Miðvikudagur, 22. janúar 2025
Þóra þegir, Þórður Snær kvartar undan skipstjóranum
,,Það eina sem við gerðum var, það sem er fullkomlega löglegt, að taka á móti gögnum," segir Þórður Snær fyrrum ritstjóri og nú sakborningur og framkvæmdastjóri Samfylkingar um byrlunar- og símamálið í nýjum Blaðamanni, félagsriti Blaðamannafélags Íslands.
Viðtalið við Þórð Snæ er tekið í tengslum við félagsfund BÍ 8. október í fyrra sem átti að vera baráttufundur en endaði sem leynifundur. Tilfallandi bloggaði um fundinn:
Fjölmiðlar láta eins og fundurinn hafi ekki farið fram. Ekkert er sagt frá fundinum á heimasíðu BÍ, press.is. Engar myndir, enginn texti, engin ályktun. Ekkert.
Hvers vegna þessi hyldjúpa þögn? Almenning varðar byrlunar- og símamálið miklu. Þar er undir hvort blaðamenn hafi heimild til að sækja sér stolið efni sem fæst með byrlun og flytja fréttir á milli fjölmiðla undir þagnarhjúpi. Sími Páls skipstjóra var afritaður á RÚV en fréttirnar birtust í Stundinni og Kjarnanum. Samráð RSK-miðla veitir innsýn í baktjaldamakk fjölmiðla við fréttavinnslu.
Í Blaðamanninum, sem fór í dreifingu í vikunni, eru loksins sýndar myndir af fundinum 8. október í fyrra. Fimm af sex sakborningum mættu, aðeins Ingi Freyr Vilhjálmsson lét sig vanta. Ljósmyndir af fundinum sýna hann fámennan. Fyrir utan sakborninga sést í átta fundarmenn. Hnakkasvipurinn er aðeins sýndur, líklega skammast menn sín fyrir að vera leikmunir í sviðsetningunni.
Þórður Snær er talsmaður sakborninganna. Hann fer með rangt mál þegar hann segir að ,,við" tókum við gögnum. Aðeins einn sakborninganna, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, tók við einu gagni - síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Áður en Þóra fékk síma skipstjórans frá byrlara hans, þáverandi eiginkonu, hafði Þóra keypt samskonar síma af Samsung-gerð til að afrita síma skipstjórans.
Þóra vissi með fyrirvara að sími skipstjórans væri væntanlegur til afritunar á Efstaleiti. Þóra og RÚV birtu enga frétt. Hvergi í vestrænni blaðamennsku tíðkast að einn fjölmiðill aflar heimilda fyrir frétt sem send er á annan fjölmiðil til birtingar. Blaðamenn vissu um glæpinn áður en hann var framinn og höguðu undirbúningi til samræmis. Það mátti alls ekki fréttast hvernig að málum var staðið. Enda vissu málsaðilar að hér var ekki á ferðinni blaðamennska heldur lögbrot.
Sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti 4. maí 2021. Tæpum þrem vikum síðar, þann 21. maí, birtu Stundin og Kjarninn samtímis fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Samráð um tímasetningu birtingar staðfestir miðlægt skipulag á aðgerðinni.
Páli skipstjóra var byrlað heima hjá sér á Akureyri kvöldið 3. maí. Hann fór í hjartastopp, var endurlífgaður með rafstuði oftar en einu sinni. Daginn eftir var flogið með skipstjórann í sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Börnum hans var sagt að tvísýnt væri pabbi þeirra lifði af.
Þórður Snær birti frétt með vísun í gögn sem fengust með byrlun og þjófnaði. Lífi og heilsu manns var stefnt í hættu til að ritstjórinn fengi frétt. Er ritstjórinn og nú framkvæmdastjóri þingflokks leiður yfir hörmungunum sem Páll skipstjóri varð fyrir? Nei, Þórður Snær eyðir ekki orðum á raunir skipstjórans. Aftur er Þórður Snær upptekinn af þeim álitshnekki sem hann sjálfur hefur orðið fyrir vegna byrlunar- og símamálsins. Í viðtalinu segir Þórður Snær:
[Málið] hafði áhrif á trúverðugleika minn sem blaðamanns. Það hafði áhrif á trúverðugleika minn sem ritstjóra. Það hafði áhrif á trúverðugleika þeirra miðla sem ég stýrði á þeim tíma
Tilfallandi tók upp vasaklútinn þegar hann las þessi orð talsmanns sakborninga og Samfylkingar. Voðaleg örlög að tapa trúverðugleika sé maður sakborningur í refsimáli þar sem byrlun, þjófnaður og brot á friðhelgi koma við sögu.
Þórður Snær kennir auðvitað skipstjóranum um tapað rykti, ,,þessa narratívu sem Páll Steingrímsson setti fram."
Munurinn á frásögn (narratvíu) Páls skipstjóra annars vegar og hins vegar Þórðar Snæs og sakborninganna er sá að atburðarásin og tiltæk gögn styðja frásögn skipstjórans en ekki sakborninga.
Þóra Arnarósdóttir keypti Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, fyrir byrlun og þjófnað. Kjarninn og Stundin birtu samtímis sömu fréttina í tveim útgáfum þann 21. maí. Skráður höfundur fréttarinnar í Stundinni, Aðalsteinn Kjartansson, var fréttamaður RÚV þangað til 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun. Þóra, yfirmaður Aðalsteins, var búinn að kaupa síma er Aðalsteinn fór á Stundina, sem systir hans ritstýrði, og tók þar við frétt sem aflaði honum og Þórði Snæ verðlauna. Gögn sýna veruleg samskipti á milli þáverandi eiginkonu skipstjórans og blaðamanna, ekki síst til að hylja slóðina.
Öll ofangreind atriði renna stoðum undir frásögn skipstjórans. Sakborningarnir ræða ekki efnisatriðin, láta eins og þau séu ekki til. Blaðamenn tala um að vernda heimildamenn. Engum óþekktum heimildamönnum er til að dreifa. Eiginkona skipstjórans játaði byrlun, stuld og afhendingu símans til Þóru. Fyrir utan eiginkonuna eiga aðeins blaðamenn málsaðild. Enginn annar.
Hvorki Þórður Snær né aðrir sakborningar eiga frásögn sem útskýrir atburðarásina vorið 2021. Viðtalið við Þórð Snæ í Blaðamanninum er þrjár síður. Hvergi er reynt að segja fréttina um aðkomu blaðamanna að byrlunar- og símamálinu. Gullna reglan í blaðamennsku er að hverja sögu skal segja eins og hún er. Íslenskum blaðamönnum er ofviða að segja fréttina. Skráður höfundur viðtalsins við Þórð Snæ er Bára Huld Beck. Hún var til skamms tíma undirmaður Þórðar Snæs á Heimildinni og þar áður á Kjarnanum. Þarf frekari vitnanna við um faglegt sifjaspell blaðamanna á Fróni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)