Á fundi með Bjarna Ben

Opinn fundur var með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi gærkveldi. Umræðuefnið var hrunskýrslan og viðbrögð við henni. Um fimmtíu til sextíu manns sóttu fundinn sem stóð frá átta til hálfellefu. Bjarni hélt um 20 mín. framsögu og stóð eftir það á miðju gólfi og tók ágjöf.

Stutta útgáfan af framsögu Bjarna er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi viðurkennt margvísleg mistök, þar vísaði hann í ræðu fráfarandi formanns Geirs H. Haarde á landsfundi. Kjarnaatriði í mistökum flokksins var að eftirliti með markaðnum, einkum fjármálamarkaði, var ábótavant.

Fundarmenn gerðu ekki stórar athugasemdir við greiningu formanns Sjálfstæðisflokksins á forsögu hrunsins. Á hinn bóginn vildu áheyrendur ræða út í hörgul uppgjör flokksins við áhöfn hrunskútunnar. Efnislega er afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins að hann geri kröfu til helstu trúnaðarmanna flokksins að leggja spilin á borðið og útskýra það sem þarf að útskýra. Bjarni tók fram að hann sem formaður gæti ekki skákað mönnum út og inn af alþingi. Formaðurinn vísaði í lögvarða hagsmuni þingmanna, og gaf þannig undir fótinn sjónarmiðum um að menn ættu þingsæti sem lén.

Fundurinn var ósammála formanninum um að láta hverjum og einum þingmanni það eftir að ákveða framtíð sína. Þingmenn yrðu að horfast í augun við afleiðingarnar af nánu samneyti fulltrúa almannahagsmuna og auðmanna. Þeir sem hefðu verið upp fyrir haus í græðgisvæðingunni ættu að víkja.

Önnur mál til umræðu voru kvótamál, lítið nýtt þar, og afskriftir skulda. Rætt var um hugtakið ,,greiðsluvilji" í samhenginu hvort hópar fólks, einkum yngra fjölskyldufólk, myndi tapa greiðsluviljanum. Afskriftir fyrirtækja útrásardólga voru fordæmdar og spurt hvers vegna þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu sig ekki í frammi í þeirri umræðu. 

Formanninum var þökkuð koman á Nesið og umræðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés Magnússon

Þingsæti eru auðvitað ekki lén, sem menn halda svo lengi sem þeim sýnist. En þau eru lén frá kjósendum svo lengi sem kjörtímabilið varir. Það eru þingmenn sem fá kjörbréf, ekki flokkarnir. Ef mönnum sinnast við aðra flokksfélaga á þingi, þá ganga þeir úr þingflokknum en halda sæti sínu á þingi.

Engum manni er unnt að ryðja af þingi nema með kosningum eða dómi (óbeint, því það er þá Alþingis að úrskurða hvort hann hafi misst kjörgengi með flekkun mannorðs). Forseti getur ekki tekið það upp hjá sér hvað þá flokksformenn, en inni á Alþingi er Bjarni Benediktsson bara þingmaður úr Garðabænum.

 Á hinn bóginn getur formaðurinn lagt fram tillögu um að tilteknum þingmanni sé vísað úr þingflokknum og þannig gæti hann skákað eftir þörfum. Eins er í lögum flestra flokka heimildarákvæði fyrir brottrekstri úr þeim, en mér vitanlega hefur enginn þeirra gripið til slíkra úrræða frá því að Fylkingin og ámóta samtök voru og hétu.

Andrés Magnússon, 5.5.2010 kl. 11:40

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Í framhaldi af ofanrituðu eru þau tíðindi af fundinum að Bjarni sagðist aðspurður ávallt lýsa yfir stuðningi við þingmenn og trúnaðarmenn flokksins - þangað til hann hætti því. Hverjum glymur klukka B. Ben næst?

Páll Vilhjálmsson, 5.5.2010 kl. 12:06

3 identicon

Grasrótin í flokkunum getur krafist þess að "styrkþegarnir" segi af sér.

Það ættu þeir auðvitað að gera allir sem einn og í öllum flokkum.

Það sem mér kemur mest á óvart er hversu þögul grasrótin er í flokkunum.

Hvaða skýring er á því?

Er hollustan við flokkinn, formanninn og þingmanninn svona ofboðslega sterk í þessum flokkum að ekki nægi að fyrir liggi að viðkomandi hafi þegið peninga, mútur að flesta mati, af glæpamönnum sem hafa lagt þetta samfélag í rúst?

Hvað nægir til að vekja grasrótina?

Og auðvitað alveg magnað að þetta ástand skuli líka vera ríkjandi innan Samfylkingarinnar. Nógu hátt göluðu menn þar og góluðu vegna foringjahyggju og flokkshollustu sjálfstæðismanna.

Óheilindin í íslenskum stjórnmálum eru alveg takmarkalaus.

Enda er almenningur með æluna í hálsinum.

Stjórnmálamenn virðast ekki gera sér það ljóst.

Ekki grasrótin heldur.

Furðulegt.

Karl (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband