Mánudagur, 8. mars 2010
Í minningu vinstristjórnar
Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. er búin að vera þótt hún hjari eitthvað áfram. Ástæðan fyrir því að fyrsta hreina vinstristjórn lýðveldisins er misheppnuð liggur í því hvernig til hennar var stofnað. Starfsstjórn Jóhönnu, sem tók við af ríkisstjórn Geirs H. Haarde, setti sér skynsamleg markmið um að halda samfélaginu gangandi og glíma við bráðavanda.
Starfsstjórnin fékk umboð í þingkosningunum fyrir tæpu ári vegna þess að hún var skynsöm mánuðina á undan. Um leið og Samfylkingin og Vinstri grænir sáu fram á völd í fjögur ár og ef til vill lengur fór íhyglin út um gluggann og pólitísk fífldirfska var sett á oddinn.
Fyrstu hrikalegu mistök nýrrar stjórnar voru að sammælast um að sækja um ESB-aðild. Í fyrsta lagi mátti öllum vera ljóst að umsóknin klyfi Vg niður í rætur. Í öðru lagi er það hreinn pólitískur aulaháttur að halda að þjóðin myndi gefast upp á sjálfri sér og fara með forræði sinna mála til Brussel. Látum vera þótt eilífðarsprelligosi stjórnmálanna, Össur Skarphéðinsson, léti sér koma slíkt til hugar. En fullorðið fólk lætur ekki kjána stjórna ferðinni.
Önnur grundvallarmistök voru að leggja til atlögu við útgerðina með lítt hugsaðri fyrningarleið í sjávarútvegi. Útgerðin er öflugasti atvinnuvegur þjóðarinnar og ber að umgangast hann af virðingu. Eftir bankahrunið er þjóðinni lífsnauðsynlegt að sjávarútvegurinn skili þjóðarbúinu hámarksverðmætum. Fyrningarleiðin er Reykjavík 101-væl í fólki sem þekkir ekki haus frá sporði.
Samfylkingarhluta þjóðarinnar hefur verið talin trú um að árlega fái útgerðin gefins fiskveiðiréttindi upp á mörg hundruð milljarða króna. Á sínum tíma fengu útgerðir ókeypis úthlutun, en það er fyrir aldarfjórðungi. Ranglæti þá verður ekki réttlætt með ranglæti í dag, svo ekki sé talað um yfirgengilega heimsku að slátra þeim hluta atvinnulífsins sem ekki er í súrefniskassa bankanna.
Þriðju geipimistök stjórnarinnar voru þau að nota Icesave-málið til að berja á stjórnarandstöðunni, einkum Sjálfstæðisflokknum. Heiftarstjórnmálin, sem þau Jóhanna og Steingrímur J. beittu, snerist í höndum þeirra og varð stjórninni að fjörtjóni. Almenningur lagði einfaldlega ekki trúnað á áróður stjórnarinnar um að Icesave-reikning Breta og Hollendinga yrðum við að borga og það væri Sjálfstæðisflokknum að kenna.
Fjórðu reginmistökin eru aðgerðarleysið gagnvart útrásarauðmönnum. Jóhanna Sig. og Steingrímur J. sögðu alþjóð að því miður gætu þau ekkert gert þótt auðmenn ryksuguðu upp eigur án skulda með dyggri aðstoð pótintáta eins og Finns Sveinbjörnssonar bankastjóra Arion - sem óvart var skipaður af ríkisvaldinu.
Vinstristjórnin getur alferið kennt sjálfri sér um hvernig fór. Jóhanna Sig. og Steingrímur J. fengu meðbyr frá þjóðinni en þau tóku rangan kúrs og lentu upp á skeri.
Athugasemdir
Ég held bara að þarna hittir þú naglann á hausinn í þessum 4 aðal mistökum ríkistjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. En það fer algerlega eftir því hverjir veljast á næstu framboðslista hvernig framtíð bíður okkar.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.3.2010 kl. 16:24
Sannfærandi greining.
Þakkir.
KK
Karl (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 16:31
þetta er flott greining á þessari aumu og vonlausu gerviríkisstjórn,megi hún aldrei þrífast,takk fyrir.
magnús steinar (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 17:23
Sæll Páll. við þessu segi ég: sammála, sammála, sammála, sammála.
Hreinn Sigurðsson, 8.3.2010 kl. 21:40
Frábær pistill hjá þér eins og alltaf
Guð blessi minningu vinstri stjórnarinnar.
Sigrun (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.