Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Neyðarkall júdasardeildar Vinstri grænna
Aðalhönnuður svika Vinstri grænna við kjósendur er Árni Þór Sigurðsson starfandi þingflokksformaður Vinstri grænna. Hann bjó til smáa letrið í flokkspappírum sem haldið var frá kjósendum í aðdraganda kosninganna vorið 2009 en auglýst sem réttlæting fyrir kúvendingu forystu Vinstri grænna í Evrópumálum.
Eftir svikin 16. júlí 2009, þegar nokkrir þingmenn Vinstri grænna samþykktu að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hefur flokkurinn verið að liðast í sundur. Fjölmargir stofnfélagar og trúnaðarmenn vítt og breitt um landið sögðu skilið við flokkinn. Frægt er bréfið sem stuðningsmenn formannsins skrifuðu og sögðu hann ómerking.
Árni Þór er starfandi formaður þingflokks sem er að liðast í sundur vegna svika við kjósendur og stefnuskrá flokksins. Ef þingflokkurinn liðast í sundur er ríkisstjórnin dauð. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er neyðaróp Árna Þórs þar sem hann segir að verið geti að það þurfi að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Skrækur Árna Þórs er ekki tilviljun. Í gær flutti annar þingmaður handgenginn Steingrími J. formanni sama boðskap. Björn Valur Gíslason þingmaður viðurkennir að alþingi hafi ekki veitt ríkisstjórninni umboð til aðlögunar Íslands að Evrópusambandinu.
Forysta Vinstri grænna sendir sos-skeyti til Samfylkingarinnar að umsóknin njóti ekki nægilegs stuðnings til að forsvaranlegt sé að halda henni til streitu, ríkisstjórnin hreinlega lifi það ekki af. Steingrímur J. og félagar treysta á að Össuri og Jóhönnu sé meira umhugað um ráðherrastólana en umsóknina.
Athugasemdir
Ætli Steingrímur hugsi ekki um hvaða áhrif á eftirlaunin hans hver mánuður á ráðherrastóli þýðir? Skildist engum öðrum en mér á Reykjavíkurbréfi Davíðs að Steingrímur hefði ekki verið andsnúinn efitlaunafrumvarpinu sem kennt hefur verið við Davíð?
Halldór Jónsson, 12.1.2011 kl. 13:05
Svofelldan pistil mátti lesa á andriki.is þriðjudaginn 17. febrúar 2009:
„Eftirlaunafrumvarpið“ breytti ekki aðeins reglum um eftirlaun. Í 23 gr. frumvarpsins var meðal annars svohljóðandi ákvæði:
„Þeir alþingismenn, sem eru formenn stjórnmálaflokka, sem hlotið hafa a.m.k. þrjá þingmenn kjörna, og eru ekki jafnframt ráðherrar, fá greitt 50% álag á þingfararkaup.“
Með „eftirlaunafrumvarpinu“ fengu formenn stjórnarandstöðuflokkanna, sem þá voru Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Guðjón A. Kristjánsson, þannig 50 % launahækkun á mánuði. Ekki hefur heyrst mikið um að það sé sérstakur „ósómi“, eins og álitsgjafar og varaþingmenn hafa sagt um „eftirlaunafrumvarpið“ að öðru leyti. Og með því frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram, er ekki hróflað við þessu ákvæði. Og aldrei skulu fréttamenn eða álitsgjafar fjalla um þetta ákvæði í endalausum upprifjunum sínum og útreikningum á eftirlaunum. En svo fréttamönnum og álitsgjöfum sé hjálpað um útreikninga á áhrifum „eftirlaunafrumvarpsins“, hins svonefnda „ósóma“, þá er hann svona:
„Eftirlaunafrumvarpið“ tók gildi 30. desember 2003. Frá þeim tíma hafa verið 61 mánaðamót. Allan þann tíma var Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstrigrænna. Hann hefur því 61 sinni fengið þingfararkaup með 50% álagi vegna „eftirlaunafrumvarpsins“. Sumir hafa hins vegar aldrei þegið þau eftirlaun sem þeim hafa boðist. Davíð Oddsson hefur til dæmis aldrei gert það, en hann hefur frá október 2005 átt rétt á eftirlaunum. Síðan hann öðlaðist þann rétt eru liðin 40 mánaðamót.
Eftir þá launalækkun sem ákveðin var um áramót er þingfararkaup 520.000 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra eru eftir lækkunina 935.000 krónur. Sá sem fær 50% álag á þingfararkaup í 60 mánuði fær þannig 15.600.000 krónur í sinn hlut. Eftirlaunaréttur Davíðs Oddssonar, sem hann afþakkar um hver mánaðamót, er nú, eftir lækkun um síðustu áramót, 748.000 krónur.
Og hver er það nú sem fjölmiðlamenn og álitsgjafar hafa á heilanum vegna „eftirlaunafrumvarpsins“?
Og hver er það sem fjölmiðlamenn og álitsgjafar hafa aldrei rætt um í tengslum við ábata af „eftirlaunafrumvarpinu“?
Steingrímur J. Sigfússon hefur nú lagt fram frumvarp um afnám eftirlaunalaga. Svo skemmtilega vill til, að frumvarp hans myndi afnema öll ákvæði „eftirlaunafrumvarpsins“, nema 23. gr. þess. Æ hvað var aftur í henni?
Baldur (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 18:17
Halldór, Steingrímur var ekki bara ekki andsnúinn eftirlaunafrumvarpinu, heldur greiddi hann beinlínis atkvæði með því og „hljóp svo uppá fjöll (...) þegar fjölmiðlar reyndu að ná í hann til að krefja hann svara.“
Heimild: http://stormsker.blog.is/blog/stormsker/category/3/?offset=60
Alfreð K, 12.1.2011 kl. 20:11
Frumvarpið var samþykkt af formönnum allra stjórnmálaflokkanna.
Þeir voru á þeim tíma Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson.
Davíð Oddsson flutti ekki frumvarpið né átti heldur frumkvæði að því að það var lagt fram. Flutningsmenn voru þingmenn allra flokka sem sátu í forsætisnefnd.: Halldór Blöndal, Guðmundur Árni Stefánsson, Jónína Bjartmarz, Þuríður Backman, Sigurjón Þórðarson.
Pólitísk samstaða um frumvarpið var milli allra flokka á öllum stigum málsins þó svo "gungur og druslur" hafi síðan reynt að flýja málið eftir að í ljós kom að almenningur var andvígur frumvarpinu.
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.