Þriðja heimsstríð, tapi Úkraína

Tapi Úkraína stríðinu við Rússland gæti það leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar, segir Morawiecki forsætisráherra Póllands. Sá pólski er í Þýskalandsheimssókn og hvetur þýsku ríkisstjórnina að senda austur öll þau vopn sem stjórnin í Kænugarði æskir. 

Pólland er herskátt í Úkraínustríðinu. Sögulegar ástæður ráða nokkru en einnig hrá valdapólitík. Pólland var lengi stuðpúði milli Þýskalands og mátti þola búsifjar, síðast í seinna stríði. Veikt Rússland, að ekki sé sagt sigrað, er á óskalista pólskra stjórnvalda. Það styrkir áhrifavald Póllands í Austur-Evrópu. Þá eru pólskir grunaðir um að ætla sér úkraínsk landamærahéruð er áður tilheyrðu Póllandi.

Stoltenberg framkvæmdastjóri Nató talar á sömu nótum og pólski forsætisráðherrann, þótt ekki slengi hann fram heimsendaófriði.

Hvernig á að skilja orðræðuna um þriðju heimsstyrjöldina? Í einn stað hótun að Nató grípi í taumana fari Úkraína hallok á vígvellinum. Í annan stað gerir pólski forsætisráðherrann Rússum upp þá ætlun að hefja þriðju heimsstyrjöldina eftir að hafa sigrað Úkraínu. Fremur langsótt.

Starfsystir Morawiecki, Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands sagði í Íslandsheimssókn fyrir tveim mánuðum að lykilatriði væri að Úkraína ynni stríðið.

Ráðamenn á vesturlöndum, s.s. Morawiecki og Sanna Marin, telja heimsfriðinn í hættu ef nágrannaerjur tveggja slavneskra þjóða fær ekki niðurstöðu sem er Washington og Brussel að skapi.   

Fyrir rúmri öld, sumarið 1914, stóðu ráðamenn í Evrópu í þeim sporum að velja á milli friðar og ófriðar. Þeir kusu átök og úr varð fyrri heimsstyrjöld. Á þeim tíma var almenningur vítt og breitt um álfuna hlynntur stríði. Í dag er almenningur fjarri því að vilja stríð. Af þeirri ástæðu berjast Nató-herir ekki á sléttum Garðaríkis. Án stuðnings almennings er hæpið að vestrænu þjóðirnar sendi heri sína a austurvígstöðvarnar. 

Leiðtogar Nató-ríkja vilja aftur mannfórnir Úkraínumanna til að vesturlönd tapi ekki stríðinu. Tapi Úkraína verði efnt til þriðju heimsstyrjaldarinnar er gefið til kynna. Örvæntingin er áþreifanleg. 

Þeir sem kunna skil á hernaði, t.d. þýski herforinginn Vad, fyrrum ráðgjafi Merkel kanslara, taka vara á vesturlöndum að halda áfram að fóðra ófriðinn í Garðaríki. Kannski verða það yfirmenn herja sem koma vitinu fyrir herskáa stjórnmálamenn. Áður en þriðja heimsstríð skellur á.


mbl.is Senda aukinn herbúnað til Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband