Sérstakur njósnaði um Einar Sveinsson og lak í Inga Frey

Embætti sérstaks saksóknara, nú héraðssaksóknari, njósnaði um Einar Sveinsson fjárfesti, þótt hann væri aðeins vitni í sakamáli. Ásamt njósnum var upplýsingum lekið í Inga Frey Vilhjálmsson blaðamann til að hann skrifaði sakfellandi fréttir.

Einar Sveinsson fjárfestir er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Sakamálið sem um ræðir, kennt við Vafning, var notað af fjölmiðlum og vinstrimönnum til að klekkja á Bjarna árin eftir hrun. Málinu lauk með sýknu í hæstarétti.

Þrátt fyrir að vera aðeins vitni í málinu, en ekki sakborningur, var sími Einars Sveinssonar hleraður. Í tilfelli Einars var gengið lengra og staðsetningarbúnaður virkjaður til að fylgjast með ferðum hans. Njósnirnar stóðu yfir á fyrri hluta árs 2010 - en meint afbrot, Vafningsmálið, var þá orðið meira en tveggja ára gamalt. Ári síðar varð Einar þess áskynja að hann hafði verið hleraður. Hann frétti að símtöl hans við eiginkonu voru spiluð í yfirheyrslum á vegum sérstaks saksóknara.

Einar fól lögmanni sínum, Valtý Sigurðssyni, að afla upplýsinga um tildrög hlerunar. Saksóknari, sem fer með lögregluvald, þarf dómsúrskurð fyrir hlerun. Valtýr fékk upplýsingar og skrifaði embætti sérstaks saksóknara bréf í október 2011. Þar segir m.a.:

Með því að heimila upplýsingar um úr hvaða endurvarpa (BASE-stöðvar) í fjarskiptakerfum hringt var úr og í símanúmer í eigu umbjóðanda míns var sömuleiðis unnt að staðsetja hann með töluverðri nákvæmni þegar símtölin áttu sér stað. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þessa upplýsingaöflun og látinn í ljós efi um að hún standist skilyrði 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður ekki með nokkrum móti séð þörf á því að fylgjast með ferðum umbjóðanda míns og að slíkar upplýsingar geti skipt nokkru fyrir rannsókn málsins.

Fátt var um svör hjá embætti sérstaks saksóknara, önnur en þau að embættið taldi hlerun og eftirlit með ferðum Einars skipta máli fyrir rannsókn málsins. Valtýr spurði um starfsreglur embættisins hvað hleranir varðar. Hann fékk þau svör að engar vinnureglur væru um hleranir hjá embættinu, aðeins stuðst við fyrirmæli laga. Eins og nærri má geta eru þau fyrirmæli almenns eðlis.

Ásamt því að hlera Einar og skrá ferðir hans gerði embætti sérstaks saksóknara sér far um að fóðra fjölmiðla með neikvæðum fréttum. Þannig var Einar boðaður til skýrslutöku hjá embættinu 22. febrúar 2010. Tveim dögum síðar birtist ítarleg frétt í DV eftir blaðamanninn Inga Frey Vilhjálmsson þar sem nafnlausir heimildarmenn tilgreina skýrslutöku Einars. Grímur Grímsson núverandi þingmaður Viðreisnar var einn fjórmenningana sem yfirheyrðu Einar. Þá var líklega byrjaður hjá embættinu Finnur Þór Vilhjálmsson, bróðir Inga Freys. Bræðurnir áttu síðar eftir að gera garðinn frægan í Namibíumálinu og byrlunar- og símamálinu. Tilfallandi fjallaði um bræðralag saksóknara og blaðamanns og spurði:

Hvað með yfirmann Finns Þórs, Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara? Er honum umhugað að gera embættið að leikhúsi fáránleikans? Þegar bræður, annar saksóknari en hinn sakborningur, véla um mannréttindi annarra í einkaþágu er tómt mál að tala um réttarríki. Hvar er fullorðna fólkið í réttarkerfinu?

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður gerði aðför saksóknara að Einari að umræðuefni í Þjóðmálum. Tilefnið er upplýsingar um gagnaleka frá embætti sérstaks saksóknara. Persónuupplýsingum Einars hefur verið dreift um víðan völl í samspili tveggja opinberra stofnana, héraðssaksóknara og RÚV. Sigurður telur ótækt að héraðssaksóknari sitji áfram embættið líkt og ekkert hafi í skorist. Lögmaðurinn er ekki einn um þá skoðun.


Bloggfærslur 16. maí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband