Þriðjudagur, 2. apríl 2024
Fagleg fjárkúgun Sigríðar Daggar
Dagar íslenskrar blaðamennsku eru taldir ef skattsvikarinn Sigríður Dögg hlýtur ekki endurkjör sem formaður Blaðamannafélags Íslands. Á þessa leið les fjölmiðlarýnir Viðskipablaðsins, Örn Arnarson, í undirliggjandi skilaboð auglýsingaherferðar Blaðamannafélagsins:
Miðað við útlit herferðarinnar og framsetningu virðist það einnig vera markmið herferðarinnar að fólk fái það á tilfinninguna að því hafi verið að berast fjárkúgunarbréf frá formanni Blaðamannafélagsins...
Tvennt annað vekur athyli fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins. Herferð Blaðamannafélagsins mismunar blaðamönnum, segir suma blaðamenn faglega en aðra ófaglega. Þá hrýs fjölmiðlarýni hugur sá boðskapur að blaðamenn ,,setji fréttir í samhengi".
[Í vitundarherferð Blaðamannafélagsins] er undirstrikað að ekki dugi að blaðamenn segi fréttir, heldur þurfi að setja þær í samhengi og skýra með hag almennings að leiðarljósi. Hvað er verið að segja hér? Jú, við þurfum ekki að leita staðreynda, greina kjarna máls og meta ólík sjónarmið. Við getum bara eftirlátið faglegum blaðamönnum það, sem af fórnfýsi og náungakærleik setji það allt í samhengi fyrir okkur.
Lítum sem snöggvast á þrjú dæmi um ,,faglega" blaðamennsku er setur ,,hlutina í samhengi." Stærsti fjölmiðill landsins, sjálf ríkisútgáfan, RÚV, er í aðalhlutverki í öllum þremur tilvikum. Faglegir blaðamenn á feitum ríkislaunum eiga sem sem sagt í hlut.
Í seðlabankamálinu falsaði RÚV gögn. Í Namibíumálinu var drykkfelldur ógæfumaður eina heimildin fyrir ásökunum um mútur. Í byrlunar- og símastuldsmálinu misnotuðu blaðamenn konu sem gengur ekki heil til skógar, fengu hana til að byrla eiginmanni sínum og stela frá honum síma sem blaðamenn afrituðu.
Blaðamennskan í málunum þrem þverbrýtur grunnreglur vestrænnar blaðamennsku. Aidan White forstöðumaður siðastofnunar blaðmanna, EJN, útskýrir reglurnar, en þær eru:
1. Nákvæmni 2. Sjálfstæði 3. Óhlutdrægni 4. Mannúð 5. Ábyrgð.
Reglurnar fimm eru hornsteinn heiðarlegrar blaðamennsku. Blaðamennskan sem Sigríður Dögg kynnir almenningi á Íslandi sem faglega er í öllum vestrænum ríkjum talin glæpsamlegur óheiðarleiki. Frétt byggð á fölsuðum gögnum er ekki nákvæm. Ekki er til marks um sjálfstæði að RÚV afriti stolinn síma og sendi fréttir til birtingar í Stundinni og Kjarnanum. Hlutdrægnin í málunum þrem er yfirþyrmandi, þarf ekki að ræða frekar. Um mannúð og ábyrgð er það að segja að enginn, hvort heldur blaðamaður eða ekki, með minnsta vott af ábyrgð og mannúð misnotar andlega veika til óhæfuverka.
Mannlíf á Íslandi yrði snöggtum betra án glæpsamlega óheiðarlegrar blaðamennsku. Endurkjör Sigríðar Daggar í formannsstól Blaðamannafélags Íslands er til marks um siðakreppu starfsstéttar. Vitundarvakningin ætti að beinast að blaðamönnum sjálfum, ekki almenningi. Sjálf ætti Sigríður Dögg að sýna fordæmi og axla ábyrgð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)