Tveir kennarar tjá sig, annar missir atvinnuna

Fyrir ári varð framhaldsskólakennari uppvís að hafa í kennslustund jafnað Sigmundi Davíð formanni Miðflokksins við Hitler og Mussólíni. Samkvæmt glæru kennarans eru þremenningarnir ,,merkir þjóðernissinnar." Morgunblaðið sló málinu upp, Vísir einnig.

Síðan gerðist ekkert meira. Málið fjaraði út.

Helgi Helgason kennari við Menntaskólann á Laugarvatni skrifaði um helgina ófagra færslu á Facebook um Bashar Murad er keppti í söngvakeppni RÚV. Starfsferill Helga kennara fjaraði út á þremur dögum.

Kennarinn í Versló líkti Sigmundi Davíð við tvo helstu óþokka sögunnar í kennslustund. Helgi tjáði sig á Facebook utan kennslu. Ólíku er saman að jafna. Agavald skolastjórnenda er yfir kennurum að störfum, ekki yfir frjálsum borgurum utan vinnu. Stjórnarskráin tryggir, eða á að tryggja, rétt manna til að tjá hug sinn.

Ef gefið er að tjáning beggja kennaranna hafi verið óviðurkvæmileg og smekklaus má spyrja hvers vegna aðeins annar varð fyrir alvarlegum eftirmálum, - missti vinnuna.

Nærtæk skýring er að kennarinn í Versló fékk ekki yfir sig holskeflu vinstrimanna, handhafa pólitísks rétttrúnaðar. Helgi fær yfir sig brimskaflinn.

Pólitískur rétttrúnaður, stundum kallaður vók, tekur sér vald til að skilgreina hvað má segja og hvað ekki í opinberri umræðu. Frekja og ofstæki einkennir handhafa valdsins. Engin málsmeðferð er á álitamálum, aðeins einhliða fordæming. Reiðibylgja rís á félags- og fjölmiðlum. Ásökun jafngildir sekt. Slátrun strax í kjölfarið.

Tilfallandi hefur daglega bloggað í tuttugu ár. Það er aðeins á síðustu 3-4 árum sem hann hefur þurft að óttast um atvinnu sína og afkomu vegna bloggskrifa. Tilfallandi athugasemdir eru áþekkar og löngum áður, sjónarmið á dægurmál og landsins gagn og nauðsynjar. Pólitískur rétttrúnaður hefur aftur gert sig gildandi í samfélaginu svo um munar. Frjáls umræða frjálsra borgara lætur á sjá. 


mbl.is Kennari lætur af störfum í kjölfar rasískra ummæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband