Mánudagur, 3. febrúar 2025
Vókið byrjaði 2014
Stórfjárfestirinn Marc Andreessen og sagnfræðingurinn Niall Ferguson tímasetja upphaf vóksins um og við 2014. Andreessen sá vókið skjóta rótum í Kísildal en þar græddist honum fé á hugbúnaði fyrir lýðnetið. Ferguson hefur horft upp á vókið eyðileggja háskóla.
Í viðtali segir Andreessen að vókið náði flugi í samvinnu lýðnetsins og háskólamenningar. Fjölmiðlar fylgdu í humátt á eftir, pólitíkin gerði vókið húsum hæft á æðstu stöðum. Vísar Andreessen sérstaklega til seinna kjörtímabils Obama forseta 2013-2017.
Vókið er blanda félagslegs réttlætis og andfélagslegrar einstaklingshyggju. Blandan er mótsagnakennd eins og sést á helstu útgáfunni, DEI. Kjarni DEI er fjölbreytni, jöfnuður og inngilding. Mannlífinu er þannig háttað að fjölbreytni og jöfnuður fara ekki saman. Ójöfnuður er óhjákvæmilegur hluti af fjölbreytni. Sumir eru gáfaðri en aðrir, duglegri, heppnari, agaðri, fórnfúsari, skipulagðari og ósérhlífnari. Fjölbreytni skilar sér í ólíku lífshlaupi þar sem aðrir þættir koma við sögu, t.d. tækifæri og ógnanir í umhverfinu.
Þriðji þátturinn i DEI, inngilding, á að jafna mótsagnir á milli þeirra tveggja fyrstu, fjölbreytni og jafnaðar, en gerir það eitt að auka á óreiðuna. Í nafni inngildingar getur fámennur hópur með sérvisku, transið, krafist að allur almenningur tileinki sér nýtt orðfæri, hán, stálp, válp og kválp, til að mæta ranghugmyndum fárra. Þá skal afnema hefðarréttindi, t.d. kvenna að kyngreindum salernum, með þeim rökum að sumir séu hvorki karlkyns né kvenkyns. Karlar fá aðgang að mæðradeildum sjúkrahúsa og kvennaíþróttum. Konur líða fyrir.
Inngilding ranghugmynda skapar öngþveiti. Transaldur felur í sér að sextugur maður getur mætt í leikskóla sagst upplifa sig sem þriggja ára. Í nafni inngildingar skal sá sextugi fá bleyjuskipti líkt og hann væri þriggja ára. Annars væri brotið á rétti hans til að skilgreina sjálfan sig. Ranghugmyndir einstakra trompa samskynjaðan veruleika. Andfélagsleg einstaklingshyggja í hnotskurn.
Niall Ferguson sagnfræðingur segir, líkt og Andreessen, að upphaf vóksins sé 2014. Ferguson hefur áður komið við sögu í tilfallandi bloggi, einmitt um DEI. Í viðtali um vókið í heild sinni segir Ferguson að háskólar séu á vegferð sjálfstortímingar. Tiltölulegar fáir elítuháskólar ruddu brautina. Aðrir háskólar fylgdu í kjölfarið. Afleiðingin var að akademískt frelsi verður aukaatriði, pólitískur rétttrúnaður aðalatriði.
Í orði kveðnu segjast háskólar fylgjandi tjáningarfrelsinu, en með þeim fyrirvara að frjáls orðræða megi ekki móðga. Tilfellið er að sumir móðgast við það eitt að þeim sé andmælt. Í andrúmslofti rétttrúnaðar stunda menn sjálfsritskoðun, þora ekki að segja hug sinn af ótta við að móðga einhvern. Bein ritskoðun felst í að móðganir leiða til atvinnumissis. Ferguson segir aðferðafræðina keimlíka sovétinu sem úthýsti frjálsri hugsun í nafni æðstu gæða - sem, líkt og vókið, ríma ekki við veruleikann eins og hann blasir við.
Vókið er hugmyndafræði. Að hún sé ekki nema um tíu ára gömul, líkt og Andreessen og Ferguson halda fram, segir tvennt. Í fyrsta lagi að hugmyndafræði á tíma lýðnetsins fer eins og eldur í sinu, hratt og eyðandi, um vestræn samfélög nái hún fótfestu á miðlægum vettvangi, í tilfelli vók er um að ræða bandaríska háskóla. Í öðru lagi að fái hún ekki viðvarandi stuðning yfirvalda og samfélagsafla, sem eitthvað kveður að, hjaðnar hugmyndafræðin.
Vók er á undanhaldi. Trump fékk forsetakjör út á stefnuskrá að kveða hugmyndafræðina í kútinn. Helga Dögg Sverrisdóttir kennari setti fyrstu forsetatilskipanir Trump í samhengi í grein á Vísi. Grein Helgu Daggar er samantekt, skrifuð af yfirvegun. Óðara kom svar frá transkonunni Alexöndru Briem sem er allt annað en yfirveguð: Lygar og helvítis lygar.
Alexandra klappar sama steininn og þingmaðurinn María Rut Kristinsdóttir sem tilfallandi gerði nýverið að umtalsefni. Báðar segja tilvistarrétti transfólks ógnað af þeim sannindum að kynin séu aðeins tvö og að ekki sé hægt að fæðast í röngu kyni.
Mannhelgi tryggir tilvist allra manna, sama hvernig þeir hugsa og skilgreina sjálfa sig. Einföld sannindi, að kynin eru tvö og ekki sé hægt að fæðast í röngum líkama, geta ekki ógnað tilvist nokkurs manns. Nýburi er annað tveggja sveinbarn eða meybarn. Meðvitundin er óaðskiljanlegur hluti lifandi líkama. Kyn er sjálfgefið við fæðingu.
Helsta afurð meðvitundarinnar er hugsun. Ólíkt líkamanum er hugsun óefnisleg, huglæg. Þar af leiðir er hugsunin sem slík kynlaus. Önnur saga er að menn þykjast hafa tekið eftir að konur og karlar tileinka sér viðhorf, hugsun, sem að einhverju marki draga dám af kyni líkamans. Í þeim tilvikum er talað um kvenlæg og karllæg viðhorf. En það er ekki til uppskrift að því hvernig karlar eða konur eigi að hugsa. Góðu heilli búum við í samfélagi sem viðurkennir hugsanafrelsi; hver og einn má hugsa sitt.
Í raun er Alexandra móðguð að sérviska hennar sé ekki tekin sem algildur sannleikur. Einu sinni móðguðust kristnir þegar meyfæðingunni var andmælt. Móðgun er ekkert svar í samræðum um hvað sé og hvað ekki, hvað er mögulegt og hvað ekki. Á hátindi vóksins var hægt að svipta menn atvinnu og æru fyrir að móðga einhvern. Vonandi er sá tími liðinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)