Helvegur háskóla: fjölbreytileiki, jöfnuður og inngilding

Vísindi efla alla dáð eru einkunnarorð Háskóla Íslands. Þau eru frá miðri 19. öld, úr smiðju Jónasar Hallgrímssonar:

Vísindin efla alla dáð
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð.

Einstaklingur sem tileinkar sér fræðilega hugsun skapar verðmæti sem alþjóð nýtur góðs af. Páll heitinn Skúlason þáverandi rektor Háskóla Íslands gerði kjörorðin að umtalsefni við brautskráningu fyrir rúmum aldarfjórðungi:

Sá, sem vill breyta heiminum til hins betra, getur hvergi byrjað nema á sjálfum sér. Hann er verkfærið sem á að koma hinu góða til leiðar. [...] Það er ósk mín til ykkar, ágætu kandídatar, að sú frjálsa, gagnrýna hugsun, sem þið hafið tamið ykkur við nám í Háskóla Íslands, hjálpi ykkur til að feta braut viskunnar og hafa hugsjónir hennar að leiðarljósi í lífi og starfi.

Til að breyta heiminum af viti byrja menn á sjálfum sér. Verkfærið er frjáls gagnrýnin hugsun sem allir hafa jafnan aðgang að, enda er hún í meðvitundinni. Frjáls umræða tekur við öllum hugmyndum sem slípast og styrkjast, nú eða veikjast, í gagnrýnni umræðu. Útkoman er ekki algildur sannleikur heldur gildar skoðanir og þekking með fyrirvara. Vitneskja er ávallt með takmörkunum, eins og Páll rektor segir.  Í grunninn er aðferðin sú sama og Sókrates kenndi Forn-Grikkjum til að skilja merkingu hugtaka.

Frjáls gagnrýnin hugsun, og þar af leiðandi frjáls umræða, á undir högg að sækja í háskólasamfélaginu. Frá útlöndum, einkum henni Ameríku, koma boðorðin um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu (diversity, equity, inclusion). Á yfirborðinu falleg orð en kjarni þeirra er alræðishyggja. Frjáls hugsun skal víkja, banna, ef einhver móðgast. Einkum og sérstaklega ef sá móðgaði segist tilheyra bágindahópi af einhverri sort. Úr verður aumingjavald sem með hugsanalögreglu sér til halds og trausts kæfir frjálsa hugsun. Menn eiga ekki að hugsa gagnrýnið heldur tileinka sér dáðleysi frammi fyrir rétttrúnaði. Kapphlaupið er niður á við, markmiðið er að allir verði botnfall. 

Breski sagnfræðingurinn Njáll Ferguson, einn örfárra sem standa undir nafninu stjörnusagnfræðingur, fékk stöðu við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum í byrjun aldar. Hann heimsótti fósturjörðina og varaði sterklega við amerísku boðorðunum um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu. Harvard, áður fremsta menntastofnun vesturlanda, er aðhlátursefni, segir Ferguson.

Frelsi og jöfnuður eru andstæður í heimi hugsunar. Sumir eru heimskir, flestir meðalgreindir, fáeinir snillingar. Náttúrulegur fjölbreytileiki er bannfærður á helvegi háskólanna. Inngilding bágindanna sér til þess. Dáðlaus sauðsháttur er æðsta boðorðið.

 


Bloggfærslur 24. maí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband