Sunnudagur, 20. mars 2011
Umsóknin, undaþágurnar og stefna ríkisstjórnarinnar
Aðildarsinninn í ritstjórastól Fréttablaðsins, Ólafur Stephensen, skrifar leiðara um umsókn Íslands sem er dæmigerður óheilindi háværa minnihlutans sem vill Ísland inn í Evrópusambandið. Í inngangi skrifar Ólafur ríkisstjórnin hafi ,,aðildarumsókn á stefnuskrá sinni". Það er beinlínis rangt. Steingrímur J. fjármálaráðherra og oddviti annars stjórnarflokksins sagði skýrt og skorinort á blaðamannafundi 24. ágúst í fyrra að
Það er ekki þannig að það sé stefna þessarar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þaðan af síður að ganga í Evrópusambandið.
Það er aðeins samfylkingarhluti ríkisstjórnarinnar sem sækist eftir inngöngu í Evrópusambandið. Annar ríkisstjórnarflokkurinn er á móti aðild en gerði þau kaup við Samfylkinguna að utanríkisráðherra hennar mætti sækja um aðild að Evrópusambandinu á grundvelli þingsályktunar alþingis. Í leiðaranum hneykslast Ólafur á því að Jón Bjarnason skuli halda á íslenskum hagsmunum og starfa á grundvelli margítrekaðra stefnumiða Vg
Ráðherrann vill, rétt eins og í landbúnaðarmálunum, halda fram ýtrustu kröfum um algjöra undanþágu frá sameiginlegri stefnu ESB, í stað þess að reyna að finna sameiginlegan flöt sem geti orðið til þess að sjónarmið Íslands verði hluti af stefnu ESB.
Leiðarahöfundurinn lætur eins og hann þekki ekki til umræðunnar á Íslandi um umsóknina. Umræðan hefur ár og síð gengið út á glæsilegu undanþágurnar sem Samfylkingin ætlar að tryggja okkur með umsókninni. Í umræðunni hefur aðildin aldrei verið meginmálið heldur undanþágurnar.
Heilindin í umræðunni eru ekki mikil þegar aðildarsinnar vilja núna hætta við undanþágurnar sem voru forsenda fyrir umsókninni.
Athugasemdir
Utanríkismálanefnd á þingi Evrópusambandsins hefur nú hvatt "íslensk stjórnvöld til að víkka út almennu umræðuna svo almenningur geti tekið upplýsta ákvörðun í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning" (Mbl.is 22. marz). Upplýst ákvörðun þýðir á máli þessara fugla jáyrði við aðild, ekkert annað, og með slíku orðalagi er jafnframt sáð þeim rógi, að neiatkvæði séu óupplýst, ekki traust verðug. En þetta látlausa baul í ESB-sinnum er í sjálfu sér ómálefnalegt, rakalaust og óupplýst, og sjálfsagt hafa nefndarmenn í Brussel litla sem enga vitneskju um þá málefnavinnu, sem andstæðingar sambandsins á Íslandi hafa í farteski sínu. Brýningin á íslenzk stjórnvöld að víkka út almennu umræðuna, hlýtur sömuleiðis að þýða, að þeim beri að nota skattfé Íslendinga og peninga frá Brussel til að reka enn meiri áróður. Engin önnur skynsamleg skýring er nærtæk. Þetta er afskaplega sjúkt. Samfylkingunni er ekki við bjargandi, en hinir flokkarnir ættu að hreinsa til í sínum ranni, svo að hægt sé að treysta þeim til að standa einarðan vörð um fullveldið. Það krefst ekki þess að bíta frá sér atkvæði eða skipta út almennum flokksmönnum, heldur nokkrum forystumönnum í hverjum flokki. Þjóðin kynni því varla mjög illa, og skörðin í röðum atvinnupólitíkusa fyllast venjulega.
Sigurður (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.