Sunnudagur, 10. október 2010
Álver á undan amen
Pilsfaldur er freisting fyrir þjóna kirkjunnar. Fjölþreifni látins biskups er nýhætt að vera umræðuefni og þá kemur galvaskur Suðurnesjaprestur og biður um pilsfaldakapítalisma. Í útvarpsmessu biður presturinn í Útskálakirkju stjórnvöld um að skaffa eins og eitt stykki álver suður með sjó.
Reykjanesbær hefur um árabil rekið atvinnustefnu í þágu spillingar þar sem bæjarstjórinn og hjörð í kringum hann makar krókinn og brauðmolar falla til almennings. Undir forystu Árna Sigfússonar bæjarstjóra er ætlunin að selja útlendingum orkuauðlindirnar vegna þess að annað er búið að selja. Spillingargangverk Árna og félaga verður að stöðva áður en óbætanlegt tjón hlýst af.
Presturinn í Útskálakirkju sýnir ruglinu meðvirkni með því að krefjast álvers. Prestinum væri nær að segja fólki til syndanna.
Athugasemdir
Nú hlýtur biskupinn að segja prestinum til syndanna. Annars má búast við að prestar landsins taki uppá því að lesa uppúr stefnuskrám alls konar flokka og hreyfinga. Þeir gætu jafnvel tekið að sér að vera umboðsmenn samtaka og fyrirtækja. Eitt fyrir landbúnaðinn, annar fyrir iðnaðinn og sá þriðji fyrir Baug. Thank you very much for this mess!
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 17:03
Sumir halda því fram að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafi stjórnað illa undanfarin ár. Reyknesingar sjálfir sem endurkusu sömu aðila til valda núna nýverið virðast þó ekki vera þeirrar skoðunar.
Er þetta þá nýja Ísland? Stjórnvöld sem eru ósátt við þá sem ráða ferðinni í einu sveitarfélagi mega þá nota hvert tækifæri, löglegt og ólöglegt til að bregða fæti fyrir hverja þá atvinnuuppbyggingu einkaaðila sem reynd er í sveitarfélaginu.
Skilaboðin til kjósenda eru skýr. Kjósið rétt eða þið skuluð hafa verra af.
Nauðungaruppboð í Reykjanesbæ eru álíka mörg og í Reykjavík sem er margfalt stærra sveitarfélag. Atvinnuleysi er það mesta á landinu.
Mér þykir langlundargeð Suðurnesjamanna með ólíkindum. Það næsta sem liggur fyrir hjá þeim er að loka aðgangi að flugvellinum þangað til að stjórnvöld láta undan og hætta þvælast fyrir öllu sem reynt er að gera.
Ef einhver spyr um af hverju flugvellinum hafi verði lokað má segja að það sé verið að kanna umhverfisáhrif af starfseminni. Náttúran verði að njóta vafans þannig að vissara sé að hafa lokað á meðan. Þetta eru rök sem ríkisstjórnin sjálf hefur notað þannig að hún hlýtur að hafa fullan skilning á því.
Finnur Hrafn Jónsson, 10.10.2010 kl. 17:15
Smá upprifjun síðan í vor að þessu tilefni: http://www.visir.is/article/20100525/SKODANIR03/7100312
Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 17:30
Þetta hefur ekkert með pilsfaldakapítalisma að gera!
Ef Álver fer á hausin, fer það á hausin.
Það er auðvitað áfall fyrir þá sem þar vinna ef svo og þegar það gerist einhvern tíma í framtíð fjarri, en hefur annars lítið með pilsfaldakapítalismann ef ég veit haus eða sporð á því fyrirbæri!
Ekki nema ríkið kæmi inn og borgaði tap rekstrarins.
Það er ekki pilsfaldakapítalismi að krefjast þess að ríkið gangi ekki yfir allar grensur í að stöðva allt sem getur kallast fjárfesting á svæði SV -lands.
jonasgeir (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 17:53
Tek undir með Hrafni, það er orðið ansi sorglegt hvað blásið er á allar atvinnutillögur sem koma, og þær eru ekki fáar.
Eva Sól (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.