Föstudagur, 16. júlí 2010
Lýðræði og aðlögun að útlendu forræði
Þegar ljóst var að Vinstrihreyfingin grænt framboð ætlaði að svíkja kjósendur sína og ganga að kröfum Samfylkingar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var lögð fram tillaga á alþingi að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland ætti að sækja um. Ríkisstjórnarflokkarnir höfnuðu tillögunni.
Fyrir sléttu ári samþykkti ríkisstjórnarmeirihlutinn að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Lýðræðislegar forsendur fyrir samþykktinni voru hæpnar, svo ekki sé meira sagt. Annar stjórnarflokkurinn, Vg, hafði á stefnuskrá sinni að halda Íslandi utan Evrópusambandsins en sveik þá stefnu til að geta myndað ríkisstjórn með Samfylkingu.
Innganga í Evrópusambandið felur í sér að forræði íslenskra mála flyst í stórauknum mæli til Brussel. Reglur Evrópusambandsins um inngöngu nýrra ríkja fela í sér að umsóknarríki aðlagi sig að stjórnsýslu Evrópusambandsins jafnt og þétt í ferlinu sem leiðir til inngöngu. Þjóðaratkvæðagreiðsla í lok þessa ferlis er skrumskæling á lýðræði, einfaldlega vegna þess að þjóðin stæði frammi fyrir orðnum hlut.
Öllum má ljóst vera að ótvíræður meirihluti þings og þjóðar þarf að vera fyrir umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Engu slíku er til að dreifa og því á alþingi að samþykkja fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um að Ísland dragi umsóknina um aðild tilbaka.
Athugasemdir
Staksteinar í dag eru tær snilld.:
Sveigjanleiki ESB
Íslenskir Evrópusinnar hlupu upp um hálsinn hver á öðrum þegar evrópska kerfið samþykkti að íslenskir langferðabifreiðastjórar mættu aka eigin bílum tveimur stundum lengur tvo daga í viku en ESB hafði áður ákveðið.
• • • •
Ekki hafði tekið nema tvö ár fyrir kerfið að sýna þessa lipurð. Evrópusinnar réðu sér varla fyrir kæti.
• • • •
Þetta sýndi að áróður sjálfstæðissinna í Evrópumálum um tregðu og ósveigjanleika ESB fengi alls ekki staðist.
• • • •
Reyndar hafði íslenska kerfið reynt í hálfan annan áratug að sannfæra evrópska kerfið um að Ísland ætti ekki að vera hluti af sameiginlegum evrópskum reglum um aksturstíma vöruflutningabílstjóra.
• • • •
ESB menn sögðu að það gengi ekki að hafa fleiri en eina reglu því vöruflutningabifreiðastjórar ækju þvers og kruss yfir evrópsk landamæri og Brussel yrði því að ákveða hversu syfjaðir þeir mættu vera.
• • • •
Bent var á að íslenskir ökumenn slíkra bifreiða væru ekki líklegir til að aka syfjaðir yfir landamæri. Ef þeir ækju yfir þau hefðu þeir örugglega drukknað löngu áður en svefnleysið færi að svekkja þá.
• • • •
Það má ESB eiga að það tók þá ekki nema tæp 5 ár að upplýsa að þeir skildu ekki röksemdina. Það var íslenska stjórnkerfinu að kenna.
• • • •
Því hafði láðst að láta landakort fylgja athugasemdunum sem sýndi að Ísland væri eyja.
(O:
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.7.2010 kl. 14:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.