Sigríður Dögg kennir stjórnmálamönnum um kreppu fjölmiðla

Íslenskir blaðamenn glíma við ósjálfstæði og eru án trúverðugleika. Það er stjórnmálamönnum að kenna, fullyrðir Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands. Hún segir í Vísi að

sjálfstæði íslenskra fjölmiðla stafi ógn af viðhorfi stjórnmálamanna til fjölmiðla og ummælum þeirra.

Trúverðugleiki blaðamanna er í ruslflokki. Aftur eru það stjórnmálamenn sem valda. Sigríður Dögg segir að stjórnmálamenn beini

spjótum sínum að blaðamönnum og fjölmiðlum í því skyni að grafa undan trúverðugleika þeirra.

Hér leitar formaður Blaðamannafélagsins langt yfir skammt til að finna sökudólginn fyrir bágindum blaðamanna. Stjórnmálamenn eru ekki það hátt skrifaðir að þeir geti haft áhrif á sjálfstæði og trúverðugleika blaðamanna og fjölmiðla. Á hinn bóginn skynja stjórnmálamenn, líkt og aðrir sem fylgjast með fjölmiðlum, að blaðamennska og fjölmiðlum hér á landi er komin í ógöngur og verður æ ómarktækari.

Kreppu íslenskra blaðamanna má rekja til yfirhylmingar með glæpum og alger vangeta fjölmiðla að upplýsa almenning um aðkomu blaðamanna og fjölmiðla að alvarlegu refsimáli, byrlunar- og símamálinu.

Vorið 2021 tóku þrír fjölmiðlar sig saman um aðför að Páli skipstjóra Steingrímssyni. Í þágu blaðamanna var skipstjóranum byrlað, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV. Á RÚV voru skrifaðar tvær efnislega samhljóða fréttir, um meinta skæruliðadeild Samherja, og þær birtar samtímis í Stundinni og Kjarnanum morguninn 21. maí 2021. Almenningur var blekktur, látinn halda að blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans hefðu með sjálfstæðri ,,rannsóknablaðamennsku" komist yfir heimildir um starfsemi meintrar skæruliðadeildar Samherja. En það var öðru nær. Engin rannsókn fór fram, aðeins byrlun, stuldur og afritun. Fréttin afhjúpaði ekkert um Samherja en þess meira um siðlausa blaðamenn sem víla ekki fyrir sér lögbrot og misþyrmingu andlegra veika. 

Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti fyrir byrlun símann sem var notaður til að afrita stolinn síma skipstjórans. En Þóra á RÚV birti enga frétt. Skipulagið gekk út á að aðgerðamiðstöðin var á Efstaleiti en birting á Stundinni og Kjarnanum. Undirmaður Þóru á Kveik, Aðalsteinn Kjartansson, fór yfir á Stundina þrem dögum fyrir byrlun til að taka við fréttinni úr Efstaleiti.

Sagan um samsæri blaðamanna vorið 2021 hefur hvergi verið sögð í fjölmiðlum. Tilfallandi bloggari hefur séð um að koma frásögninni á framfæri og fyrir vikið fengið á sig tvær málssóknir frá blaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans.

Það gefur auga leið að þegar blaðamenn og fjölmiðlar leggjast á eitt að þegja í hel stærsta fjölmiðlahneyksli íslenskrar fjölmiðlasögu hverfur bæði trúverðugleiki og sjálfstæði. Blaðamenn svíkja almannahagsmuni til að standa vörð um siðlausa afbrotamenn í eigin röðum. Trúnaður blaðamanna er við vini og starfsfélaga, ekki almannahag. Hjarðhegðunin lýsir ekki sjálfstæði heldur þýlyndi.

Sigríður Dögg varð formaður Blaðamannafélags Íslands sama vorið og byrlunar- og símamálið hófst. Hún var þá fréttamaður RÚV. Tveim árum síðar kom á daginn að Sigríður Dögg stakk undan skatti og það ekki smápeningum. Hún neitaði að tjá sig um málavöxtu. Formaður blaðamanna var látinn fara frá RÚV en hélt stöðu sinni í blaðamannahjörðinni. Á Vísi gagnrýnir Sigríður Dögg að fólk í valdastöðum, stjórnmálamenn sérstaklega, komi sér undan að svara óþægilegum spurningum og segir að með

einstefnutilkynningum eru þeir að neita að gefa blaðamönnum og þar með almenningi kost á því að spyrja nauðsynlegra og mögulega óþægilegra spurninga. Með því geta stjórnmálamenn stýrt því hvaða upplýsingar fara leynt og hverjar ekki.

Sjálf neitar hún að upplýsa eigin skattsvik, skrifar færslu á Facebook og ætlar að láta gott heita, líkt og stjórnmálamenn reyna stundum til að losna undan óþægilegum málum.

Greinina á Vísi skrifar Sigríður Dögg til að vekja athygli á fundi í blaðamannafélaginu að ræða stöðu stéttarinnar og fjölmiðla. Frummælandi á fundinum er Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Kolbeinn Tumi fréttastýrir í þágu vinar síns, Aðalsteins Kjartanssonar, eins og tilfallandi rakti.

Fundurinn, sem verður á þriðjudag, er eingöngu opinn félagsmönnum Blaðamannafélags Íslands. Klíkubræður og systur ætla að þétta raðirnar, berja í brestina. Almenningi er ekki boðið.

Sakamálið sem blaðamenn og fjölmiðlar eiga aðild að er í biðstöðu hjá lögreglu og ákæruvaldi.  Blaðamenn hreyfa hvorki legg né liði til að upplýsa málið. Það er beinlínis hlægilegt að tala um sjálfstæði blaðamanna þegar þeir allir sem einn keppast við að halda lokinu á byrlunar- og símamálinu. Blaðamenn og fjölmiðlar eru rúnir trausti og trúverðugleika. Stjórnmálamenn og hagaðilar í samfélaginu ganga á lagið og segja spilltum blaðamönnum að éta það sem úti frýs. Blaðamenn eru hægt en örugglega að verða ómerkilegasta fagstétt landsins. Þeir geta sjálfum sér um kennt. 


mbl.is „Þarf að minna valdamenn á í umboði hvers þeir starfa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband