Gorbatsjov breytti heiminum - til hins verra

Gorbatsjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, var góðmenni sem breytti heiminum til hins verra.

Gorbatsjov lagði niður Sovétríkin og felldi járntjaldið sem skipti heiminum, Evrópu sérstaklega, í austur og vestur. 

Eftir fall Sovétríkjanna var tekin upp í kommúníska hluta Evrópu regla sem annar góðviljaður maður kynnti heimsbyggðinni fyrir rúmri öld, Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti. Þjóðríkjareglan, að hver þjóð ætti að eiga sitt ríki, er skynsöm og réttlát. En í framkvæmd eftir fyrri heimsstyrjöld bjó hún í haginn fyrir þá seinni.

Eins með upplausn Sovétríkjanna; hún var söguleg nauðsyn sem leiddi af sér óreiðu er ekki sér fyrir endann á.

Þegar eitt skipulag fellur, tvenn þýsk keisararíki eftir fyrra stríð og eitt rússneskt, fylgir upplausnarástand í áratugi. Í dag gímir heimurinn við afleiðingarnar af falli Sovétríkjanna á sléttum Úkraínu. Vestrið hyggst þar heimta sigurlaunin eftir uppgjöf Gorbatsjov í kalda stríðinu fyrir 30 árum.

Í kalda stríðinu var heimurinn öruggari og fyrirsjáanlegri. En hvorki var hægt að framlengja kalda stríðið né lengja líftíma Sovétríkjanna. Skipulagið eftir seinna stríð var gengið sér til húðar. 

Til að friðsamleg sundurlimun Sovétríkjanna og Austur-Evrópu hefði mátt ganga fram og verða liður í nýrri heimsskipan hefði hin hliðin á kaldastríðsjöfnunni, Bandaríkin og Vestur-Evrópa, orðið að þættast líkt og sovéska hlið jöfnunnar. En það stóð aldrei til. Sigurvegarinn vildi sín verðlaun. Mannlegur breyskleiki er samur við sig, tekur sigur í vegferð til glötunar fram yfir skynsama málamiðlun.

Jafnvel bestu menn, góðviljaðir og vandaðir, eru leiksoppar kringumstæðna.

Framlag Gorbatsjov, sem mun halda nafni hans á lofti um ókomna tíð, er að honum tókst að leysa í sundur heimsveldi á friðsaman hátt. Eftirleikurinn var ekki í hans höndum. 

Blessuð sé minning Mikhail Gorbatsjov, aðalritarans sem gerði flest rétt en fékk samt slæma útkomu.


mbl.is „Breytti gangi sögunnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband