Siðferði snýst ekki um reglur

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins ver styrkjakónginn Guðlaug Þór Þórðarson þingmann flokksins með þeim orðum að reglur hafi ekki verið brotnar. Ef þessi mælikvarði yrði notaður við uppgjör við hrunið myndu þeir sleppa sem síst skyldi.

Á útrásartímum misstu sumir sig í fjármálaæði. Hversdagslegt fólk tók á sig skuldabyrðar sem það stendur ekki undir. Það braut engar reglur en verður samt sem áður að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna.

Stjórnmálamenn sem misfóru með það traust sem almenningur sýnir þeim eiga að taka afleiðingunum. Þeir sem sýndu sig auðkeypta og tróðu vasana fulla af útrásarfé eiga ekki að sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Það kraumar undir og stjórnmálaflokkar og forysta þeirra, einkum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, verða að kannast við alvöru málsins. Stjórnmálaflokkar eru ríkisrekin félagasamtök. Almenningur líður ekki að stjórnmálaflokkar telji sig hafna yfir almennt siðferði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Siðferði og reglur eru samtvinnuð. Reglur eru setta á grundvelli siðferðis hvers tíma. Varðandi styrkina höfðu spurningar vaknað um að stjórnmálamenn væru að fara fram úr sjálfum sér og því voru nýjar reglur settar um fjárstuðning við flokka og einstaklinga. Þá slapp fjandinn laus.

Við eigum rétt á að vita hverjir þáðu ofurstyrki, en Bloggheimar eru ekki endilega best til þess fallnir að gerast dómarar í sök. Það eru kjósendurnir sem bera þá ábyrgð og það er mælikvarði á siðvitund þjóðarinnar sem næst mun koma upp úr kjörkössunum.

Siðlaus þjóð kýs sér siðlausa stjórnmálamenn.

Ríkisreknir stjórnmálaflokkar eru svo annað mál sem vert væri að skoða.

Ragnhildur Kolka, 27.4.2010 kl. 12:00

2 identicon

Mæltu manna heilast. Þessi afneitun stjórnmálaaðalsins er með eindæmum. Menn halda að allt sé leyft sem ekki er bannað. Var nokkuð í reglunum sem bannaði mútur? Eru þær þá ekki bara í lagi. Alla vega samkvæmt rökum þessa fólks. Þetta var siðlaust en þannig var bara tíðarandinn. Geta brotamenn ekki bara notað þessi rök fyrir dómstólum? Hér ætla menn að þreyja Þorrann í von um að málin gleymist. Engin segir af sér - fara bara í frí svo þeir þvælist ekki fyrir í næstu kosningum en birtast svo aftur eins og draugar sem ekki er hægt að kveða niður.

Kristinn A. Guðjónsson

kristinn (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 12:42

3 identicon

Auðvitað tengist siðferði lögum og reglum.

Hins vegar geta hæglega orðið skil þar á milli sem síðan þarf að brúa síðar.

Við Íslendingar bjuggum - og búum í rauninni enn - við það, að trú, sem í rauninni liggur siðferði og gildismati til grundvallar, var tröllum gefin.

Grundvöllur menningarinnar var efnishyggja á alla grein og að hver og einn væri sjálfum sér næstur. Afleiðingarnar blasa við: siðlausir stjórnmálamenn, siðlaust banka- og viðskiptalíf, siðlausir endurskoðendur og siðlausir fjölmiðlar. Allt var falt fyrir peninga. Pósitívismi peninganna réði ferðinni og svo mun verða þar til fólk fer að ná áttum.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 12:54

4 identicon

Bjarni Benediktsson hélt því fram í útvarpinu í morgun að engin merki sæjust um að styrkþegarnir hafi gengið erinda þeira sem greiddu þeim múturnar.

Þetta er alrangt.

Margir styrkþeganna héldu uppi vörnum fyrir Jón Ásgeir og Baug í fjölmiðlamálinu og þó einkum í Baugsmálinu.

Styrkþegunum var mörgum hverjum tíðrætt um kostnaðinn vegna Baugsrannsóknarinnar (Jóhanna Sigurðardóttir) og margir þeirra hafa allt til þessa dags haldið því fram að nauðsynlegt sé að veikja lögregluna.

Þá er talað um að leggja niður embætti ríkislögreglustjórans. (Árni Páll, Dagur B. Helgi Hjörvar, Steinunn Valdís, Guðlaugur Þór, Björgvin G)

Og ekki má gleyma kúlulánakónginum Lúðvík Bergvissyni sem notaði hvert tækifæri til að verja Baugsmenn og ráðast gegn lögreglunni.

Efnahagsbrotadeild ríkislöggunar var einmitt eina apparatið sem reyndi að koma lögum yfir þessa glæpamenn.

Bjarni Benediktsson fer hér með staðlausa stafi.

Getur verið að maðurinn fylgist ekkert með þjóðmálum?

Það er engu líkara.

Bjarni er enn á ný að taka skakkan pól í hæðina.

Hann á eftir að reynast flokknum dýrkeyptur ef hann heldur áfram að verja spillinguna og siðleysið.

Málsvörn hans í morgun var ömurleg og honum ekki til sóma.

Styrkþegarnir vörðu Jón Ásgeir, Baug og aðra hagsmuni hans.

Það er óumdeilanlegt.

Og þeir gera það enn.  

karl (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 13:07

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ragnhildur Kolka segir að siðlaus þjóð kjósi siðlausa stjórnmálamenn. Það má rétt vera en þar sem þetta hefur ekki alltaf verið svona, kem ég með þá kenningu fyrir siðfræðinga að rannsaka, hvort spillt og siðlaus stjórnvöld geti ekki slævt svo siðferðiskennd almennings, sérstaklega í svona litlu samfélagi, að  spilling verði norm frekar en undantekning og sérhagsmunir verði ráðandi, sem aftur leiðir til veikingar eftirlitsstofnana og dómsstóla et.cetera...

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.4.2010 kl. 13:21

6 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Að siðlaus þjóð kjósi siðlausa leiðtoga, eða siðlausir leiðtogar geri þjóðina siðlausa/blinda, þetta verður eins og með eggið og/eða hænuna, hvað kom fyrst ?

Kjósendur í venjulegu vestrænu lýðveldi eins og Ísland eiginlega er, eru ekkert svona á annarri plánetu en kosnir fulltrúar þeirra, svo ábyrgðin er óumdeilanlega hjá kjósendum líka, það vefst fyrir mörgum í þessari mótmæla og nornaveiðavímu sem er í gangi ennþá, og meðan það ekki breytist, verða engar breytingar til batnaðar.

Það má sjálfsagt endalaust finna fleiri og fleiri en skýrslan góða hefur þegar bent á, en af nógu er samt nú þegar að taka fyrir ákæruvaldið, og rétt að láta það um að saksækja og í framhaldi dæma þá sem brotlegir sannast, kjósendur og pólítíkusar, sem saman hafa sýnt lélegt siðferði, en ekki brotið beint af sér, ættu svo heldur að snúa sér að því bæta siðferðið bæði eigið og annarra.

Kristján Hilmarsson, 27.4.2010 kl. 14:27

7 identicon

Ragnheiður,

Landsins lög eru vegvísir hvers þjóðfélags og ekkert annað.  Er kemur að siðferði fela margir sig á bak við lögin.  Ef siðferði er ekki til staðar skipta lögin engu.

Þingmenn eru varðhundar þjóðarinnar og í okkar tilfelli stóðu þeir ekki vagtina svo væt sé til orða tekið.

itg (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 14:33

8 identicon

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins,  hefur lýst því yfir að hann hyggist endurgreiða hæstu styrkina tvo frá FL Group og Landsbankanum samtals 55 milljónir í þrotabú viðkomandi fyrirtækja. Fram kom í tilkynningu á vef flokksins að flokkurinn telji fimm milljóna króna framlagið frá Landsbankanum innan eðlilegra marka og því verði það ekki endurgreitt.

Styrkirnir voru veittir í lok árs 2006.

Þann 29. desember árið 2006 var 30 milljóna króna fjárstyrkur yfirfærður af reikningi FL Group inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Hannes Smárason, þáverandi forstjóri FL Group, mun hafa gefið vilyrði fyrir greiðslunni, samkvæmt heimildum, en Sjálfstæðisflokkurinn haft frumkvæði að því að óska eftir styrknum.

1. janúar 2007, fáeinum dögum eftir millifærsluna, tóku gildi lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en sem næmu 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðila.

Í þættinum Vikulokin á Rás 2/RÚV þ. 23. apríl 2010 var Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðisflokki spurður af þáttastjórnanda hvort búið væri að skila þessum FL Group styrkjum.

Kristján svaraði:  “Það var gert med det samme. Ég hef ekki aðgang að þessu bókhaldi. Það var gert einn, tveir og þrír.”

Þórlindur Kjartansson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, bæði Sjálfstæðisflokki, voru í  þættinum Sprengisandur á Bylgjunni þ. 24 apríl 2010, þar sem Þórlindur var spurður hvort búið væri að skila þessum styrkjum.

Þórlindur svaraði: “Nei ég held ekki. Planað að borga einhverjar miljónir á ári til baka”

Miðað við svörin hér að ofan virðist Kristján Þór eða Þórlindur vera að segja ósatt.

Hvernig væri að fá þetta á hreint. Hvernig væri að einhver blaðamaðurinn vaknaði þegar svona ósamræmi heyrist.

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 15:38

9 identicon

Garðar Garðarsson:

Sbr framkvæmdarstjóra Sjálfstæðisflokksins þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn gefið út skuldaviðurkenningu vegna 2 x 25 milljón kr styrkja frá FL-Group og L.Í. til þrotabús beggja til greiðslu á 7 árum með gjalddaga í júní ár hvert.

Fyrsta greiðsla fór fram í júní 2009.

Jóhann Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 15:52

10 identicon

Takk fyrir upplýsingarnar Jóhann Gunnarsson.

Samkvæmt upplýsingum Jóhanns hér að ofan, þá er Kristján Þór Júlíusson að skrökva í þættinum Vikulokin á Rás 1 í Rikisútvarpinu þ. 23. apríl 2010.

Að greiða til baka einn, tveir og þrír er ekki það sama og að greiða á sjö árum.

Það þyrfti einhver að herma þetta upp á Kristján Þór, því svona blekkingar á enginn að komast upp með.

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 16:19

11 Smámynd: Ragnhildur Kolka

itg - segir "Þingmenn eru varðhundar þjóðarinnar og í okkar tilfelli stóðu þeir ekki vagtina svo væt sé til orða tekið" þessu get ég ekki verið sammála.

Þingmenn eiga ekki að vera varðhundar siðferðis. Þingmenn, upp til hópa, eru hvorki betri né verri en landar þeirra almennt. Til að geti sinnt þörfum þjóðfélagsins þurfa þeir að vera þverskurður þjóðarinnar og siðferði þeirra hlýtur því að taka mið af siðferði þeirra sem þá kjósa.

Það var heldur ekki andstætt lögum/reglum að þiggja himinháa styrki, en slævð siðvitund gerði mönnum kleift að loka augunum fyrir því sem í gangi var. Þannig var um marga, jafnt utan þings sem innan.

Siðvitund hrakar þar sem siðerði er klofið frá trú, því trúin er það akkeri sem heldur siðvitund að mönnunum. Peningar tóku stöðu trúar í íslensku samfélagi.

Ragnhildur Kolka, 27.4.2010 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband