Sverrir í vörn fyrir pólitískan þjófnað

Stjórnmálaflokkar eru á opinberu framfæri og þjóna því hlutverki í samfélaginu að bjóða fram pólitíska valkosti. Trúnaður við almenning er höfuðskylda stjórnmálaflokka. Kjarnaatriði trúnaðarins er að stjórnmálaflokkur segi það sem hann meinar og meini það sem hann segi.

Vinstrihreyfingin grænt framboð sagðist við síðustu kosningar vera á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Frambjóðendur flokksins tónuðu þetta stef á framboðsfundum og formaðurinn tók sérstaklega fram að Vinstri grænir væri ,,stefnufastur" flokkur.

Eftir kosningar brá svo við að forysta Vinstri grænna gerði samkomulag við Samfylkinguna um að ríkisstjórnarmeirihluti þessara tveggja flokka skyldi standa að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Samkomulag Vinstri grænna við Samfylkinguna um að styðja aðildarumsókn Íslands er pólitískur þjófnaður sem þverbrýtur höfuðskyldu stjórnmálaflokks en það er trúnaður við almenning. 

Sverrir Jakobsson sagnfræðingur skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann reynir að verja pólitískan þjófnað forystu Vinstri grænna með því að segja að ,,grasrót" flokksins hafi blessað þjófnaðinn.

Vinstri grænir sóttu umboð sitt til almennra kjósenda í þingkosningum. ,,Grasrót" flokksins hefði skilað framboðinu tveim til þrem þingmönnum. Samband ,,grasrótar" og forystu flokks er með ýmsum hætti en hvort sem ,,grasrótin" er meðvirk forystunni eða veitir henni aðhald getur engin ,,grasrót" verið forystu skálkaskjól fyrir trúnaðarbrot gagnvart almenningi.   

Yfirþyrmandi tækifærismennsku sína undirstrikar Sverrir með því að spyrja gagnrýnendur innan flokksins með þjósti hvort þeir vilji að ríkisstjórnin falli. Fyrir það fyrsta getur ríkisstjórn sem mynduð er með pólitískum þjófnaði ekki vænst langra lífdaga. Í öðru lagi er spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu mikilvægari en svo að muni einni ríkisstjórn til eða frá.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og allir vita er blogg Páls Tilfallandi athugasemdir ekki réttnefni. Páll kynir sig sem blaðamann en ekki Baugsmiðil(!!!!). Það gæti verið rétt en skiptir ekki máli. Páll er framkvæmdastjóri Heimssýnar og bloggið er augljóslega hluti af starfinu. Í´pistli eftir pistli hamrar Páll á sömu atriðunum.Atriðin eru fá og einföld og höfða til tilfinninga. Pistlarnir bera öll einkenni áróðurs. Hvað skyldu orðin pólitískur þjófnaður vera endurtekin oft í pistlinum hér að ofan. Kjarninn í áróðurspistli Páls er Pólitískur þjófnaður.Pólitískur áróður hefur margt sameiginlegt með áróðri trúarofstækismanns. Hér er ekki verið að hvetja til vitrænnar umræðu nema að litlu leyti. Annað mikilvægt einkenni á áróðursskrifum Páls er skefjalaust hatur á Samfylkingunni. Nú er hatur ekkert nýtt í stjórnmálum þannið að Páll er hér í allfjölmennum félagsskap. Ég birti hér að neðan greinina eftir Sverri sem Páll hefur til umfjöllunnar.

Sverrir Jakobsson skrifar:

