Landsvirkjun, OR og hókus-pókus hagfræðin

Landsvirkjun og OR eru á kafi í hókus-pókus hagfræðinni þar sem peningar vaxa á trjám. Öllu heldur: fjármagn er búið til úr koltvísýringi, CO2.

Dótturfélag OR, Carbfix, fær uppslátt í þýsku útgáfunni Die Welt fyrir að þróa aðferð að dæla koltvísýringi úr andrúmsloftinu ofan í jörðina. Tilfallandi athugasemd fjallaði um stórvirkið fyrir hálfu öðru ári og sagði

Eldgosið í Fagradalsfjalli losar um 10 til 11 þúsund tonn af koltvísýringi, CO2, á dag, segir Jarðvísindastofnun. Fyrsta og stærsta heildstæða lofthreinsi- og förgunarstöðin í heiminum við Hellisheiðarvirkjun fangar 4 þúsund tonn af CO2 á ári.

Jú, þið lásuð rétt. Minna en hálfsdags framleiðsla litlu eldsumbrotanna í Fagradalsfjalli fer ofan í holu á Hellisheiði Á EINU ÁRI.

Landsvirkjun selur fyrir milljarða á ári upprunavottorð, sem er nútímaútgáfa aflátsbréfa miðalda. Upprunavottorðin eru keypt af orkusóðum í Evrópu til að sýna fram á orkuvæna framleiðslu. Vegna sölu á upprunavottorðum/aflátsbréfum er íslensk orka ekki lengur græn nema gegn gjaldi.

Hókus-pókus hagfræðin býr til peninga úr þeirri firru að koltvísýringur sé okkur lifandi að drepa. Veruleikinn er sá að ef við útrýmum koltvísýringi úr andrúmsloftinu jafngilti það sjálfsmorðssáttmála, segir William Happer loftslagsvísindamaður. Koltvísýringur er undirstaða lífs á jörðinni, segir í yfirlýsingu 700 vísindamanna.

Skalat maðr rúnar rísta/ nema ráða vel kunni, kvað Egill Skallagrímsson. Ekki skal fást við galdra nema maður kunni vel skil á þeim. Hókus-pókus hagfræðin steytir á skeri fyrr heldur en seinna.

 


Bloggfærslur 10. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband