Sunnudagur, 1. maí 2011
Allsherjarófriður í boði vinstriflokka
Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð spretta úr Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi. Báðir flokkarnir loguðu í átökum milli einstaklinga og fylkinga. Hjá krötum elduðu grátt silfur þau Jóhanna Sigurðardóttir og Jón Baldvin Hannibalsson.
,,Minn tími mun koma," sagði Jóhanna þegar hún tapaði fyrir Jóni Baldvini í formannskjöri sumarið 1994. Síðar klauf Jóhanna Alþýðuflokkinn og stofnaði Þjóðvaka.
Steingrímur J. Sigfússon tapaði fyrir Margréti Frímannsdóttur í formannskjöri í Alþýðubandalaginu 1995 þrátt fyrir að vera til muna öflugri stjórnmálamaður. Félagar í Alþýðubandalaginu voru orðnir langþreyttir á samfelldum innanflokksófriði í áratugi og óskuðu sér heitast að leggja flokkinn niður og kusu til þess Margréti.
Alþýðubandalagið var lagt niður ásamt Alþýðuflokki, Þjóðvaka og Kvennalista og stofnað til Samfylkingar annars vegar og hins vegar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Flokkarnir vísuðu til ólíkra hefða íslenskra vinstristjórnmála. Aðgreining vinstrimanna hófst 1930 þegar Alþýðuflokkurinn klofnaði fyrst og kommúnistar stofnu flokk.
Þótt friður og eindrægni hafi einkennt hvorugan flokkinn þann áratug sem þeir hafa starfað var tiltölulega rólegt í herbúðum vinstrimanna fyrsta áratug aldarinnar. Ytri ástæður lágu til þess. Samfylkingin ætlaði sér að verða stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Flokksmenn sameinuðust um það meginmarkmið og lögðu deilur til hliðar. Vinstri grænir urðu að sanna sig sem flokkur og skríða upp úr eins stafa fylgi og til þess þurfti starfsfrið innan flokks.
Þjóðin hefur aldrei kosið yfir sig meirihluta vinstriflokka. Meðvitund þjóðarinnar um hávaðapólitík vinstrimanna kom í veg fyrir að vinstriflokkarnir kæmust upp á pallborðið sem meirihlutakostur. Það þurfti hrun og kollektívt taugaáfall til að þingkosningar skiluðu slíkri útkomu.
Með sigri vinstriflokkana og myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 var ófriðarbál vinstrimanna flutt af flokksvettvangi yfir í landsmálin.
Síðan logar glatt.
Athugasemdir
Já, síðan logar glatt og þeir eldar brenna því graðar sem hörmungar ræktast betur.
Hrólfur Þ Hraundal, 1.5.2011 kl. 08:20
Þetta er ágæt greining hjá þér Páll, en þú hefðir mátt geta þess að ástandið er jafnan þokkalegt innan vinstriflokkanna á meðan þeir eru í stjórnarandstöðu. Fjandinn verður fyrst laus þegar þeir komast til valda. Þess vegna lifa vinstristjórnir aldrei út kjörtímabilið.
Gömul saga og ný, eða hvað? Hefðin í íslenskum vinstristjórnmálum er óeiningin.
Gústaf Níelsson, 1.5.2011 kl. 10:12
Munurinn á vinstri flokkunum og hægri flokkunum er ærið óljós. Er ekki nær að tala um allsherjarspillingu í boði fjórflokksins?
http://eyjan.is/2010/12/07/rikisendurskodun-oljost-um-lagaheimildir-til-ad-setja-fe-i-sjova/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 10:55
Og fólk flytur af landi brott sem aldrei fyrr. Ég spái algerri skriðu nú í sumar. Maður heyrir það bara utan á sér af fólki sem maður hittir á förnum vegi. Hef aldrei orðið var við svona andrúmsloft fyrr. Fólk er bara búið að gefast upp í stríðum straumum, vel menntaðar, heilbrigðar og glæsilegar manneskju sem við megum í raun alls ekki við að missa eru við að það að flæða úr landi. Þetta fólk mun ekki snúa aftur nema til að mæta í jarðarfarir og einstöku sinnum í fríum.
Harmageddon (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 14:00
Markmið ríkistjórnarinnar er einfaldlega að rýra kjör fólks systematískt til að það verði auðmýkra fyrir inngöngu í ESB. Töfralausnin sem boðin verður í anda Göbbels, eftir heimatilbúinn vanda þeirra.