Ólafur Páll Jónsson heimspekingur skilgreindi á dögunum íslenska umræðuhefð sem prúttlýðræði en einkenni á því væri „að þar mætir fólk þeim sem það er ósammála sem einstaklingum sem það forðast að hlusta á" (sbr. frétt á vefritinu Smugunni 1. nóvember s.l.) Mér varð hugsað til þessarar skilgreiningar þegar ég las grein eftir Hjörleif Guttormsson í Fréttablaðinu 12. nóvember sem var svar við grein eftir undirritaðan frá 2. nóvember. Í svari sínu endurritar Hjörleifur mín skrif með gildishlöðnu og tilfinningaþrungnu orðalagi og kallar þau tilraun til „að réttlæta uppgjöf forystu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs gagnvart Samfylkingunni við ríkisstjórnarmyndun í maí 2009". Þetta orðalag á sér ekki stoð í neinu sem ég hef sagt. Fyrir mér átti sér aldrei neitt stríð stað og ekki heldur uppgjöf sem ég þurfi að réttlæta. Umorðun Hjörleifs á grein minni felur í sér valdbeitingu á tungumálinu þar sem allur málflutningur eru felldur að eintóna umræðuhefð; pólitískur ágreiningur felur í sér sigur eða tap og málamiðlanir eru kallaðar uppgjöf. Ég hef takmarkaðan áhuga á að reynt sé að þýða mín sjónarmið yfir á tungutak þeirra sem kjósa hróp í hornum fram yfir samræður.

Það kemur mér ekki á óvart að Hjörleifi Guttormssyni finnist margt aðfinnsluvert við samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar; ekki síst sú staðreynd að flokksráð vinstrigrænna kaus að ganga til stjórnarsamstarfs á grundvelli málamiðlunar varðandi stefnuna til Evrópusambandsins. Ég virði þá afstöðu hans að það hafi verið rangt að gera málamiðlun varðandi þetta mál og að það brjóti gegn grundvallastefnu flokksins. Ég skil hins vegar ekki þá staðhæfingu hans að samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi verið ætlað að „afvegaleiða" flokksmenn vinstrigrænna. Í grein sinni færir hann engin rök fyrir því önnur en að benda á atriði í sáttmálanum sem hann er sjálfur efnislega ósammála. Séu þessir kaflar í samstarfsyfirlýsingunni gallaðir þá voru þeir gallar til staðar í fyrra þegar flokksráð VG samþykkti að ganga til samstarfs á grundvelli hennar. Það felst engin afvegaleiðing í því að önnur stefna hafi verið ákveðin en Hjörleifur hefði sjálfur kosið. Það er ekki hægt að afgreiða ágreining um forgangsmál og aðferðafræði í stjórnmálum sem svik og blekkingar.
Einu marktæku rökin sem Hjörleifur nefnir fyrir meintum forsendubresti eru að hann dregur það í efa að þingmenn VG hafi verið óbundnir í afstöðu til tillögu utanríkisráðherra um að leggja fram umsókn að Evrópusambandinu. Hjörleifur gengur svo langt að staðhæfa að forsendum málsins hafi verið „snúið á haus" vegna þess að tillagan var lögð fram sem ríkisstjórnartillaga en ekki sem þingmannamál af hálfu utanríkisráðherra. Þar tel ég þó langt seilst í röksemdafærslu því að eftir sem áður var stjórnarþingmönnum frjálst að kjósa gegn tillögunni og ýmsir þeirra gerðu það. Það styður ekki staðhæfingar um fullkominn viðsnúning.

Hjörleifur telur einnig að það breyti forsendum fyrir aðildarumsókn að ríki sem gengu í ESB á árunum 2004 og 2007 fengu í aðdraganda þess sérfræðiráðgjöf og fjárhagsstyrki frá Brussel. Þetta eru vissulega nýmæli frá því að Noregur, Finnland og Svíþjóð sóttu um aðild að Evrópusambandinu á 10. áratugnum, en þetta eru ekki forsendur sem hafa breyst frá því að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu sumarið 2009 eða frá því að flokksráð VG samþykkti að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs á þeim grundvelli að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Vera má að einhverjum þyki sú ákvörðun hafa verið röng og að enn aðrir hafi skipt um skoðun á réttmæti hennar. En þá ber að kalla skoðanaskiptin réttu nafni en ekki reyna að skella ábyrgðinni á aðra með órökstuddu tali um forsendubrest.

