Þýski stríðsguðinn vill ekki vakna

Svekkelsi að Þjóðverjar samþykktu ekki í Rammstein að senda skriðdreka í austurveg. Öldin var önnur síðast þegar þýsk stálbelti skriðu í austurátt. Líkt og í dag var fyrir 80 árum viðkvæðið að í húfi væri vestræn menning andspænis austrænni.

Bretar komust í gleðivímu 22. júní 1941 þegar þýskum skriðdrekum var stefnt til Kænugarðs. Áætlun Þjóðverja hét Rauðskeggur. Samkvæmt henni átti að sækja heim Moskvu þegar Úkraína væri að baki. Áætlunin gekk ekki eftir. Stríðsgæfan snerist Rússum í vil. Fjórum árum síðar voru það Rússar sem lögðu undir sig Berlín.

Vonbrigði að Þjóðverjar sendi ekki skriðdreka á austurvígstöðvarnar, segja breskir miðlar eftir fundinn í Rammstein í gær. Afdrif áætlunarinnar Rauðskeggs, Barbarossa á þýsku, situr enn í Þjóðverjum.

Fyrst sendum við skriðdreka, þá herþotur og loks þýska hermenn, segir þýski stjórnmálamaðurinn Sahra Wagenknect, sem vill ekki vekja til lífs þýska stríðsguðinn. Sahra er lengst til vinstri í þýskum stjórnmálum. Á hinum enda pólitíska litrófsins situr hægrikonan Alice Weidel, oft sögð öfgakona. En hún vill heldur ekki gera Þjóðverja að stríðsþjóð.

Sahra og Alice vekja athygli á að Græningjar í Þýskalandi, sem sitja í ríkisstjórn, eru hvað herskáastir. En sjálfir komu forystumenn Græningja sér undan herþjónustu. Hugrekki í orði en hugleysi í verki.

Í Rammstein í gær var Þórdís okkar Kolbrún utanríkis. Ólíkt Söhru og Alice er Þórdís Kolbrún býsna stríðsviljug. Meintar öfgar til hægri og vinstri vilja frið en meginstraumurinn krefst blóðfórna og vopnataks.  

Skjöl, sem nýlega var safnað saman, sýna svart á hvítu að vesturlönd, Nató-ríkin, vildu efna til átaka við Rússland í áravís áður en Úkraínudeilan varð að fullveðja stríði.

Munurinn á stríðinu, sem Þjóðverjar kynntu undir merkjum Rauðskeggs fyrir 80 árum, og Úkraínustríðsins í dag, er að á öldinni sem leið tókust á öfgar, nasismi og kommúnismi. Í dag er það meginstraumurinn, þeir sem telja sig til meðalhófsins, sem eru helstu vinir stríðs og vopnavalds.

Vakni þýski stríðsguðinn úr dvala er stigið skref í átt að þriðju heimsstyrjöld. Að þeir kenni sig við meðalhófið, sem vilja stíga það skref, er giska sérstakt. Umferðinni á gullna meðalveginum er stýrt af brjálæðingum.   

 


mbl.is Flýta þurfi vopnasendingum til Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband