Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Eignir, viðskipti og samfélagið
Októberhrunið 2008 krefst athugunar á pólitískum undirstöðum. Ívar Páll Jónsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar hugvekju í dag um eignir undir fyrirsögninni Óttinn við útlendinga er lífsseigur. Lykilsetning í greininni er eftirfarandi
Eign er einskis virði, ef ekki má selja hana.
Setningin er pólitísk yfirlýsing og hún er röng. Þær eignir eru verðmætastar sem ekki er hægt að selja. Tungumálið okkar er mikilsverð eign, svo dæmi sé tekið, og verður ekki seld.
Auðlindir okkar til lands og sjávar eru eignir sem við eigum ekki að selja vegna þess að þær eru verðmæti sem ákvarða lífsskilyrði hér á landi til langrar framtíðar. Við eigum ekki þessar eignir heldur afkomendur okkar.
Viðskiptaeignir sem geta gengið kaupum og sölu eru, þegar grannt er skoðað, ómerkilegustu eignirnar einmitt vegna þess að þær fást fyrir fé.
Athugasemdir
Sæll Páll og takk fyrir málefnalega gagnrýni.
Nú liggur beint við að spyrja þig: Ef erlent fyrirtæki gerði eftirfarandi tilboð í íslenskt orkufyrirtæki og þær auðlindir sem það réði yfir:
Uppsett kaupverð staðgreitt.
Fyrirtækið skuldbindur sig, út í hið óendanlega, til að selja orkuna til viðskiptavina - fyrirtækja og heimila - á hálfu því verði sem hún er núna seld.
Væri óeðlilegt, eða óþjóðlegt, að taka slíku tilboði?
Þetta er auðvitað ýkt dæmi, en það sýnir að við einhver mörk borgar það sig og er heillavænlegt að selja auðlindir.
Ef nógu hátt verð er boðið, telur seljandinn sig betur staddan en fyrir söluna.
Hitt er svo annað mál, eins og ég segi í pistlinum, ef opinber aðili selur auðlindina með afslætti vegna bágrar fjárhagsstöðu og slæms rekstrar í fortíðinni. Þá er slík framganga ámælisverð.
Ívar Páll Jónsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 10:28
Sæll Ívar Páll, það væri óeðlilegt að taka tilboðinu sem þú lýsir vegna þess að við Íslendingar sem nú erum á lífi höfum ekki heimild til að selja auðlindir þjóðarinnar frá okkur - alveg sama hvað í boði er. Afkomendur okkar eiga skilyrðislaust tilkall til að ganga að auðlindunum vísum.
Sumt selur maður ekki þótt maður ,,eigi" það. Ég hef ,,eign" í gæsalöppum vegna þess að það er hált hugtak. Í pistli þínum ertu í raun að tala um viðskiptalegar eigur, sem eru ekki nærri allar eigur. Ég til dæmis ,,á" börnin mín í hversdagslegum skilningi orðsins en samt eru þau ekki mín ,,eign".
Aðgreining á viðskiptalegum eigum annars vegar og hins vegar eigum sem ekki verða seldar er verkefni stjórnmálanna. Á síðustu árum hefur viðskiptavæðing eigna verið úr hófi fram. Jafnvel tungumálið átti að viðskiptavæða, samanber tillögu þáverandi varaformanns Samfylkingarinnar um að gera stjórnsýsluna tvítyngda með tilskipun.
Þakka þér fyrir pistilinn í morgun. Eins og þú sérð er ég ósammála niðurstöðum þínum en maður vaknar til umhugsunar við skýra og skilmerkilega grein eins og þína.
Páll Vilhjálmsson, 12.8.2010 kl. 10:50
Sammála Páli. Sumt selur maður einfaldlega ekki. Við, núlifandi íslendingar höfum ekkert leyfi til að selja auðlindir þjóðarinnar frá framtíðarkynslóðum íslendinga. Flóknara er það ekki. Það kemur stjórnmálastefnum ýmis konar ekkert við heldur. Auk þess er það siðferðilega óverjandi að selja þær auðlindir sem afar okkar og ömmur byggðu upp með blóði sínu, svita og tárum í áratugi. Orkan okkar er ómetanleg og megin hlutverk hennar hlýtur að vera það að gera landið byggilegt og lífskjörin góð þ.e. veita landsmönnum og fyrirtækjum þeirra ljós og hita á góðum kjörum.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 12.8.2010 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.