Föstudagur, 1. apríl 2011
Siðfræði og hagfræði Icesave
Nei-ið vann lögfræðiumræðuna um Icesave enda reyna fæstir talsmenn ríkisstjórnarinnar að halda fram lögfræði sem rökum fyrir því að íslenska þjóðin ábyrgist greiðslur úr þrotabúi Landsbankans. Deilan snýst núna einkum um siðfræði og hagfræðileg álitamál.
Já-sinnar segja okkur beri skylda til að greiða Bretum og Hollendingum þar sem Íslendingar bera ábyrgð á Björgólfi Björgólfssyni og óreiðubankanum hans sem ryksugaði upp sparifé saklauss fólks.
Nei-sinnar eru sannfærðir um að skuldir einkabanka séu íslensku þjóðinni óviðkomandi. Hrakfarir óreiðuviðskipta eru mál þeirra sem þau stunda en ekki almennings.
Hagfræðirök já-sinna eru þau að við fáum erlend lán ef við samþykkjum Icesave og hagvöxtur eykst.
Við fáum nú þegar erlend lán, segja nei-sinnar. Hagvöxtur eykst ekki við að 60 til 200 milljarðar króna í erlendum gjaldeyri fari úr landi.
Já-sinnar munu hvorttveggja tapa umræðunni um siðfræði og hagfræði Icesave-deilunnar. Þá eru eftir þrenn rök
a) Letirökin: ég nenni umræðunni ekki lengur og því ætla ég að segja já.
b) Aumingjarökin: ég segi já til að komast hjá óþægindum vegna hótana Breta og Hollendinga.
c) Pólitísku rökin: ríkisstjórn Jóhönnu Sig. er í húfi og sömuleiðis pólitísk æra forystu Sjálfstæðisflokksins - þess vegna segi ég já.
Athugasemdir
“Siðaðir menn semja, hinir slást” segir Þröstur Ólafsson í Fréttablaðinu í dag.
http://visir.is/heilagra-manna-sogur/article/2011110339919
Sami maður vildi kenna Norðurlandabúum að græða á félagslegu leiguhúsnæði fyrir ekki svo löngu.
“Spurning dagsins: Þröstur, er ekki næsta skrefið útrás? Jú, næsta skrefið í útrás okkar er að kenna Norðurlandabúum hvernig þeir geti grætt á félagslegu leiguhúsnæði.” (Fréttablaðið 20. mars 2006:2).
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=271627&pageId=3889251&lang=is&q=%DEr%F6stur%20%D3lafsson
Reyna siðaðir menn að græða á félagslegu leiguhúsnæði?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 08:28
Tvær tegundir fólks sem segja já;
1; Bankafólk úr útrás eða lánastarfssemi sem er vant að þiggja afskaplega háar tekjur vegna fjársýslustarfa sinna. Svo þegar illa fer er bara að senda reikningin á almenning. Svona er þetta alls staðar í kring um okkur.
2; Fólk svo illa haldið pólitískum rétttrúnaði að öllu skal til kostað. Meira að segja siðlausar fjárkröfur erlendra stórvelda.
Ég segi nei. Eins og flest sómakært fólk sem ekki lætur plata sig.
jonasgeir (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 09:39
Eru það ekki miklu hærri upphæðir í erlendum gjaldeyri sem yfirgefa hagkerfið ef já verður ofan á?
Skuldabréfið sem NBI lagði inn í þrotabúið er gefið út í erlendum myntum. Það þýðir að 3-400 milljarðar í formi gjaldeyris, ofan á margumtalaðan 30-230 milljarða beinan kostnað ríkisins við samninginn, streyma úr landi ef samingurinn verður samþykktur.
Ég held að eina leiðin til þess að vinda ofan af þessu NBI skuldabréfa brjálæði sé að segja nei, fá málið fyrir dóm og snúa kröfunum yfir í íslenskar krónur.
Ég geri mér grein fyrir því að ef þetta yrði raunin þá myndu erlendir aðilar eignast krónur sem nema upphæð NBI skuldabréfsins. Ég teldi það hins vegar snökktum skárra en að moka þessum peningum út í gjaldeyri fyrirvaralaust og án þess afsláttar sem krónubréfa eigendur þurfa væntanlega að gefa til þess að sleppa út fyrir gjaldeyrishöftin.
Þegar fólk er að tala um gjaldeyrishöftin og Icesave þá held ég að þessi þáttur NBI skuldabréfsins gleymist. Ein megin ástæða þess að við þurfum höftin er væntanlega sú að NBI+SÍ eru að safna þessum gjaldeyri saman sem á að moka inn í þrotabúið og upp í Icesave.
Seiken (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 10:41
Big Læk ;-)
Gullvagninn (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 14:47
Sæll.
Ég skil ekki af hverju menn eru bangnir við dómstólaleiðina. Það er Bretum og Hollendingum ekkert kappsmál að fara þá leið vegna þess að þeir vita að þeir tapa því máli einfaldlega vegna þess að í tilskipunum ESB segir að ekki sé ríkistrygging á bönkunum eða innistæðutryggingastjóðunum og fyrir því eru eðlileg samkeppnissjónarmið. Að þessum reglum er ekkert. Ég held að Bretar og Hollendingar viti betur en við að dómstólaleiðin er þeim í raun ekki fær.
Hvað gerist nú ef við töpum því máli ef það fer fyrir dómstóla? Þá fá ríkisstjórnir í öllum ESB löndunum banka sem starfa þar í hausinn. Mér skilst að staðan á spænskum bönkum t.d. sé ekkert til að hrópa húrra fyrir og eiga þá spænsk stjórnvöld að bera ábyrgð á skuldum þeirra ef EFTA dómstóllinn gerir þá hræðilegu skissu að segja okkur bera ábyrgð á Landsbankanum? Það sér það hver heilvita maður að það gengur aldrei upp. Við sjáum hvað ástandið er frábært á Írlandi vegna ríkisábyrgðar á bönkum. Vilja menn sjá nánast engan hagvöxt í ESB ríkjunum áratugum saman út af útlánastefnu banka? Nei. Þetta mál vinnum við vegna bæði tilskipananna sem og afleiðinga þess fyrir önnur lönd ef við töpum dómsmáli, sem við gerum auðvitað ekki.
Höfum í huga að hagfræði ætti í raun réttri að heita hagspeki enda oft hræðilega lítið að marka hagfræðinga.
Helgi (IP-tala skráð) 1.4.2011 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.