Landsréttur: Þórður Snær féll á eigin bragði

,,Þórður Snær [hefur] sjálfur ítrekað á opinberum vettvangi fjallað á afar gagnrýninn hátt um þá sakamálarannsókn [byrlunar- og símastuldsmálið] sem mál þetta er sprottið af."

Tilvitnunin hér að ofan er í dóm landsréttar sem í gær sneri við dómi héraðsdóms Reykjavíkur og sýknaði tilfallandi af ærumeiðingum í garð tveggja blaðamanna RSK-miðla, þeirra Þórðar Snæs ritstjóra Heimildarinnar og Arnars Þórs Ingólfssonar blaðamanns á sama miðli.

Þórður Snær hefur ítrekað haldið fram stóryrtum ósannindum í byrlunar- og símastuldsmálinu. Skömmu eftir að tilfallandi hóf að skrifa um málið, í nóvember 2021, birti Þórður Snær reiðilestur með fyrirsögninni Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Þar sagði hann enga lögreglurannsókn standa yfir á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Þórður Snær sagði um bloggara að hann væri ,,skítugur maður með rætna blogg­síðu sem hann notar til að ljúga upp á fólk og gera þeim upp mein­ing­ar."

Þórður Snær varð sakborningur þrem mánuðum seinna, í febrúar 2022, vegna sakamálarannsóknar sem átti aðeins að vera hugarfóstur bloggara. Ritstjórinn lagði á flótta undan réttvísinni, mætti ekki í skýrslutöku fyrr en í ágúst.  Eftir að fá réttarstöðu grunaðs manns hélt Þórður Snær fram þeim ósannindum að lögreglan væri á höttunum eftir heimildarmanni. En lögreglan vissi um heimildarmann blaðamanna RSK-miðla. Afneitun ritstjórans á veruleikanum náði nýjum lægðum þegar hann fullyrti að Páli skipstjóra hefði ekki verið byrlað og að lögreglan þjónaði annarlegum hagsmunum. Mergurinn málsins er að alvarlegir glæpir voru framdir vorið 2021. RSK-miðlar eru miðlægir í þeim glæpum.

Landsréttur bendir á að Þórður Snær og Arnar Þór vissu áður en þeir hófu umfjöllun sína um Pál skipstjóra að gögnin væru þýfi, tekin frá meðvitundarlausum manni á gjörgæslu:

Í málinu liggur einnig fyrir að stefndu [Þórður Snær og Arnar Þór] höfðu fyrir umfjöllun sína verið varaðir við því að gögnin sem þeir studdust við væru illa fengin. Þrátt fyrir það tóku þeir ákvörðun um að byggja umfjöllun sína á þessum gögnum og máttu þar af leiðandi reikna með að fréttaskýringu þeirra yrði svarað hvasst.

Við dómsuppsögu landsréttar í Kópavogi í gær gerðist skondið atvik. Tilfallandi var ekki á staðnum en fékk þær fréttir frá tíðindamanni að Þórður Snær og Helgi Seljan rannsóknaritstjóri Heimildarinnar hefðu mætt með ljósmyndara til að skrásetja sögulegan atburð. En þegar þeim varð ljóst að dómurinn sýknaði bloggara hurfu þeir á braut með slíku írafári að hastað var á þá af dómverði er gætir formreglna í réttarsal. Atvikið lýsir áliti RSK-liða á réttarvörslunni. ,,Ánægjulegt [er] að vita til þess að réttarkerfið virki eins og það á að gera,“ sagði Þórður Snær fyrir ári er dómur féll í undirrétti. Í gær rauk ritstjórinn á dyr með bægslagangi er réttarkerfið virkaði ekki í þágu blaðamanna með óhreint mél í pokahorninu.

Dómur landsréttar er tveggja þátta. Í fyrsta lagi staðfestir dómurinn rétt almennra borgara að tjá sig um samfélagslega brýn málefni. Aðkoma blaðamanna þriggja fjölmiðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans (sem nú heita Heimildin) að byrlun og gagnastuldi er mikilvægt mál þótt þess sjáist ekki merki í fjölmiðlaumfjöllun. Tilfallandi, sem þekkir til blaðamennsku og fjölmiðlunar, rann blóðið til skyldunnar og fjallaði reglulega um stærstu ósögðu frétt íslenskrar blaðamennsku. Dómurinn undirbyggir tjáningarfrelsið sem verður fyrir atlögu þaðan sem síst skyldi. Lifibrauð blaðamanna er rétturinn til tjáningar. Almennt ættu blaðamenn að fordæma tilraunir til að hefta málfrelsið. Nú þegja þeir unnvörpum. Tilfallandi gerir ekki ráð fyrir að vera boðið í teiti hjá Blaðamannafélagi Íslands fyrir að standa vaktina til varnar frjálsri orðræðu og þar með frjálsri fjölmiðlun. BÍ verðlaunar aftur skúrka eins ljósmyndin í viðtengdri frétt ber með sér.

Í öðru lagi tekur dómurinn fyrir Hamas-taktík blaðamanna RSK-miðla. Þeir stökkva fram með geipilegar ásakanir um mann og annan, segjast sem rannsóknablaðamenn vita um spillingu hér og þar í samfélaginu. En þegar ásakanir blaðamanna reynast fjöldamorð á sannleikanum hlaupast þeir á brott og fela sig á meðal almennings. Tilfallandi tók ekki með silkihönskum á RSK-liðum enda ekki ástæða til. Hryðjuverkablaðamennirnir kröfðust verndar dómstóla fyrir æru sína þegar hallaði á þá í umræðunni. Landsréttur gefur lítið fyrir mannlega skildi RSK-liða. Þórður Snær og Arnar Þór, segir í dómnum,

eru báðir þekktir blaðamenn sem njóta rúms tjáningarfrelsis, meðal annars um málefni sem þeir taka sér fyrir hendur að rannsaka og upplýsa almenning um, þótt umfjöllun kunni að koma sér illa fyrir þá er fyrir verða [...] Þurfa þeir sem sinna slíkum störfum að vera undir það búnir að þola óþægilega og hvassa gagnrýni og aðfinnslur við störf sín.

Blaðamenn á ekki að taka neinum vettlingatökum þegar þeim verður á í messunni. Það eru helgispjöll í réttarríkinu að hylma yfir lögbrot, einkum alvarlegum. Með því að neita allri samvinnu við lögreglu um að upplýsa byrlun og stuld grafa blaðamenn undan samfélagsgildum sem þeir í orði kveðnu þykjast þjóna; heiðarleika og löghlýðni. Bloggari lítur á það sem borgaralega skyldu að segja tíðindi af ósómanum þar sem siðlausir blaðamenn leika lausum hala.

Þórður Snær og félagar búa að vitneskju um aðdraganda og skipulag tilræðisins gegn Páli skipstjóra Steingrímssyni. Þeir neita samvinnu við lögreglu og standa almenningi ekki reikningsskil gjörða sinna. Það sem meira er; á bakvið tjöldin herja RSK-blaðamenn á starfsfélaga sína á öðrum fjölmiðlum og krefjast hollustu, að ekki sé fjallað um byrlunar- og símastuldsmálið. Bloggari tekur ekki þátt í þagnarsamsæri fjölmiðla gegn almannahag.

 

 

 

 

 


mbl.is Ætla með mál gegn Páli fyrir Hæstarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júní 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband