Sunnudagur, 8. maí 2022
Pólsk innrás í Úkraínu líkleg
Rússar ætla sér að innlima suður- og austurhluta Úkraínu. Nafnið Nýja-Rússland er komið á flot í umræðunni. Á meðan vestrænir fjölmiðlar flytja fréttir af sigrum Úkraínumanna sækja Rússar fram hægt en örugglega í suðri og austri. Pólverjar eru líklegir til að hugsa sér til hreyfings í vesturhluta Úkraínu.
Tilgátan um að pólskur her færi inn í Galisíu-héraðið, í kringum borgina Lviv, fékk tilfallandi kynningu fyrir viku og þá sem langsótt samsæriskenning. Vika í stríði er eins og vika í pólitík, getur breytt rás viðburða. Pólverjar misstu Galisíu í lok seinna stríðs og eru áhugasamir um endurheimt héraðsins. Tækifærið virðist núna.
Úkraína er, að áliti þeirra sem til þekkja, á hraðri leið að verða eyðiland, ónýtt ríki. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi tapar úkraínski herinn fyrir þeim rússneska. Mannfallið er líklega einn á móti fjórum; fyrir hvern einn rússneskan hermann deyja fjórir úkraínskir. Rússar er þrisvar sinnum fjölmennari þjóð en Úkraínumenn. Myndir af föllum hermönnum sýna miðaldra karla sem voru borgarar síðustu jól. Þeir eiga ekki roð við atvinnuhermönnum.
Í öðru lagi er bandarískur og vestrænn stuðningur við stjórnina í Kænugarði skilyrtur við að engir samningar verði gerðir við Rússa. Bandaríski varnarmálaráðherrann sagði það skýrt: Úkraínumenn eru vestrænt fallbyssufóður til að veikja hernaðarmátt Rússa. Selenskí forseti og stjórn hans standa og falla með vestrænni aðstoð. Þess vegna verður ekki samið.
Án samninga heldur Úkraína áfram að glata herliði og landsvæði. Enginn veit markmið Rússa. Kunnugir gefa sér að Rússar hafi áhuga á 30-50 prósent Úkraínu. Líklega stefna þeir á að taka Ódessu í suðvestri en við það yrði stjórnin í Kænugarði landlukt.
Á hinn bóginn. Ef pólskur her færi inn í vesturhluta Úkraínu, undir formerkjum friðargæsluliðs, með vitund Bandaríkjanna og e.t.v. vilyrði stjórnarinnar í Kænugarði, myndi það hafa fælingaráhrif á Rússa. Pólland er Nató-land og þvældist ekki inn í Úkraínu án þegjandi samkomulags við Rússa. Pæling Pútín og félaga gæti verið að ný víglína í vestri gerði þeim auðveldara fyrir á austurvígstöðvunum. Óðara myndu einhverjir úkraínskir þjóðernissinnar vilja berjast við Pólverja - burtséð frá hvað Selenskí forseti segir.
Annað og stærra hangir á spýtunni fyrir Rússa. Pólsk innrás í Úkraínu staðfesti kenninguna um að staðan fyrir 24. febrúar síðastliðinn, þ.e. fyrir innrás Rússa, var ekki sjálfbær. Úkraína var of stórt land til að verða Nató-ríki, séð frá hagsmunum Rússa, og það er of stórt til að verða í heild sinni eign Rússlands, séð frá bandarískum Nató-sjónarhóli.
Pólsk innrás þjónaði hagsmunum Rússa. Þeir gætu jafnvel sleppt að ráðast á Ódessu, sem er suður af Galisíu, og látið Pólverja og stjórnina í Kænugarði bítast um borgina.
Reuters hafði eftir rússneskum leyniþjónustuforingja að pólsk innrás væri í bígerð. Falsfrétt, var sagt á vesturlöndum. Gonzalo Lira, gúrú í augum þeirra sem ekki trúa vestrænum fjölmiðlum, og þeim fer fjölgandi, segir að áætlun um pólskar aðgerðir í Galisíu sé fyrir hendi. Hann fullyrðir að Medvedev, sem var staðgengill Pútín um hríð, hafi gefið Pólverjum grænt ljós.
Bandaríkin og Nató myndu tapa pólitískt á pólskum aðgerðum í Úkraínu en styrkjast hernaðarlega. Af þeirri ástæðu getur orðið bið á að áætluninni verði hrint í framkvæmd. En eftir því sem Úkraína minnkar í austri verður brýnna fyrir Nató-ríkin að styrkja sig í Vestur-Úkraínu. Það verður ekki gert nema með pólskri aðstoð.
Að tjaldabaki er plottað um framtíð Úkraínu. Á vígvellinum deyja menn í hrönnum. Sorglegt er að hugsa til þess að með samningum hefði mátt koma í veg fyrir ósköpin. Úkraína hefði getað orðið hlutlaust land á milli Nató-blokkarinnar og Rússlands.
![]() |
300 yfirgefa verksmiðju í Maríupol |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)