Allt snýst þetta jú um ESB, sama hvert litið er. Það versta sem kæmi fyrir væri að fólk færi að hafa það þokkalegt og menn færu að rétta úr kútnum á þessum tímapunkti. Þá þarf ekkert Shangrila og Soría Moría.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.5.2011 kl. 14:26
Já einmitt, skuldsetningarstefna, einkavinavæðing, spilling og eitt stykki bankahrun hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með ófriðinn að gera, óhæfi og hroki fyrrum forsætisráðherra og seðlabanka þaðan af síður, hvað þá tilraunir LÍÚ til að taka yfir löggjafarvaldið í landinu.
Guðlaugur S. Egilsson, 1.5.2011 kl. 15:14
Skuldsetningarstefna; Jafnt og kratismi. Hvað eru vaxtabætur sem allir sannir kratar berjast fyrir annað. Laun fyrir að taka eins mikið að láni og hægt er. Eða stefna krata í atvinnumálum. T.d. í Reykjavík þar sem borgin skal reisa mannvirki á kostnað framtíðar eins og Dagur B. boðaði fyrir kosningar.
Einkavinavæðing; Ráðning núverandi seðlabankastjóra. Gott dæmi innan um allt sem viðgengist hefur undir því sem kallast skilanefndir og yfirtaka ríkissins á rekstri. Hvað með Svavar Gestsson sem annað dæmi.
Spilling; Svolítið það sama og einkavinavæðingin. Aldrei verri en nú. Það eru svo margir feitir bitar á vegum ríkissins nú. Og stefnan að halda öllu í höndum ríkis eða hvað.
Bankahrun; Hvað reyndi ríkisstjórn krata og Steingríms skápakrata í vinstri hilluni mikið að koma sem mestu af kostnaðinum á almenning í gegn um Icesave? Ég bara spyr!
Kratar! Eh púh...
jonasgeir (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 16:55
Kratismi er klárlega ekki undanþeginn skuldsetningarstefnunni, en rangt að segja að það sé það sama. Vilhjálmur Egilsson og félagar í SA verða nú seint kallaðir kratar, en "atvinnuleiðin" þeirra er ekkert annað en skuldsetningarstefna.Það á að fjármagna leið okkar út úr atvinnuleysi með því að taka fleiri lán eða fresta að borga, arðsemi og áhætta þjóðfélagsins af slíkum lánum á þessum tímum fjármálaóstöðugleika er aukaatriði.
Ekki misskilja mig, ég er ekki sérlega hrifinn af núverandi ríkisstjórn og því hvernig þau hafa haldið á spöðunum í ýmsum málum, eins og með skilanefndirnar og Icesave eins og jonasgeir nefnir, en svona einhliða rangfærslur eins og "Allsherjarófriður í boði vinstriflokka" eins og allir aðrir séu friðelskandi englar, eru ekki boðlegar í upplýstri umræðu.
Guðlaugur S. Egilsson, 1.5.2011 kl. 17:24
Satt segirðu Guðlaugur, EN;
Það eru vinstriflokkarnir sem ráða núna. Ekki Davíð. Það vita flestir að þar ræður einkavinaprinsessan Jóhanna og hinn stálheiðarlegi Hrannar aðstoðarmanður hennar.
Þó að þeir sem standi undir launagreiðslunum eins og LÍÚ sprikli þá skil ég ekki annað en að það sé ábyrg stefna að reyna að hafa það klárt að greiðandi launa geti staðið við gerða samninga.
(Og að Davíð er oft sá eini sem stýrir stærri fjölmiðli þar sem eitthvað fleira en ríkisstjórnarvaðallinn veður yfir dómgreindarlaus a la Icesaveósköpin). ....Bæði í boði skattgreiðenda hjá RÚV og svo heimsmeistaranum í skuldetningu fyrirtækja sem löngu ætti að vera komin á bak við þykka steinsteipu. ..Áfram Davíð!
jonasgeir (IP-tala skráð) 1.5.2011 kl. 17:37
Eins og ég sé sprikl LÍÚ, þá snýst það engan vegin um að geta staðið undir launagreiðslum. Afkoma sjávarútvegsins hefur ekki verið betri í a.m.k. áratug, í boði gengislækkunar bankahrunsins. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja, og laun sjómanna er í sögulegu hámarki. Þar af leiðandi er alveg ljóst að þetta snýst um eignarhald/veðrétt útgerðarmanna á kvótanum, og ekki nokkurn skapaðan hlut annan. Að blanda breytingum á kvótakerfinu við gerð kjarasamninga er því grímulaus aðför að þingræðinu/lýðræðinu í landinu í krafti atvinnurekenda, og eitthvað sem er vel til þess fallið að ég fari að hallast að því að styðja þessa ríkisstjórn, sem ég hef nú ekki gert hingað til.
Guðlaugur S. Egilsson, 1.5.2011 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.