Mánudagur, 1. ágúst 2011
Siðferði, atvinnulíf og endurreisn
Efnahagsleg gjaldþrot eru mælanleg, s.s. í fjölda gjaldþrota og glötuðum fjármunum. Siðferðileg gjaldþrot eru aftur ómælanleg og eftir því auðveldara að láta sem þau fyrirfinnist ekki. Engum blöðum er um það að fletta að siðferðisgjaldþrotið í atvinnulífinu er margfalt skaðlegra en efnahagslega gjaldþrotið.
Siðferðisgjaldþrotið fólst í því að forsvarsmenn atvinnulífsins, millistjórnendur, forstjórnar og stjórnarmenn, komust upp með lygar, blekkingar og lögbrot í áravís. Þessir menn leika enn lausum halda og uppgjör við þá hefur ekki farið fram.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar þarfa ádrepu um stöðu atvinnulífsins og leggur til skynsamar tillögur um atvinnuuppbyggingu.
En það sem skortir á hjá formanni Framsóknarflokksins er siðvæðing atvinnulífsins. Margt bendir til að glæpamennska ráði enn ríkjum í atvinnulífinu, samanber þær upplýsingar í grein Sigmundar Davíðs að atvinnulífið skuldar 60 milljarða í vörsluskatta.
Endursiðvæðing atvinnulífsins fer fram með þeim hætti að glæpahyskið fær dóma og verður úthýst frá mannaforráðum.
Athugasemdir
Óekkí, búið að dæma einn eða tvo, og allir að missa sig af meðaumkun og eru á góðri leið með að gera pólskipti á "góða" og "vonda" hyskinu.
Hef það fyrir satt frá fleiri en einum og fleiri en tveimur, að hræðsla við að tjá sig og sperra sig gegn sukkinu að einhverju marki kemur í veg fyrir "endursiðvæðingu" eins og þú kallar það. Það þurfa jú allir að bíta og brenna, og skilyrðislaus gagnrýni stendur engum til boða, vegna þess að allir eru tengdir innbyrðis á einn eða annan hátt.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.8.2011 kl. 15:11
Ýmsir kújónar úr auðmannahópnum eru enn vel fjáðir og kaupa sér lítilsigldar sálir sem bera af þeim blak, Jenný Stefanía. Engu að síður held ég að réttlætið sigri að lokum. Ég bara veit ekki hvort sérstakur saksóknari og hérðasdómur Reykjavíkur séu hluti af réttlætinu.
Páll Vilhjálmsson, 1.8.2011 kl. 16:00
Látum nú vera ef þeim tekst að kaupa sálir á hrakvirði, en millistjórnendur og fólkið á gólfinu sem veit, sér og skynjar að það er betra að þegja en segja, því annars er "atvinnuöryggið" upp í loft.
Skringilegt að upplifa "múrana" sem byggðir hafa verið upp í kringum bankafyrirtækin og allir dansa gervilegan tangó með, og klikkja svo út með gamalkunnum hrollvekjandi frasa; svona er bara Ísland.
Minnir rosalega á "ástandið" á fá-smásölumarkaðinum sem stórverslanir á borð við Hagkaup, Bónus og Mikligarður trónuðu yfir í krafti stærðar og stórlætis á síðasta áratug síðustu aldar (sic).
Í stuttu máli Páll; konan skynjar enga fjandans breytingu til betrunar!
Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.8.2011 kl. 02:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.