Hjörleifur kýs að kalla það útúrsnúning að ég hafi brugðist við áskorun hans og 99 annarra til forystu VG með því að rifja upp þá niðurstöðu sem grasrót flokksins komst að í fyrra eftir lýðræðislega umræðu. Jafnframt lýsti ég eftir afstöðu hundraðmenninganna til núverandi ríkisstjórnarsamstarfs vegna þess að ein forsenda þess samstarfs var að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Hjörleifur svarar ekki því kalli og greinir ekki frá afstöðu sinni til ríkisstjórnarsamstarfsins. Það væri þó umræðunni mjög til framdráttar að hann og aðrir veittu skýr svör um.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 07:43

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Löng athugasemd hjá þér Hrafn, reyndar að stæðstum hluta til coperuð.

Þú bendir þó ekki á neina rangfærslu hjá Páli, reyndar er eina sem þú segir er að hann sé framkvæmdarstjóri Heimsýnar. Er honum, þar með óheimilt að tjá sig?

Þó aðildarsinnar vildu glaðir banna alla neikvæða umræðu um aðlögunarferlið, þá er enn tjáningarfrelsi hér á landi!!

Gunnar Heiðarsson, 16.11.2010 kl. 08:13

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Hrafn, ég varð framkvæmdastjóri Heimssýnar sl áramót í hlutastarfi. Ég byrjaði að blogga síðsumars 2006. Ólíkt hjörðinni sem þú tilheyrir skipti ég ekki um skoðun fyrir peningagreiðslu, hvort sem í hlut á ESB eða Baugur.

Páll Vilhjálmsson, 16.11.2010 kl. 08:18

4 identicon

Sæll Gunnar, ég geri ráð fyrir því að þú sért læs. Lestu grein Sverris og berðu hana svo saman við blogg Páls. Ef allt er eðlilegt með lesskilning muntu skilja út á hvað málið gengur. Gangi þér vel!

Sæll Páll, ég þakka fyrir upplýsingar um starfsferil. Ég tilheyri ekki neinni hjörð og peningar hafa aldrei haft áhrif á mínar skoðanir. Það hefur aldrei hvarlað að mér að slíkt ætti við um þig og ég vona að þú skiljir að það á ekki við um mig heldur.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 11:03

5 identicon

Hvernig í ósköpunum nennir Páll að hafa svona bloggsóða eins og ríkisstarfsmanninn Hrafn, haldandi úti sínu eigin bloggi inni á athugasemdardálki síðunnar?  Hvergi á netinu myndi þetta líðast er ég nokkuð klár á, og alveg örugglega hjá öllum samfylkingarbloggurum Eyjunnar og moggablogginu.  Er ekki möguleiki að hann fái aðstoð við að opna sína eigin bloggsíðu til að koma sínum skoðunum á framfæri í stað þess að tröllast hérna öllum til ama.  Nóg er að þjóðin þurfi að borga honum fyrir skrifin eða vinnusvikin sem fara fram á vinnutíma ríkisstarfsmanna, og þurfa ekki að sitja uppi með tognaðan fingur við að skrolla yfir alla steypuna sem hann er að spamma?

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 19:56

6 identicon

Hrafn,

Icesave, skjaldborg um heimili landsmanna, gegnsæi, einkavæðing bankanna, fyrningarleið kvótans, ESB umsóknin, niðurskuður félagslega kerfisins, uppsögn starfsmanna á landsbygðinni og fl af stefnumálum VG er semsagt allt málamiðlun af hendi VG, en þá spyrja kjósendur sig, hversvegna fór VG í ríkisstjórnarsamstarf?......

Johannj (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 20:44

7 identicon

Atkvæðastuldur stjórnar Vinstri grænna, hlýtur að teljast sóðalegasti pólitískur gjörningur allra tíma.  Þeir sem bera ábyrgðina hafa vonandi með honum framið sitt pólitíska sjálfsmorð.  Farið hefur fé betra þegar raðlygarar eins og Steingrímur J. eru annars vegar.  Hann stillti sér upp sem jafningi formanna Samfylkingarinnar.  Sverrir stefnir sömu leið með að afbaka sannleikann í stíl stjórnarráðherranna sem eru í Samfylkingunni og þeim sem hlýða eins og þægir hundar.

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband