Miðvikudagur, 2. mars 2011
Ingibjörg Sólrún um pólitíkina á bakvið Icesave
Eyjan birtir minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrrverandi utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar um upphaf Icesave-málsins. Í minnisblaðinu er farið yfir þær pólitísku aðstæður sem voru í Evrópu haustið 2008 og taugaveiklunina um að bankakerfi álfunnar væri komið að hruni.
Bretar og Hollendingar tóku einhliða ákvörðun að greiða innistæðueigendum Icesave-reikninganna ábyrgðartryggingu til að forða allsherjar áhlaupi á bankakerfi sitt.
Ísland féllst á að samið skyldi um Icesave-skuldina sem Bretar og Hollendingar sögðu að hefði myndast vegna einhliða aðgerða þeirra. Í lokaorðum minnisblaðsins segir
Rétt er hins vegar að taka fram að þó að hin sameiginlegu viðmið feli í sér pólitíska skuldbindingu þá skuldbinda þau Ísland ekki með neinum hætti að þjóðarrétti ef ný stjórnvöld vilja hafa þau að engu.
Hér er komið að kjarna málsins. Íslenska þjóðin á að hafna Icesave-samningunum þann 9. apríl. Í kjölfarið á sitjandi ríkisstjórn að segja af sér og þjóðin að kjósa nýtt alþingi. Í framhaldi verður Bretum og Hollendingum boðið að semja að nýju.
Tíminn vinnur með okkur. Bæði er að næstu misseri leiða í ljós hvað kemur úr þrotabúi Landsbankans og þar með minnkar óvissan um endanlega fjárhæð og eins hitt að ábyrgð Breta og Hollendinga á einhliða ákvörðun sinni um að bæta tjón innistæðueigenda fær meiri þyngd í umræðunni, samanber nýlega leiðara í erlendum stórblöðum.
Nei, er öruggasta svarið 9. apríl
Athugasemdir
Heyr, heyr!
Kjarni málsins!
Karl (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 08:17
Þetta er ekkert flókið en það flækist nú samt fyrir sumum. Ritstjóri málgagns Steingríms segir þjóðina bera siðferðislega ábyrgð á loforðum stjórnmálamanna sem sitja í umboði þjóðarinnar. Engu skiptir þó að mótmælendur hafi krafist afsagnar þeirra. Engu skipta ásakanir um spillingu þeirra. Væntanlega ber egypska þjóðin líka siðferðislega ábyrgð á Hosni Mubarak – jafnvel þó að hann hafi verið sakaður um spillingu og fjárdrátt upp á 8 þúsund milljarða. Eigur hans hafa verið frystar. Sjálfur er hann í farbanni. Ekkert slíkt er í umræðunni hér. Á meðan lætur einn níumenninganna svokölluðu fara vel um sig í VG. Og þeir herja bara á bloggara. Ekki eitt styggðaryrði um VG. Það er skömm að þessu liði.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 08:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.