Þóra: friðhelgi til að meiða og misþyrma

Þóra Arnórsdóttir á RÚV frábiður sér afskipti lögreglu eða annarra þótt blaðamenn misnoti andlega veikt fólk. Samkvæmt gögnum lögreglu var Þóra í reglulegum samskiptum við verulega veika konu er byrlaði Páli skipstjóra og stal síma hans.

Blaðamenn notuðu skerta dómgreind og bágborið ástand manneskju ,,sér í hag, bæði faglega og fjárhagslega," segir í greinargerð lögreglu.

Þóra og fyrrum samverkamaður hennar, Helgi Seljan, mættu í settið á Fréttavakt Fréttablaðsins. Skötuhjúin stjórnuðu ferðinni, líkt og í fjölmiðlum almennt. Spyrillinn var til skrauts eftir að hann opnaði viðtalið með spurningu um hvort þau hafi eitrað fyrir einhverjum  ,,í dag og stolið síma."

Nærtækara hefði verið að spyrja: hefur einhver vanheill lent í klóm ykkar nýlega sem þið etjið á foraðið til óhæfuverka?

Eftir að Þóra og Helgi tóku yfir prógrammið gekk talið út á að blaðamenn þyrftu hvorki að skeyta um skömm né heiður í vinnu sinni. Allt væri leyfilegt. En blaðamenn yrðu að fá stuðning stjórnmálamanna. Tvíeykinu fannst nokkuð skorta upp á stuðninginn seinni vikur og mánuði og biðluðu ákaft að stjórnmálamenn réttlættu valdníðslu RSK-miðla á minni máttar.

Með tali sínu um stjórnmálamenn vekja Þóra og Helgi athygli á hve pólitík er stór þáttur í starfi þeirra. Blaðamennska er í grunninn til að upplýsa almenning um samfélagið, ekki til að stunda pólitík. RSK-miðlar eru á hinn bóginn ekki í blaðamennsku nema að nafninu til. Fréttir þjóna pólitískum tilgangi þar á bæ. 

Vinkona tilfallandi höfundar vakti athygli á færslu kennara á eftirlaunum, Helga Ingólfssonar, sem skrifaði 18. febrúar, fjórum dögum eftir að vitnaðist um sakborninga í RSK-sakamálinu, eftirfarandi á Fésbók:

Rétt í þessu datt mér í hug bráðskemmtilegt plott að sakamálasögu:
Manni er byrlað eitur á Akureyri, helst af einhverjum nákomnum, til að hægt sé að koma honum lífshættulega veikum á Landspítala í Reykjavík til þess að þar sé hægt að "stela" síma hans um stundarsakir og koma þeim síma yfir í hús í grenndinni, t.d. RUV, til þess að hægt sé að "hakka" þar símann á augabragði fyrir tilstilli yfirmanns á stofnuninni og hinu "stolna" efni síðan komið til annars fjölmiðils (frekar en að fréttastofan nýti sér efnið sjálf), en símanum á meðan laumað aftur á sinn stað.
Í sögunni gæti t.d. leiftursnjall framhaldsskólakennari í Garðabæ vitað mest um og lesið út alla þessa fléttu með hyggjuvitinu einu, þar með talda eiturbyrlunina.
Svo mætti líka láta koma við sögu auðtrúa löggu sem trúir sólarsögunni og hefur jafnframt stjórnmálalega þræði inn í stjórnmálaflokk, sem farið hefur með lögreglu- og dómsmál um áraraðir, og auk þess formaður þess stjórnmálaflokks sem jafnframt er ráðherra (en hefur samt ekkert með þann málaflokk að gera), en þarf að standa sig og vill sýnast duglegur að standa við bakið á sínu fólki.
Tilvalið skáldsagnaefni? Þannig gæti jú sagan teygt sig inn á ólík svið samfélagsins. Jafnvel gæti verið einhver ytri rammi með misjöfnum blaðamönnum, skæruliðadeild og stórfyrirtækjarekstri með eignauppsogi og nýlenduherraarðráni í bakgrunni.

Helgi er rithöfundur, heldur til vinstri í pólitík, og sér plottið sínum augum. Í hans útgáfu vantar aftur tvennt. Í fyrsta lagi ljótleikann sem felst í því að misnota veikt fólk. Í öðru lagi hlut vinstrimanna að erja akurinn. Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar er prýðisgott dæmi. Eftir að stolnu gögnin voru færð í búning frétta á Stundinni og Kjarnanum skrifaði Helga Vala á Twitter:

#Samherjaskjölin Hef eins og aðrir lesið @stundi og @Kjarninn
um helgina um spillinguna í stjórnendum Samherja. Þetta eru fjölmiðlar sem sjálfstæðismenn segjast hunsa, þeir skrifi falsfréttir og séu ekki að vinna fréttir. Er þakklát fyrir fjölmiðlafólk sem þorir.
Já, og munum að við getum látið fréttir og umfjöllun berast um samfélagsmiðlana sem líka eru fjölmiðlar. Þessi barátta sem nú er háð er um okkar auðlindir og okkar orðspor. Um hagsmuni lítillar eyþjóðar.   

RSK-miðlar starfa í þjónustu vinstriflokka sem vilja halda að almenningi tiltekinni heimsmynd. RSK-miðlar skaffa áróður í formi frétta, sem vinstrimenn og virkir í athugasemdum dreifa út um allar trissur sem heilögum sannleika.

Helgi og Þóra eru þaulvanir fréttamenn. Settið á Fréttavaktinni sýndi aftur taugaveiklun. Handapatið og flöktandi augnaráð kom upp um sjónvarpsstjörnurnar. Helgi og Þóra skynja að hratt fjarar undan þeim. Fólk með snefil af sjálfsvirðingu forðar sér á hlaupum frá fjölmiðlum sem misþyrma þeim er ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. 

Réttlætisriddarar RSK-miðla vilja friðhelgi til að misþyrma og meiða í þágu málstaðarins. En málstaðurinn er ekki betri en aðferðirnar sem beitt er til að afla fylgis við hann. Þegar þarf að beita aðferðum RSK-miðla má öllum vera ljóst að málstaðurinn er forarpyttur ljótleika og lögbrota.

Stjórnmálamenn flýja RSK-miðla unnvörpum. Þeir vilja ekki sogast niður í ræsið með þeim þegar ákærur verða birtar og öll gögn lögreglu opinberast.

Sakborningarnir í RSK-sakamálinu eru á gálgafresti í siðuðu samfélagi. 


Bloggfærslur 25. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband