Samfófræði og forsetinn

Spunakallar Samfylkingar í háskólum og fjölmiðlum eru að ná vopnum sínum gegn ákvörðun forseta að senda Icesave-frumvarpið í þjóðaratkvæði. Ekki er nema mánuður síðan forseti tók ákvörðunina en samræmdar aðgerðir þurfa tíma til að þroskast.

Karl Th. Birgisson og Eiríkur Bergmann Einarsson eru í framlínu spunasóknar Samfylkingar. Í meginatriðum er röksemdafærsla þeirra að forsetinn sé að breyta stjórnskipun landsins með því að annars vegar neita undirskrift sinni og hins vegar að reka utanríkisstefnu án samráðs við ríkisstjórnina almennt og utanríkisráðuneytið sérstaklega.

Spunakallarnir skauta létt framhjá þeirri staðreynd að forsetinn beitti neitunarvaldi sínu gegn fjölmiðlalögum 2004 og tók þar með málsstað Baugs og Samfylkingar í stríði við ríkisstjórn. Almannahagsmunir voru litlir árið 2004 en ríkir í Icesave-málinu.

Fordæmið sem forsetinn gaf 2004 gerði honum illmögulegt að standast þrýsting um að senda Icesave í þjóðaratkvæði. Þegar við bættist að hann myndir fyrirsjáanlega endurnýja vinsældir sínar meðal almennings með synjun var freistingin of stór.

Utanríkisstefnan sem forseti rekur ræðst af tvennu. Í fyrsta lag kann hann alþjóðastjórnmál, en hvorki Jóhanna né össur kunna þau, og í öðru lagi er ríkisstjórnin lömuð vegna þess að innan hennar er ekki samstaða um stærstu málefnin, Icesave og aðildarumsóknina til Evrópusambandsins.

Samfófræði eru samfylkingarsamræða sem aldrei nálgast kjarna málsins vegna þess að spuni hefur engan kjarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nákvæmlega. Þetta hugsaði maður þegar Eiríkur Bergmann var tekinn í yfirheyrslu á einhverjum samfylkingar ljósvakamiðlinum. Hann talaði fram og til baka um þessa ákvörðun forsetans, þetta væri eitthvað sem menn þyrftu að kryfja til mergjar, hvað forsetinn væri, hvað menn vildu að hann ætti að vera.

Samfylking er nú búin að vera í þremur ríkisstjórnum á rúmum 30 mánuðum, hefur haft drjúgan tíma til að rannsaka þessi mál. Man samt ekki betur en flokkurinn hafi haft velþóknun á því þegar Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin á sínum tíma. Þá var ráðstöfun forsetans bæði tekið fagnandi og lýst sem hugrekki af hálfu forsetans af þessum skríbentum samfylkingar.

Frasinn úr dægurlagatextanum góða sem segir "bara ef það hentar mér" kemur upp í hugann þegar samfylkingu ber á góma þessa dagana. Það er greinilega allt til sölu hjá þeim núna. Nei í gær er Já í dag og öfugt, "bara ef það hentar þeim".

joi (IP-tala skráð) 2.2.2010 kl. 09:34

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er nú ýmislegt athugavert við þessa röksemdafærslu þína Páll og óþarfi að draga þessa umræðu niður í skotgrafirnar. Ég er ekki samfylkingarmaður en ég tel að forsetinn sé að móta embættið að eigin geðþótta og stundar grímulausa pólitík í áróðursskyni bæði hérlendis og erlendis. Það er ekki hægt að bera saman synjun forsetans á fjölmiðlalögunum annars vegar og ríkisábyrgðinni hins vegar, svo ég tali nú ekki um fyrirvara forsetans sem hann setti við fyrirvara alþingis þegar hann staðfesti ice save lögin hin fyrri. Fjölmiðlalögin voru illa kynnt og lítið rædd á alþingi og knúin í gegn með gerræðislegum hætti í anda Davíðs Oddsonar og því sjálfsagt að synja þeim lögum staðfestingar. En allt öðru gegnir með ice save ábyrgðina hina síðari. Það hefur ekkert mál hlotið jafn ítarlega umfjöllun bæði innan þings og utan og sú lagasetning og þar sem meirihluti var fyrir henni, ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar, þá bar forsetanum að staðfesta þau lög. Sú atburðarás sem fór í gang eftir synjun forsetans gat enginn séð fyrir og síst hann sjálfur. Þess vegna er vel hægt að taka undir þá skoðun að forsetinn sé að móta embættið pólitískt án allrar umræðu. Nú hef ég viljandi tekið persónuna ÓRG útfyrir sviga því ég er að tala um embættið og tel að allir ættu að gera það.

Að lokum er vert að íhuga hvaða áhrif það hefði ef ríkisstjórnin í annað skiptið drægi lög sem forsetinn synjaði staðfestingar til baka og léti þau ekki í þjóðaratkvæði. Væri þá ekki komin staðfesting á að forsetinn hafi í raun neitunarvald gagnvart þingi og ríkisstjórn?  Við ættum að ræða það því þetta snýst ekki um þessa ríkisstjórn eða Ólaf Ragnar, þetta snýst um túlkun á stjórnarskránni og lýðræðið í landinu

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.2.2010 kl. 10:41

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er erfitt að sjá að huglægt mat á magni umfjöllunar um lög í þinginu eigi að geta verið forsenda þess hvort forseti staðfestir þau eða synjar. Í báðum þessum tilfellum var mjög rík andstaða við viðkomandi lög í samfélaginu og það var forsendan að synjun forsetans.

Það er rétt að forsetinn er í raun að breyta stjórnskipaninni de facto með því að virkja synjunarákvæðið á þann hátt sem hann hefur gert. Takist honum að skapa hefð fyrir því að setja umdeild mál í þjóðaratkvæðagreiðslu er erfitt að sjá annað en það sé til þess fallið að efla lýðræðið ef lýðræðið felst í ákvörðunarvaldi þegnanna sjálfra.

Í litlu samfélagi sem gegnsýrt er af valdi stjórnmálaflokka og flokkstengdri spillingu er aukið beint lýðræði jákvætt vegna þess að það dregur úr spillingarhættunni. Ég styð því viðleitni forsetans eindregið og vona að honum takist að móta þá hefð að umdeildum málum verði vísað til þjóðarinnar sem oftast.

Menn geta andmælt þessari skoðun á þeim grunni að við höfum valið okkur þingræði en ekki beint lýðræði og eigum því að treysta kjörnum fulltrúum fyrir öllum ákvörðunum. Það eru gild rök svo langt sem þau ná. En gleymum ekki því að kjarni lýðræðis er ákvörðunarréttur þegnanna sjálfra. Þannig virkaði lýðræðið í Grikklandi til forna: Frjálsir karlmenn komu saman á torginu og tóku ákvarðanir. Þingræðið hefur þróast upp úr aðstæðum þar sem ekki var mögulegt að viðhafa beint lýðræði. Með nútímatækni er það hins vegar orðið auðvelt. Aukin menntun og jafnrétti veldur svo því að í dag er lunginn úr þjóðinni "frjálsir karlmenn" í skilningi Grikkjanna og því óþarft að óttast að fólk hafi ekki forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir í almennum atkvæðagreiðslum.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.2.2010 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband