti kröfu um afturköllun umsóknar á dagskrá.
Fyrir ári samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins að umsóknina ætti að draga tilbaka og kortéri fyrir næsta landsfund tekur formaðurinn loks af skarið og ákveður að berjast fyrir samþykktum flokksins og yfirgnæfandi vilja flokksmanna.
Í öðru lagi varð alþjóð ljóst um helgina, eftir rússíbanareið hlutabréfamarkaða í síðsutu viku, að niðurstaða evru-kreppunnar verður annað af tvennu; upplausn evru-samstarfs þeirra 17 ríkja sem að gjaldmiðlinum standa eða Stór-Evrópa sömu 17 landa með sameiginleg fjárlög. Ef evru-samstarfið hrynur eru meginrökin fyrir aðildarumsókninni ónýt en ef Stór-Evrópa bjargar evrunni munu Bretland og Svíþjóð standa utan og pólitískt óhugsandi að Ísland færi inn meginlandsbandalagið.
Í þriðja lagi afhjúpaði helgin algert málefnalegt gjaldþrot aðildarsinna. Hvorki stjórnmálamenn úr röðum aðildarsinna né álitsgjafar úr röðum háskólastarfsmanna höfðu eitt eða neitt að segja um stöðu Evrópuumræðunnar hér á landi. Jú, að vísu; sérfræðingur Samfylkingarinnar í Sex Pistols sagði að vandi evrunnar yrði tímabundinn. Það er ekki eins og aðildarsinnar hafi misst málið - í DV skrifar Eiríkur Bergmann um ráðþrota ráðamenn, en það er umfjöllun um óeirðirnar í Bretlandi en ekki íslenska flokksbræður Eiríks.
Eftir þessa helgi er óhugsandi að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu fái þann skriðþunga að hún eigi nokkra möguleika að ná fram að ganga. Umsóknin þjónar núna aðeins þeim ánægjulega tilgangi að vera risastór auglýsing um einangrun Samfylkingarinnar í íslenskum stjórnmálum.
Athugasemdir
Það vellur úr þér bullið eins og fyrri daginn. Það er sem betur fer ekkert að marka þig og það sem kemur frá Heimssýn.
Staðreyndin er að hvorki evran eða ESB eru að fara neitt. Heimssýn verður hinsvegar nafn sem mun eingöngu koma fram í gögnum þjóðskjalasafnsins eftir nokkra áratugi.
Samtök eins og Heimssýn munu hverfa á Íslandi, og verður landhreinsun af því þegar það gerist.
Jón Frímann Jónsson, 15.8.2011 kl. 09:11
Spámaðurinn Jón Frímann hefur talað. Eins og fyrri daginn hefur hann ekkert að segja, enda óþægilegt að horfast í augu við raunveruleikann í ESB.
Ragnhildur Kolka, 15.8.2011 kl. 10:46
Ragnhildur, Hvernig væri nú að reyna að koma með mótrök í staðinn fyrir allt þetta væl hjá þér.
Það er vissulega kreppa í aðildarríkjum ESB (sum amk, en ekki öllum). Hinsvegar er hvorki evran eða ESB að fara neitt. Það verður bara brugðist við kreppunni, gallar lagaðir og síðan heldur lífið áfram.
Nema kannski á Íslandi. Þar sem að andstæðingar ESB eru staðráðnir í að viðhalda kreppunni á Íslandi út þennan áratug og langt fram í þann næsta sé ég.
Jón Frímann Jónsson, 15.8.2011 kl. 10:53
Mótrök verða ekki sett fram, Jón Frímann án þess að röksemdafærsla liggi fyrir. Engu slíku er að dreifa í færslum þínum. Aðeins glórulaus draumur um betri tíð og blóm í haga innan ESB.
Ragnhildur Kolka, 15.8.2011 kl. 12:15
Af T24.:
"Síðar bætir Björgvin G. Sigurðsson við.:
„Teningunum er kastað hvað framtíðarsamskipti Íslands og umheimsins varðar og línur skerpast í stjórnmálunum. Val kjósenda verður allavega skýrt og sjálfstæðismenn hafa stillt sér upp á jaðrinum.“
Ég veit hreinlega ekki hvort það er hroki stjórnmálamannsins sem ræður eða hrein vanþekking og óskhyggja. Í nýjustu könnun Capacent-Gallup kemur í ljós að liðlega 64% landsmanna eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Í huga viðskiptaráðherrans fyrrverandi er það til marks um að stilla „sér upp á jaðrinum“ að vera í takt við mikinn meirihluta landsmanna. Með öðrum orðum; Björgvin G. Sigurðsson telur að meirihluti þjóðarinnar sé jaðarfólk með jaðarskoðanir. Er hroki Samfylkingarinnar orðinn svo mikill að skilgreina alla þá sem ekki taka undir stefnu flokksins, sem jaðarfólk?"
http://t24.is/?gluggi=grein&tegund=pistill&id=5206
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.8.2011 kl. 13:51
Verst að landsöluflokkurinn dó ekki líka um helgina.
Elle_, 15.8.2011 kl. 16:19
Páll segir réttilega, að stefnumótun Bjarna Benediktssonar komi "kortéri fyrir næsta landsfund," og það dugir mér ekki. Bjarni var kjörinn formaður 29. marz 2009. Nógu löng reynsla er komin á þau störf hans til að móta sér þá skoðun, að frammistaða hans sé slök, til dæmis miðað við oft prýðilegan málflutning og frumkvæði hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem skömmu áður var kjörinn formaður í Framsóknarflokknum.
Sjálfstæðisflokkurinn getur áreiðanlega boðið upp á nýtt forystufólk, sem hefur ekki daðrað við ESB (eins og Bjarni í frægri Morgunblaðsgrein), ekki svikið í Icesave (eins og Bjarni), ekki gefið undir fótinn nýrri stjórn með Samfylkingunni (sem Bjarni hefur ekki viljað útiloka) og lyktar ekki af braski eða styrkjum frá Baugi eða álíka athafnamönnum. Málið snýst ekki um, hver hefur mesta reynslu, gáfur, menntun, mælsku eða persónutöfra, heldur að geta loksins farið að treysta forystuliði þessa flokks.
Sigurður (IP-tala skráð) 15.8.2011 kl. 17:12
Já, nákvæmlega, Bjarni Ben er fullkomlega ótrúverðugur. Hann kemst ekki í nánd við Sigmund og það gera að vísu fáir stjórnmálamenn.
Elle_, 15.8.2011 kl. 19:09
Og Bjarni Ben er nógu mælskur (svona kannski líkt og Steingrímur?), þó ég sjái nú ekki persónutöfrana við hann sem margir sjá. Það vantar þar festu og tryggð og þroska.
Elle_, 15.8.2011 kl. 19:18
Jón Frímann: "Þar sem að andstæðingar ESB eru staðráðnir í að viðhalda kreppunni á Íslandi út þennan áratug og langt fram í þann næsta sé ég."
Það þarf ekki ESB andstæðinga til að viðhalda kreppunni, við erum með frábæra ríkisstjórn sem er fullfær um að gera það og gott betur.
Björn (IP-tala skráð) 15.8.2011 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.