Heimildin gafst upp á gaslýsingu Þórðar Snæs

Alræmdasti gaslýsari íslenskrar blaðamennsku, Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, axlaði sín skinn í gær. Trúr orðsporinu gaslýsti Þórður Snær í starfslokafærslu á Facebook; nefndi ekki einu orði að hann væri sakborningur í alvarlegasta refsimáli í sögu íslenskra fjölmiðla, byrlunar- og símastuldsmálinu.

Ferill Þórðar Snæs á Kjarnanum/Heimildinni spannar 11 ár. Á miðjum þeim tíma útskýrði Þórður Snær sérgrein sína í leiðara sem ber heitið Gaslýsing og birtist haustið 2017. Gefum ritstjóranum orðið:

Tæknin sem beitt er kall­ast á ensku gaslight­ing, eða gas­lýs­ing, og er þekkt póli­tískt bragð. Í henni felst að neita stans­laust allri sök, afvega­leiða, setja fram mót­sagn­ir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll auka­at­riði og hanna nýja atburða­rás eftir á sem hentar mál­stað þess sem er að verja sig.

,,Tilgangurinn," útskýrir Þórður Snær, er að fá almenning ,,til að efast um eigin dóm­greind." Ritstjórinn er þaulæfður í aðferðinni.

Byrlunar- og símastuldsmálið hefst 3. maí 2021. Páli skipstjóra Steingrímssyni er byrlað, síma hans stolið til afritunar. Áður en byrlun fór fram var búið að kaupa síma, samskonar og skipstjórans, til glæpurinn gengi hratt og snurðulaust fyrir sig. Eftir afritun á RÚV var símanum skilað á sjúkrabeð Páls, sem lá meðvitundarlaus í öndunarvél.

Tæpum þrem vikum eftir byrlun, stuld og afritun, 21. maí, birta Stundin og Kjarninn samtímis keimlíkar fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Í fyrirsögnum beggja miðla kom fyrir orðasambandið ,,skæruliðadeild Samherja." Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson voru höfundar fréttarinnar í Kjarnanum en Aðalsteinn Kjartansson er skráður höfundur Stundarfréttarinnar.

Tilfallandi, meira fyrir tilviljun en einbeittan ásetning, bloggaði fyrst um málið 2. nóvember 2021. Vegna sterkra viðbragða og áhugaleysis fjölmiðla rann tilfallandi blóðið til skyldunnar að upplýsa lesendur um málavöxtu og skrifaði yfirlitsblogg tíu dögum síðar. Þá var komið að Þórðar gaslýsingarþætti Snæs. Hann skrifaði leiðara 18. nóvember með fyrirsögninni Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar og valdi bloggara hin verstu orð. Afneitun á bláköldum staðreyndum, lygi og blekking var gaslýsingin til að afvegaleiða umræðuna. Í leiðaranum segir:

Til að taka af allan vafa: það er eng­inn blaða­maður til rann­sóknar fyrir að hafa reynt að drepa skip­stjóra, né fyrir að stela sím­anum hans. Þetta er hug­ar­burður og áróður til að reyna að grafa undan þeim blaða­mönnum sem komu að umfjöllun Kjarn­ans og Stund­ar­innar um „skæru­liða­deild­ina“ og RÚV fyrir að hafa opin­berað Namib­íu­mál Sam­herja fyrir rúmum tveimur árum. 

Þrem mánuðum síðar, um miðjan febrúar 2022,  er upplýst að Þórður Snær er sakborningur í lögreglurannsókn ásamt þremur öðrum blaðamönnum á RÚV, Stundinni og Kjarnanum (RSK-miðlum). Þórður Snær vissi vel í nóvember 2021 að lögreglurannsókn stæði yfir. Fyrsta yfirheyrslan fór fram 5. október. Eftir það var almælt á ritstjórnum RSK-miðla að lögreglan væri komin á sporið. En almenningur mátti ekki heyra á það minnst. Þórður Snær og RSK-liðar sáu til þess með tengslaneti inn á aðra fjölmiðla. Blaðamannafélag Íslands tók þátt í yfirhylmingunni, veitti sakborningum verðlaun vorið 2022.

Með leiðaranum um glæp í tilfallandi höfði sló Þórður Snær gaslýsingartón sem hann hefur haldið síðan. Hann laug að lögreglan vildi fá upplýsingar um heimildarmann, hann sagði ósatt að hann hefði verið sóttur til Reykjavíkur af sveit eyfirskra lögreglumanna og fluttur nauðugur viljugur norður til yfirheyrslu.

Ritstjórinn trúði falsinu sem hann bar á borð fyrir almenning og sökk æ dýpra í heim ranghugmynda. Tvö dæmi: 

Páli skipstjóra var ekki byrlað, skrifar Þórður Snær í september 2022.

Tvö ár í kælingu vegna glæps sem aldrei var framinn, skrifar ritstjórinn í leiðara í febrúar síðast liðinn.

Til að afvegaleiða umræðuna, gera sjálfan sig að fórnarlambi, kærði Þórður Snær Pál skipstjóra til lögreglu fyrir að hóta sér líkamstjóni. Kæran fór vitanlega í ruslið en ritstjórinn fékk fyrirsagnir um að hann ætti bágt.

Í þrjú og hálft ár hefur Þórður Snær á hverjum degi haft tækifæri til að segja satt; útskýra málavöxtu vorið 2021, hvernig fréttin varð til sem vísaði í gögn úr síma skipstjórans. En sannleikurinn var ritstjóranum ofviða, gaslýsing er eina hálmstráið.

Nú er komið að leiðarlokum Þórðar Snæs á Heimildinni. Auðvelt er að geta sér til um ástæðuna. Heimildin varð til með samruna Stundarinnar og Kjarnans í byrjun árs 2023. Helstu eigendur gömlu Stundarinnar, hjónin Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, systir Aðalsteins sakbornings, og Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri, freista þess að halda Heimildinni á lífi. Hjónin höfðu gott lifibrauð af ríkisstyrktum fjölmiðli. Með gaslýstan Þórð Snæ í stóli ritstjóra voru dagar útgáfunnar taldir.

Í vor og sumar mátti glöggt sjá hve staða Þórðar Snæs var orðin veik. Hann tapaði dómsmáli gegn tilfallandi, en hélt áfram gaslýsingaráráttunni á Facebook og X (Twitter), sennilega vegna þess að honum var settur stóllinn fyrir dyrnar á Heimildinni. Tilkynningin um starfslok Þórðar Snæs í gær birtist ekki á Heimildinni heldur á Facebook-vegg ritstjórans.

Gaslýsing Þórðar Snæs bitnaði að lokum á honum sjálfum. Almenningur keypti ekki þvaður um að ritstjórinn og RSK-miðlar væru þolendur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Á flóttanum tapaði ritstjórinn áttum, sökk æ dýpra í sjálfsblekkingu. Kæmi ekki á óvart að Þórður Snær reyndi næst fyrir sér á vettvangi Samfylkingar. Hann er þannig týpa.

 

 

 

 


mbl.is Þórður Snær hættir sem ritstjóri Heimildarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. ágúst 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband