Forsendubrestir fyrir ESB-umsókn

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, sem alþingi samþykkti 16. júlí 2009, byggði á þrem forsendum. Ein var aldrei fyrir hendi og hinar tvær eru brostnar. Þess vegna á að draga umsóknina tilbaka, líkt og þingsályktunartillaga frá þingmönnum úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingunni grænu framboði kveður á um.

Fyrsta forsendan fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu er að breið samstaða sé um hana meðal umsóknarþjóðar. Engu slíku var til að dreifa hér á landi. Samfylkingin var eini stjórnmálaflokkurinn sem var með fyrirvaralausa umsókn á stefnuskrá sinni og hlaut 29 prósent atkvæða. Grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, eru á móti aðild og Samtök iðnaðarins sem áður voru fylgjandi hreyfa hvorki legg né liði til að styðja umsóknina.

Önnur forsendan fyrir umsókn Íslands var að hægt væri að ganga til óskuldbindandi viðræðna um aðildarsamning líkt og Norðmenn fengu fyrir 15 árum. Þessi leið er lokuð vegna þess að Evrópusambandið breytti reglum sínum um upptöku nýrra ríkja þegar stækkun til Austur-Evrópu stóð fyrir dyrum í upphafi aldar. Evrópusambandið krefst aðlögunar nýrra ríkja að sambandinu sem felur í sér að umsóknarríki taka jafnt og þétt upp lög og reglur sambandsins á meðan viðræður um aðild standa yfir. Evrópusambandið hefur hert kröfur um aðlögun. Alþingin hefur aldrei samþykkt að Ísland verði aðlagað Evrópusambandinu.

Þriðja forsendan fyrir umsókn Íslands var að aðild að Evrópusambandinu ætti að tryggja efnahagslegan stöðugleika hér á landi. Á því eina og hálfa ári sem liðið er frá því að umsóknin var send hefur reynsla jaðarríkja Evrópu, s.s. Grikklands og Írlands, sýnt ótvírætt að aðild að ESB og myntsamstarfi er engin trygging fyrir stöðugleika. Vegna fjármálakreppunnar verða gerðar róttækar breytingar á stofnsáttmála Evrópusambandsins. Evrópusambandið krefst þess að Ísland sem umsóknarríki samþykki fyrirfram þær breytingar sem verða á grunnstoð sambandsins. Umsóknin er að því leytinu óútfylltur víxlill.

Niðurstaðan getur ekki orðið önnur en sú að Ísland dragi tilbaka umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.


mbl.is Vilja draga umsóknina til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó að fyrir löngu síðan hefði verið.

Þessi ESB umsókn er undarlegasti farsi.

Og á meðan hún er í gangi gerist ekkert til batnaðar af hálfu ríkisvalds, því þetta vonlausa mál á víst að leysa úr öllum þrautum.

..Án þess að fyrir því hafi nokkurn tíman komið sannfærandi skýringar.  ..Og núna á síðustu mánuðum eiginlega bara skýringar með öfugum formerkjum.

jonasgeir (IP-tala skráð) 31.1.2011 kl. 17:00

2 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Það er ábyrgðarleysi af ykkar hálfu að krefjast afturköllunar á aðildarumsókn sem er í gangi núna. Má ekki meirihlutinn á Alþingi ákveða fyrir okkur að fara í aðildarumræðu og kanna hvað sé í boði og hvaða samningsdrög við gætum náð í þessum umsóknarferli. Það er um 80% þjóðarinnar sem vill sjá niðurstöðu úr viðræðunum og taka síðan ákvörðun um með samþykki eða synjun á umsókninni.

Guðlaugur Hermannsson, 31.1.2011 kl. 17:19

3 identicon

Hvernig er enn þann dag í dag hægt að halda því fram að eitthvað leyndarmál smelli upp úr pakkanum þegar aðlögunin er komin í gegn,  ...sem sumir kalla fyrir aðildar"viðræður"?

Það er engin fjársjóður sem er falin í pakkanum sem á eftir að opna.  Það er augljóst! ...Ærlegast væri að leggja spilin á borðið.  Strax.

jonasgeir (IP-tala skráð) 31.1.2011 kl. 18:12

4 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Leyfum þessum viðræðum að klárast og tökum svo afstöðu. Það er skynsemi.

Guðlaugur Hermannsson, 31.1.2011 kl. 18:21

5 identicon

Það er ekki skynsemi og ekki ærlegt að kalla epli fyrir appelsínur.

Og alls ekki að kalla aðlögun að regluverki ESB og Lissabonsáttmála "viðræður".

jonasgeir (IP-tala skráð) 31.1.2011 kl. 19:38

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Hvar kemur fram að 80% vilji klára ferlið Gauðlaugur? Og ábyrgðarlaust? Svisslendingar hættu viðræðum við Evrópusambandið fyrir tæpum 20 árum síðan þegar sýnt þótti að svissneskir kjósendur myndu ekki samþykkja inngöngu í sambandið. Og það áður en nokkur samningur lá fyrir. Enda lá fyrir í öllum meginatriðum hvað innganga í Evrópusambandið þýddi þá rétt eins og í dag.

Hjörtur J. Guðmundsson, 31.1.2011 kl. 21:10

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hvað fyrstu forsenduna varðar þá er nóg að eins atkvæða meirihluti náist í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild til að aðild geti orðið að veruleika. Það er ekki gerð nein krafa um aukin meirihluta.

Hvað aðra forsenduna, sem þú nefnir varðar þá er í gangi umsóknarferli en ekki aðlögunarferli. Meint aðlögun fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu felst í rýnivinnu þar, sem metið er hverju þarf að breyta og sett fram aðgerðaráætlun um það hvernig það skuli gert verði aðild samþykkt. Allt tal um eitthvert "aðlögunarferli" er því bull.

Hvað þriðju forsenduna varðar þá er það svo að þó nokkur ESB lönd séu í heimatilbúnum vandræðum í miðri heimskreppu þá er ESB sterkt bandalag og við Íslendingar munum búa við meiri stöðugleika innan ESB en utan.

Það er einfaldlega engin "forsendubrestur" varðandi ESB umsóknina enda stður verulegur meirihluti þjóðarinnar það að þetta ferli verði klárað og kosið um það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við hvað eruð þið ESB andstæðingar hræddir ef þið teljið að ESB umsókn verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu? Gæti verið að ástæða þingsályktunartillögu eins og þessarar sé einmitt sú að ESB andstæðingar eru alls ekkert vissir um að ESB aðild verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu? Getur verið að helstu talsmenn ESB andstæðinga séu hræddir um að ef kjósendur fái að sjá fullbúinn aðildarsamning að þeir geri sér þá grein fyrir öllum þeim mýtum og hræðsluáróðri, sem ESB andstæðingar hefa verið að halda á lofti? Að þeir geri sér grein fyrir bullinu og rangfærslunum frá þeim?

Ástæða þess að talsmenn landbúnaðar og sjávarútvegs eru á móti ESB aðild er einfaldlega sú að þeir óttast að sérhagsmunum þeirra standi ógn af ESB aðild. Sægreifarnir óttast að núverandi gjafakvótakerfi eigi sér erfitt uppdráttar gangi Ísland í ESB. Forystumenn landbúnaðar óttast að það kverkatak, sem þeir hafa í Íslenskum neytendum í formi innflutningshafta, íslenskum neytendum til tjóns, líði undir lok við inngöngu í ESB. Í báðum tilfellum hafa þessir hópar rétt fyrir sér og það er einn af mörgum kostunum við inngöngu Íslands í ESB.

Sigurður M Grétarsson, 1.2.2011 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband