Fimmtudagur, 18. febrúar 2010
ESB-umsókn Íslands rædd í Berlín
Þýska þingið verður að leggja blessun sína á aðildarumsókn Íslands til Evrópusambandsins samkvæmt niðurstöðu stjórnlagadómstóls Þýskalands frá síðasta ári. Dómstóllinn úrskurðaði að valdheimildir hefðu verið fluttar án lagastoða frá þýska þinginu til Brussel. Þýskur þingmaður er á Íslandi í dag og gær að kynna sér stöðu mála.
Franz Thönnes mun leggja skýrslu fyrir nefnd þýska sambandsþingsins þar sem umsókn Íslands verður til umræðu. Thönnes kom vel undirbúinn hingað til lands og kunni helstu rökin með og á móti inngöngu. Hann er jafnframt vel heima í norsku umræðunni og hefur til og með norska útgáfu af heimasíðu sinni.
Upplýsingarnar sem Thönnes fær hér staðfesta að Samfylkingin er einangruð í íslenskum stjórnmálum í afstöðu sinni til inngöngu og nærfellt allir hagsmunahópar eru á móti inngöngu sem og afgerandi meirihluti almennings.
Berlín gæti kannski afstýrt því stórslysi að Brussel ákveði að taka upp viðræður við þjóð sem engan áhuga hefur á inngöngu í Evrópusambandið.
Athugasemdir
Sammála að því leyti að Samfylkingin er einangruð í íslenskum stjórnmálum og sú einangrun sýnist fara vaxandi heldur en hitt.
Tek fram að ég er hlynntur aðild að ESB.
Ég tel hins vegar að Samfylkingin hafi eyðilagt málið með óbilgirni og rangri tímasetningu.
Spillingarmálin sem hlaðast upp í kringum flokkinn veikja svo málstaðinn enn frekar.
Samfylkingin er að breytast í einhvers konar eiturnöðru í pólitíkinni.
Það mun enginn vilja vinna með þessum flokki hentustefnu og óheilinda.
Karl (IP-tala skráð) 18.2.2010 kl. 11:07
Afstaða þín til ESB er skýr og hefur verið. Þú ert mjög upptekinn af aðildarumsókn okkar og þeim flokki, sem er drifkraftur hennar. Þetta er fyrir mér eins og einangrað stefnumál auk þess sem sjávarútvegurinn á sinn sess hjá þér. Hins vegar vefst orðið fyrir mér framtíðarsýn þín fyrir mig og börnin mín og barnabörn. Andstaðan við ESB hefur alveg girt fyrir þá sýn þína amk. hvaða mig varðar.
Ég vil ekki beint staðsetja þig í gamalli spánskri skáldsögu en leiðsögn þín virðist mér eins og ilmur liðinna daga.
Þú afsakar ef ég er að misskilja eitthvað eða er ekki nógu vel að mér í því, sem þú hefur áður sett fram.
Sigurbjörn Sveinsson, 18.2.2010 kl. 21:14
Sigurbjörn, ef þú telur einhverja framtíð fólgna í Evrópusambandinu ættirðu að kynna þér það betur. Tökum dæmi: A) Rannsóknir benda til þess að sambandið sé deyjandi markaðssvæði. Hlutdeild þess í heimsviðskiptum muni dragast verulega saman á næstu áratugum. B) Flestum þjóðum innan Evrópusambandsins fækkar hröðum skrefum sem útlit er fyrir að muni m.a. skapa mikil efnahagsleg vandamál fyrir sambandið í framtíðinni.
Er þetta framtíðarsýn sem heillar þig?
Hjörtur J. Guðmundsson, 19.2.2010 kl. 17:20
E.s. Og þetta er ekki "aðildarumsókn okkar". Hún var svo sannarlega ekki send í mínu nafni.
Hjörtur J. Guðmundsson, 19.2.2010 kl. 17:21
Sambúðin við krónuna heillar mig ekki og að veginni áhættu við aðild að ESB, þá er tjónið af krónunni stærra.
Sigurbjörn Sveinsson, 19.2.2010 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.